KVENNABLAÐIÐ

Heimilislausar kisur á Íslandi

„Ó hvað ég vildi óska þess að einhver myndi koma og taka mig með sér heim, knúsa mig, gefa mér eitthvað smá að borða og leika við mig. Ég skal lofa að vera góð, mala og pissa ekki inni“

Svona gæti kisan á myndinni hér að ofan verið að hugsa, alein lokuð inni í búri í Kattholti.

Kattholt er eini samastaður heimilislausra katta hér á landi og því mikilvægt að við sýnum Kattavinafélaginu stuðning í verki, ekki bara með því að koma og taka að okkur sætar kisur heldur líka með frjálsum framlögum.

Á Facebook síðu félagsins er að finna þessar hagnýtu upplýsingar fyrir þá sem eru í kisuhugleiðingum:

“Tilgangur Kattavinafélagsins var að vinna að betri meðferð katta og standa vörð um að kettir njóti þeirrar lögverndar sem gildandi dýraverndunarlög mæla fyrir um og stuðla að því að allir kettir eigi sér húsaskjól, mat og gott atlæti.

Þegar köttur er fenginn úr Kattholti er ákveðið ferli sem kisi fer í gegnum áður en hann fer á nýtt heimili. Við látum ketti ekki frá okkur nema þeir séu geldir/teknir úr sambandi, örmerktir og ormahreinsaðir. Vegna þess þurfa verðandi eigendur að greiða 18.000,-. Yfirleitt fer kisa EKKI á nýtt heimili samdægurs, nema búið sé að gelda, örmerkja og ormahreinsa áður.“

 Svona gengur ferlið fyrir sig:

„Best er að koma mánudag, þriðjudag eða miðvikudag, því að við fáum til okkar dýralækna á fimmtudögum eða föstudögum og kisurnar fara helst ekki frá okkur nema amk. örmerktar og ormahreinsaðar. Ef kisan er nógu gömul, þá geldum við hana líka.

Ef kisa er of ung til að vera tekin úr sambandi þá fær fólk kisuna örmerkta og ormahreinsaða og fær með henni kvittun upp á geldingu sem er svo farið með upp á Dýraspítalann í Víðidal þegar kisan er nægilega gömul til að taka úr sambandi.

Fólki er vísað inn í herbergi eftir hvað það óskar eftir; fress, læða eða kettlingur. Þar velur fólk sér kisu ef þeim líst vel á einhverja. Þá er kisan tekin frá, borgað fyrir hana og hún getur verið sótt á fimmtudegi eða föstudegi.“

 

Hægt er að skrá sig í Kattavinafélag Íslands með því að fara á heimasíðu Kattholts.

Hér eru svo nokkrar kisur sem bíða eftir því að þú komir og knúsir þær.

 

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!