KVENNABLAÐIÐ

Þrjú stór áföll gerð upp: Barðist fyrir lífi sínu með hnefastórt æxli í lifrinni

Texti: Steingerður Steinarsdóttir
Myndir: Rúna Björk Magnúsdóttir

Ragnheiður Guðmundsdóttir hefur aldrei verið sterkari þrátt fyrir að líkaminn glími við veikindi. Hún greindist með krabbamein fyrir sjö árum og í kjölfarið horfðist hún í augu við og gerði upp margvísleg áföll. Reynslu sína fangaði hún í orð í áhrifamikilli ljóðabók, PTSD – ljóð með áfallastreitu.

Hvað ýtti þér af stað í ljóðaskrif? „Það voru áföllin,“ segir hún. „Ég hef alltaf haft áhuga á að skrifa en ekki haft tíma til þess fyrr – en eftir krabbameinið komu öll þessi áföll upp á yfirborðið. Ég fór að vinna með þau og sjálfsmyndina sem er hluti af áfallastreitu. Ég var með svo brotna sjálfsmynd en í veikindinum upplifði ég mig aðra manneskju, nýja manneskju og þurfti þá að fara að byggja upp nýja sjálfsmynd. Á sama tíma þurfti ég að taka til í þeirri gömlu og þeim áföllum sem höfðu mótað þá sjálfsmynd.

Það varð hluti af mínum endurhæfingarprósess að skrá mig í Háskóla Íslands, í stjórnmálafræði og ritlist. Við lærðum um ljóð í ritlistinni og hluti af því var að lesa ljóð Ástu Sigurðardóttur og ég sá allt annað úr þeim en samnemendur mínir. Þar sem þeir sáu ást og kynlíf sá ég bara ofbeldi og meðvirkni. Þau ýttu undir áfallastreituna hjá mér og ég sat þarna í kvíðakasti. Ég fór heim heltekin kvíða og hugsaði með mér: Já, hún getur skrifað um áföllin sín, kannski ætti ég bara að taka upp pennann og fara að skrifa sjálf um mín áföll og hvernig mér líður. Tala um þessar tilfinningar og hugsanir sem áföllin kveikja með mér, um áhrif þeirra á sjálfsmyndina og ég byrja að skrifa ljóð. Öll þessi ljóð fæddust í kvíðakasti meðan ég reyndi að skilja hugsanir mínar og tilfinningar, brenglaða sjálfsmynd og brengluð samskiptamynstur. Allt þetta var mótað af þeirri manneskju sem ég var fyrir krabbameinsgreininguna.“

Þrjú stór áföll gerð upp

Ljóðin eru, eins og áður segir, ákaflega sterk. Þau lýsa sum ofbeldi en önnur erfiðum tilfinningum. „Frá fimmtán ára aldri til nítján ára lenti ég ítrekað í ofbeldi, kynferðislegu, líkamlegu og andlegu,“ segir hún. „Ég var með viðkvæma sjálfsmynd fyrir sem unglingur og þetta hafði þau áhrif að hún var brotin í spað. Eftir það tímabil mátti enginn maður koma nálægt mér, ég hleypti þeim ekki að mér líkamlega hvað þá að hjartanu.“

Augljóslega lýsir þú ofbeldissambandi í mörgum ljóðunum en eru áföllin fleiri? „Já, um er að ræða þrjú stór áföll tengd ofbeldi, í því fyrsta varð ég fyrir kynferðisofbeldi þegar ég var unglingur af hálfu einstaklings sem ég var mjög náin, síðan var ég í sambandi í tvö ár, var með manni sem ég var sjúklega ástfangin af en hann beitti mig miklu andlegu ofbeldi og svo varð ég fyrir því að úti á götu réðst á mig maður sem ég veit ekki einu sinni hver er.

Þetta byrjaði með því kynferðisofbeldi sem ég varð fyrir fimmtán ára og það smitaðist inn í þetta ofbeldissamband sem ég átti í sem unglingur. Ég var sextán þegar það byrjaði og átján þegar það endaði. Hann fór yfir mörk mín bæði kynferðislega og andlega. Hann reyndi að gera mig afbrýðisama, vekja hjá mér tortryggni og á sama tíma treysti hann mér ekki og var sífellt að ásaka mig. Hann talaði einnig niður til mín og kom reglulega með ýmsar neikvæðar athugasemdir um líkama minn og útlit. Ég var svo ástfangin af þessum manni að ég sá ekki sólina fyrir honum og þar af leiðandi trúði ég gagnrýni hans um mig. Ég gekk í gegnum svakalega ástarsorg þegar við hættum saman. Bróðir minn kom heim úr námi og flutti inn á okkur. Honum ofbauð hvernig hann kom fram við mig og henti honum út. Sagði bara: „Þú kemur ekki svona fram við systur mína.“ Og henti honum út á götu.“

Baðst afsökunar fimm árum síðar

Hvernig brást þú við því? „Ég var niðurbrotin og grét mikið en upp frá þessu tók við „haltu mér, slepptu mér“-leikur hjá þessum fyrrum kærasta. Hann var erlendur og flutti heim í kjölfarið og tók upp á að hringja í mig og grátbiðja mig að koma. „Komdu, ég sakna þín svo mikið. Ég get ekki verið án þín,“ var viðkvæðið. Ég sagðist kannski myndu koma en þá hringdi hann aftur og sagði mér að koma ekki. En þetta endaði með því að ég sagði bara: „Go fuck yourself,“ og skellti á hann. Fimm árum síðar bjó ég í Barcelona og var í strætó þegar síminn hringdi. Það var þessi maður og hann vildi biðja mig afsökunar á hversu illa hann hafði komið fram við mig. Kannski hafði hann verið að vinna eitthvað í sjálfum sér. Hann var auðvitað brotinn sjálfur.“

Var það kannski ákveðinn léttir fyrir þig að bróðir þinn tók af skarið þannig að þú þurftir ekki að taka þá ákvörðun að slíta þessu? „Á vissan hátt en á sama tíma var allt samt svo óuppgert. Ég man ég grét svo ofboðslega mikið. Mér leið eins og hjartað í mér væri poki fullur af brotnu gleri og það klingdi í þegar glerbrotin nudduðust saman. Ég var auðvitað með brotna sjálfsmynd fyrir og svo yfir mig ástfangin af manninum sem kom svona illa fram við mig. Ég hélt að eitthvað væri að mér vegna þess ofbeldis sem ég varð fyrir í æsku, hélt ég að ég hefði á einhvern hátt boðið upp á þetta, væri kynferðislega brengluð einhvern veginn. Ég var bara ekki nógu sterk og svo var ég auðvitað svo ung.“

This image has an empty alt attribute; its file name is Ragnheidur-Gudmundsdottir-1-683x1024.jpg

Barðist fyrir lífi sínu

Ragnheiður er auðvitað ekki ein um að hafa verið tilbúin til að þola ómældan sársauka fyrir ástina en svo kom þriðja áfallið. „Nítján ára lenti ég í því að það réðst á mig maður og ég myndi ekki þekkja hann þótt ég sæi hann úti á götu. Ég barðist fyrir lífi mínu. Sparkaði, sló og klóraði og hann var líka mjög ofbeldisfullur. Honum tókst að hafa mig undir um tíma. Hann ætlaði að nauðga mér en ég slapp áður en kom að því. Það tók samt smátíma. Hann hefur aldrei fundist enda lagði ég útlit hans ekki á minnið. Það eina sem ég gat hugsað um var að komast undan.

Eftir þetta lokaði ég alveg á karlmenn í sjö ár. Ég var hrædd við þá og gat ekki hugsað mér að verða særð aftur. Mér fannst ég líka ekki eiga skilið að vera elskuð. Að ég væri gölluð og enginn gæti elskað mig. Þegar ég fór að opna á kynlíf aftur leyfði ég stundum mönnum að fara yfir mín mörk. Ég hugsaði þá með mér: Æ, af hverju var ég að leyfa þetta? Ég er orðin þetta gömul og leyfi samt að farið sé yfir mín mörk.

Það var auðveldara að vinna úr þessari árás en hinum ofbeldismálunum. Hin málin höfðu mest áhrif á að ég vildi ekki hleypa karlmönnum að mér. Árásin var bara punkturinn yfir i-ið þegar kom að trausti mínu til karla. Um leið og ást og kærleikur eru komin inn í ofbeldi verður allt svo brenglað. Það hefur tekið mig langan tíma að vinna úr kynferðisofbeldinu sem ég varð fyrir sem unglingur og þau sjúku samskipti sem fylgdu í kjölfarið.“

Fann ástina að tólf árum liðnum

Svo kom að því að Ragnheiður kynntist ástinni og tókst að opna hjarta sitt að nýju. „Það var rosalega stórt skref að opna hjartað en maðurinn minn er óskaplega góður og mjög hrein sál. Hann hefur aldrei verið með neinni nema mér. Það er bara venjan í hans menningu.“

Ragnheiður kynntist manninum sínum þegar hún var að vinna í Himalaya-fjöllum en hún lifði miklu nomad-lífi áður en hún veiktist af krabbameini. „Ég er fegin að ég skyldi gera það. Ég var ofboðslega mikil ævintýramanneskja og vann við ævintýraferðamennsku. Ég var í fjallaleiðsögn og við rafting á ám bæði hér og á Indlandi. Hér eftir fer ég ekki í það aftur. Það er einhver sígauni í mér og ég vildi alltaf vera að ferðast. Einhver sagði einhvern tíma við mig: „Þú nærð þér aldrei í mann ef þú ert alltaf á þessu flakki og býrð bara í ferðatösku.“ Ég svaraði því til að ég næði þá bara í mann sem væri af sama meiði og ég og ég gerði það.“

Með hnefastórt æxli í lifrinni

En hvernig krabbamein fékkstu? „Það hefur aldrei verið greint fullkomlega. Þetta var fjórða stigs krabbamein og var í lifrinni og lífhimnunni. Ég var með hnefastórt æxli í lifrinni og nokkur minni í lífhimnunni. Tekin voru sýni og send til Boston til greiningar og það tók óratíma að greina meinið. Ég hafði verið inni á spítala fárveik, var lögð inn í september 2015 og lá inni í mánuð í alls konar rannsóknum. Eftir það var ég send heim því þeir vissu ekki hvað var að mér en ég beðin að koma aftur í desember í frekari rannsóknir. Í janúar 2016 fékk ég að vita að ég væri með krabbamein. Þá voru tvisvar tekin sýni og send út en það eina sem kom út úr því var að meinið væri skylt eggjastokka- og lífhimnukrabbameini en þau gátu ekki skorið úr með vissu hvers konar mein þetta nákvæmlega væri.

Það var því rennt blint í sjóinn þegar ég byrjaði í lyfjameðferð og mér gert ljóst að ekki væri víst að hægt væri að lækna þetta. Ég var því búin að fá nokkurs konar dauðadóm þarna í byrjun sem var rosalegt áfall en læknirinn minn var frábær og gafst ekki upp. Hann setti mig fyrst í ákveðna lyfjameðferð sem gekk ekki upp svo hann sendi mig í meðferð sem þá var bara nýbúið að samþykkja. Hún var svakalega erfið. Ég fékk allar aukaverkanir sem hægt var að fá, líka þessar sjaldgæfu. Ég var við það að gefast upp en þá sagði læknirinn minn: „Hún virkar. Við klárum hana og svo ferðu í aðgerð.“ Og það varð úr. Ég kláraði þessa lyfjameðferð og þá var komið drep í æxlið. Ég hafði ekki hugmynd um að það væri hægt. Ég var alltaf að fá hitavellu og var lögð inn í hvert sinn. Svo var ég skorin upp í febrúar 2017 og hef blessunarlega verið laus við krabbameinið síðan. Það er ótrúlegt í rauninni eiginlega bara kraftaverk.“

En þótt krabbameinið sé horfið er ekki þar með sagt að Ragnheiður sé heil heilsu. „Ég er þakklát fyrir að vera á lífi,“ segir hún, „en þetta hefur tekið ótrúlegan toll af mér. Ég er mun veikari en ég var líkamlega en á sama tíma mun sterkari einstaklingur og sjálfsmyndin mun betri en hún var. Það er ekki hvað síst vegna þess að ég hef verið að vinna í áföllunum en á sama tíma þjáist ég af síþreytu, vefjagigt og kvíðaröskun. Ég má við rosalega litlu hvað varðar streituvalda og þarf að setja mjög skýr mörk líkamlega. Ég þreytist auðveldlega og það er hluti af því að ég hef ákveðið að gera skrifin að mínu, hvort sem það verður skáldskapur, þýðingar eða eitthvað annað. Þar get ég stjórnað mínum tíma og hvenær ég vinn. Þegar ég fæ þessi þreytuköst bara fæ ég þau og get hvílt mig. Eitt af áföllunum sem kom með krabbameinsgreiningunni var að ég gæti mögulega aldrei eignast börn. Við eigum fósturvísi núna sem ég veit ekki hvort ég komi til með að nota. Veit ekki hvort ég hef orku í að sinna barni. Ég finn þegar systkinabörn mín koma að þótt ég elski þau og hafi óskaplega gaman af að hafa þau er ég uppgefin eftir heimsóknina. Það er ákveðin sorg yfir að veikindin hafi haft þetta af mér sem mig langaði ofboðslega mikið í. Loksins þegar ég fann manninn sem ég vildi eiga barn með veiktist ég.“

Tvær kynslóðir búa saman

Ragnheiður og maður hennar búa í Mosfellsbæ með móður Ragnheiðar, Bryndísi Björgvinsdóttur myndlistarkonu. Bryndís myndskreytti bók dóttur sinnar með sterkum og fallegum myndum sem sannarlega auka á áhrifamátt ljóðanna.

Þetta er ekki algengt fyrirkomulag nú til dags. „Nei, mamma hafði verið ein svo lengi,“ segir Ragnheiður. „Hún er að fara á eftirlaun og ég er öryrki. Við gátum leyft okkur meira með þessu móti. Við hjónin vorum í algjörri holu áður en við ákváðum að kaupa með mömmu. Það var hagstæðara fjárhagslega. Maðurinn minn er indverskur svo honum þótti þetta ekkert tiltökumál. Í hans heimalandi er algengt að kynslóðir búi saman. Við ákváðum að kaupa íbúð með góðu vinnurými þar sem við mamma gætum unnið skapandi vinnu og fengið skapandi orku hvor frá annarri.“

Nú er Ragnheiður að vinna að skáldsögu og segir að útgefandi hennar sé þegar orðinn spenntur fyrir henni. Um leið er hún að klára háskólann en takmörkuð orka og heilaþoka eftir veikindin hægja á henni. Hún segir það hins vegar ekki trufla sig, hún taki bara þann tíma sem þurfi í klára og það verða aðdáendur ljóða hennar að gera líka.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!