KVENNABLAÐIÐ

Myndum við rúlla ömmu gömlu bakvið ruslageymslu Landspítalans?

Kolbeinn Karl Kristinsson skrifar á Facebook um baráttu fárveiks bróður og samskipti fjölskyldunnar við Landspítalann og aðkomu lögreglu vegna þess:

Í gær kallaði Landspítalinn á lögreglu til að fjarlægja mig, fjölskyldu mína og veikan bróður minn af Landspítalanum, þvert á lög, siðareglur og meira að segja þvert á læknaeiðinn sjálfan. Ekki vegna þess að við værum með óspektir heldur vegna þess að við neituðum að leyfa Landspítalnum að brjóta á rétti okkar og réttindum sjúklings til viðeigandi heilbrigðisþjónustu.

Ég fór á endanum í góðu með fárveikan bróður minn af spítalanum, eftir margra klukkutíma störukeppni, en mamma mín og systir voru handteknar og færðar niður á lögreglustöð. Handteknar fyrir að reyna að bjarga mannslífi, handteknar fyrir að berjast fyrir því að Landspítalinn færi að lögum, handteknar fyrir það að standa með réttlætinu, handteknar fyrir brot annarra, þeirra lækna sem ekki fara eftir lögum og þeim eiði sem þeir undirrita.

Auglýsing

Hér var ekki við lögregluna að sakast, hún virtist standa 100% með okkur, ekki við bróður minn heldur, hann vildi ekki útskrifast og hafði ekkert gert af sér til að verðskulda það. Hér var ekki við lögmenn okkar að sakast heldur, þeir reyndu allt til að tala okkar máli og bróður míns. Það sem er þó alvarlegast er að hér brást kerfið ekki heldur, það voru starfsmenn kerfisins sem brugðust, starfsmenn sem höfðu úrræðin, lausnirnar og valdið sem kerfið gaf þeim til að koma til hjálpar en kusu að gera það ekki og vildi frekar útskrifa fárveikan einstakling á götuna.

Fordómar gagnvart geð- og fíknisjúkdómum hjá starfsmönnum heilbrigðiskerfisins, sem þó segjast sérmenntaðir á því sviði, gera mig orðlausan. Þögul mótmæli mömmu minnar og systur sem völdu að láta handtaka sig í nafni réttlætisins eru mér innblástur. Af uppeldinu hef ég lært að þegar brotið er á þér þá tekur þú slaginn, æra hvers manns er það mikilvægasta sem hann á. Mamma og systir mín eru hetjur, og það er bróðir minn og pabbi líka.

Íslenski læknaeiðurinn er svo hljóðandi:

„Ég sem rita nafn mitt hér undir, lofa því og legg við drengskap minn
að beita kunnáttu minni með fullri alúð og samviskusemi
að láta mér ávallt annt um sjúklinga mína án manngreinarálits
að gera mér far um að auka kunnáttu mína í læknafræðum
að kynna mér og halda vandlega öll lög og fyrirmæli er lúta að störfum lækna.”

Þennan eið brjóta læknar á geðdeild Landspítalans daglega gagnvart einstaklingum með geðræna sjúkdóma. Fárveikum einstaklingum er neitað um vist eða þeir útskrifaðir án fyrirvara út á götu án áframhaldandi úrræðis. Það er brot á lögum. Einum slíkum lækni, Elínu Hrefnu Garðarsdóttur, fékk ég að kynnast í dag og óska þess engum að þurfa að gera slíkt hið sama.

Auglýsing

En byrjum á byrjuninni…

Fyrir nokkrum dögum var bróðir minn lagður fárveikur inn á geðdeild Landspítalans eftir 20 ára baráttu við geðræn vandamál og mikla fíkn. Þess til viðbótar er bróðir minn heimilislaus og sviptur lögræði, bæði sjálfræði og fjárræði. Ástæðan er sú að hann getur ekki haft stjórn á eigin lífi vegna þeirra geðrænu sjúkdóma sem hann glímir við. Hann getur ekki staðið á eigin fótum og fyrir höndum er löng og ströng barátta við að aðstoða hann aftur út í lífið, barátta sem hefur staðið í 20 ár og markerað alla fjölskylduna.

Eftir sjö mánaða vist á Kleppi var bróðir minn útskrifaður út í djúpu laugina, án nægjanlegs aðhalds, og auðvitað tók það hann ekki nema nokkra daga að komast aftur á braut fíknarinnar. Markmiðið nú var að koma honum í lokað úrræði þar sem hann yrði aðstoðaður við að komast aftur út í lífið í litlum skrefum, með auknu frelsi eftir því sem batinn leyfði og færnin til að takast á við lífið ykist.

Til að þetta gæti orðið var nauðsynlegt að um samfellda meðferð yrði að ræða, að eitt viðeigandi úrræði tæki við af öðru. Að útskrifa hann á götuna á meðan næsta úrræði losnaði var ekki valkostur.

Fyrsta skrefið var að fá hann lagðan inn á Landspítalann. Í fyrstu tilraun var okkur vísað frá (maður heyrir aldrei um mann með fótbrot sem er vísað frá). Í annarri tilraun tókst það eftir að pabbi hafði lagt á borðið úrskurð frá Héraðsdómi Reykjavíkur um sjálfræðissviptingu bróður míns, þar sem skýrt kom fram að hann væri með öllu ófær um að standa á eigin fótum og þarfnaðist langtímaúrræðis.

Nokkrum dögum eftir innlögn á Landspítalann var okkur sagt að á komandi dögum væri planið að hann yrði færður af almennri deild yfir á fíknigeðdeild, sem hafði verið lokuð vegna sumarfría (sem er ótrúlegt út af fyrir sig). Án fyrirvara breyttist þetta plan þó og fengum við þær fréttir að ekkert yrði af því, hann yrði útskrifaður strax út á götu, hann liti vel út og að Landspítalinn væri ekki búsetuúrræði. Hér er annars vegar um að ræða vanþekkingu á eðli geðsjúkdóma, því þeir byggja ekki á útliti fólks, og hins vegar vanþekkingu á kjarna vandamálsins, sem engan veginn tengist búsetuúrræðum, heldur hæfni til að takast á við lífið og samfélagið vegna þeirra veikinda sem hann tekst á við.

Í orðunum um „búsetuúrræðið’’ (sem aðstandendur fárveikra fíkla kannast allir allt of vel við úr munni heilbrigðisstarfsfólks) felst líka andlegt ofbeldi því með þeim nýtir Landspítalinn sér aðstæður sjúklingsins gegn honum. Áframhaldandi samfelld meðferð hefur ekkert með búsetuúrræði að gera, hún hefur með meðferð á veikum einstaklingi að gera. En vegna þess að hann er í þeim aðstæðum að vera í ofanálag heimilislaus er það notað gegn honum. Hver væru rökin ef hann væri ekki heimilislaus?

Án þess að blikka augunum eru læknar Landspítalans tilbúnir að brjóta jafnræðisreglu stjórnvalda. Aðrir veikir einstaklingar sem bíða eftir að komast í áframhaldandi úrræði, svo sem eldra fólk sem bíður eftir því að komast á elliheimili, er ekki útskrifað á götuna og er ekki sakað um að nýta sér spítalann sem búsetuúrræði. Það fær að bíða á spítalanum því það er heilbrigðiskerfið sem hefur klikkað með því að vera ekki tilbúið með viðeigandi úrræði. Þeir sem eru með geðræn veikindi mega hinsvegar frjósa úti.

Ímyndið ykkur ef aldraðri ömmu ykkar með heilabilun væri rúllað út af spítalanum í hjólastólnum og hún skilin eftir við ruslatunnurnar hjá Landspítalanum af því að það væri flöskuháls í kerfinu, það væri fullt á elliheimilinu. Hún væri reyndar ófær um að sjá um sig sjálf en það væri ekki vandamál spítalans.

– Spítalinn er jú ekki til að annast veika einstaklinga er það?…. eða bíddu nú við…jú!
– En allavega þá er ekki eins og bróðir minn sé lögræðissviptur vegna þess að hann er svo fárveikur að hann getur ekki staðið á eigin fótum… eða bíddu nú við… ú!
– Ókei… að minnsta kosti er ekkert til sem heitir jafnræðisregla sem tryggir einstaklingum sambærilega úrlausn mála hjá stjórnvöldum né heldur talar læknaeiðurinn um að ekki megi fara í manngreiningarálit…eða bíddu nú við…jú!
– En ókei, hvað sem öllu líður þá getum við huggað okkur við að það er ekkert til sem heitir meðalhófsregla sem tryggir einstaklingum að ríkið taki ekki íþyngjandi ákvarðanir eins og að útskrifa einstakling út á götu?…eða bíddu nú við…jú!
– Já en það að minnsta kosti ekkert í lögum um réttindi sjúklinga sem tryggir þeim samfellda meðferð né að aðstæður þeirra séu skoðaðar fyrir útskrift? … eða bíddu nú við… jú!

Er ég þá eitthvað að misskilja, var kannski verið að þverbrjóta lög og læknaeiðinn eftir allt saman? Ja hérna, skrítið að það hafi ekki legið í augum uppi fyrir alla sem það vildu sjá.

En áfram með söguna…

Vitandi að bróðir minn er alvarlega veikur og getur ekki verið út í samfélaginu fórum við strax upp á geðdeild til að mótmæla þessari ákvörðun og til að tryggja að farið yrði að þeim réttindum sem sjúklingum eru tryggð.

Við komu okkar á spítalann hófst leikrit sem ekkert okkar grunaði að myndi eiga sér stað. Okkur var tjáð að skipun hefði komið frá lækni um að útskrifa hann og því yrði ekki breytt. Ekki væri heldur mögulegt að tala við læknirinn, aðeins læknanema sem læknirinn ákvað greinilega að láta sjá um skítverkin.

Þó Guðmundur Sævar Sævarsson, deildarstjóri öryggis- og réttargeðdeildarþjónustu Landspítalans, hafi sagt í viðtali að einstaklingar yrðu ekki útskrifaðir út á götu, því það væri siðferðilega rangt þá virtist vakthafandi læknir ekki sama sinnis. Út skyldi fárveikur sjúklingurinn fara og alveg sama þó það þýddi að hann gisti á götunni.

Eftir að hafa beðið í rúman klukkutíma kom læknirinn loksins. Það var augljóst frá upphafi samtalsins að hann var ekki þarna til að ræða við okkur í rólegheitum heldur mætti hann í ham frá fyrstu sekúndu, hann var mættur til að leggja okkur línurnar, blákallt, þvert á lög um réttindi sjúklinga, þvert á lög um heilbrigðisstarfsmenn og þvert á eðli þess vanda sem við var að etja.

Eftir örstuttar rökræður, þar sem við komumst lítið sem ekkert að vegna ákafa hennar, hallaði læknirinn höfðinu til bróður míns og sagði með háðslegri röddu; „Það er aldeilis að þau hafa trú á þér.“ Við þetta reiddist systir mín mjög, smellti saman höndum og sagði að það væri ólíðandi að tala með þessum hætti og tón við veikan einstakling. Bæði niðurlagði læknirinn hann og okkur, en síðast en ekki síst afhjúpaði hún sjálfa sig. Markmiðið var ekki að koma til aðstoðar því hún hafði ekki trú á honum fyrir fimm aura, þvert á læknaeiðinn, heldur var hún hissa á því að við skyldum hafa þessa trú á honum.

Eftir að reiði okkar varð ljós rauk læknirinn á dyr og út af deildinni. Við tóku samtöl mín við lögfræðing og lögráðamann bróður míns, sem var staddur erlendis, sem bað spítalann um að fresta ákvörðuninni um einn dag svo annar lögmaður, fulltrúi hans, gæti fundað með læknum og aðstandendum. Ekki var orðið við því og engan bilbug var á starfsfólkinu að finna.

Ekki var heldur orðið við því að sérfræðilæknirinn kæmi aftur svo ég gæti talað við hann í rólegheitum undir fjögur augu og farið yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp var komin gagnvart sjúklingi í hennar umsjón.

Nokkru síðar komu fjórir einkennisklæddir lögreglumenn sem kallaðir höfðu verið til, þar sem við neituðum að yfirgefa spítalann án þess að hann færi að lögum um réttindi sjúklinga og virti bæði jafnræðisreglu og meðalhófsreglu. Á móti mér tóku fjórir frábærir lögreglumenn og fórum við saman yfir málið og lögbrot spítalans frá a-ö. Aðstoð þeirra var til fyrirmyndar.

Hefði læknirinn verið starfi sínu vaxinn hefðum við getað gert slíkt hið sama, sest niður yfir kaffibolla og farið yfir málið, ég hefði sýnt honum fram á að lagalega, siðferðilega og læknisfræðilega væri ekki hægt að útskrifa fárveikan einstakling út á götu. Finna þyrfti í sameiningu áframhaldandi úrræði sem gerði honum kleift að fá lækningu sem matreidd yrði í litlum skrefum, samblöndu af spítalavist, meðferð, áfangaheimilum og í kjölfarið fullum bata með miklum stuðningi frá kerfinu. En því miður þótti henni Elínu Hrefnu Garðarsdóttur skrítið hvað við höfðum nú mikla trú á honum.

Eftir hina löngu störukeppni var ljóst að ekki yrði farið lengra, út á götu skyldi hann útskrifaður og bárum við fatapoka hans út af deildinni. Hurðinni var skellt í lás á eftir okkur. Mamma mín og systir neituðu hinsvegar að gefast upp. Í hundraðasta skiptið átti að útskrifa hann fárveikan vegna flöskuhálsa í kerfinu og vanþekkingar sérfræðilækna í eigin fagi. Í þetta skiptið sögðu þær „hingað og ekki lengra.“ Þær völdu því að láta handtaka sig, bera sig út og niður á lögreglustöð. Það var ekkert uppsteyt, bara þögul mótmæli gegn kerfi með fordóma gagnvart alvarlegum geðsjúkdómum.

Við erum fjölskylda sem stendur saman og ætlum ekki að gefast upp og já – við höfum óbilandi trú á bróður okkar – en öllu minni trú á heilbrigðiskerfinu og færni þess til að takast á við alvarleg geðheilbrigðisvandamál fárveikra einstaklinga. Er ekki nóg að sjúklingar takist á við eigin vandamál, eiga þeir líka að bera ábyrgð á vandamálum kerfisins?

Við myndum ekki rúlla ömmu gömlu bakvið ruslageymslu Landspítalans, hættum því að gera það við sjúklinga sem eiga við geðrænan- og/eða fíknivanda að stríða.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!