KVENNABLAÐIÐ

Tilbúin að tala um átröskunina 

Umsjón og stílisering: Lilja Hrönn Helgadóttir – Myndir: Gunnar Bjarki – Förðun: Björg Alfreðs með vörum frá Terma – Fatnaður: Spjara 

Aldís Amah Hamilton var forsíðuviðmælandi Vikunnar fyrir rúmlega sex árum og mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Hún hefur til að mynda leikið í Brot og Kötlu og fór með aðalhlutverk í Svörtu söndum ásamt því að vera einn af handritshöfundum þeirra þó hún hafi alltaf sagt að það væri braut sem hún ætlaði aldrei að feta. Við Aldís mæltum okkur mót til að mynda forsíðumyndina og hún spyr mig hvort ég geti nokkuð sótt hana; hún hafi verið í söngtíma og kærasti hennar, Kolbeinn Arnbjörnsson leikari, þurfi bílinn. Ég að sjálfsögðu svara því játandi og sæki hana. Á móti tekur mér brosandi ung kona, vinaleg og náttúruleg. Hún sest upp í bílinn og við byrjum að spjalla. Hún spyr mig eiginlega fleiri spurninga en ég hana, eitthvað sem ég er með öllu óvön.

Við byrjum viðtalið á meðan Aldís situr í förðun. Ég rifja upp með henni hvað var að gerast þegar hún síðast settist niður með Vikunni í febrúar 2017 en hún útskrifaðist frá leiklistardeild LHÍ í maí 2016. „Síðustu ár á hundavað! Ég fór í leikhúsið og kláraði þar í maí 2017. Þar lék ég í Álfahöllinni sem var ótrúlega mikill skóli fyrir mig og ég er endalaust ánægð með að hafa unnið með honum Þorleifi Arnars,“ segir hún en hann leikstýrði Álfahöllinni; sýningu sem var sögð bera margar góðar hugmyndir en ekki hafa verið unnin nógu mikið til að koma heil saman. „Óþelló var samt fyrsta verkefnið mitt, hún var ótrúlega framúrstefnuleg,“ heldur Aldís áfram. „Hún var einnig svakalegur skóli og ég á ennþá í mjög fallegu sambandi við flesta leikarana eins og Ingva, Arnmund og Nínu Dögg. Svo er ég ævinlega þakklát Gísla Erni fyrir að hafa veitt mér þetta tækifæri. Ég endaði samninginn minn hjá Þjóðleikhúsinu á ferð til Bratislava með Óþelló sem var æðislegt. Ferðalögin eru eitt það skemmtilegasta við starfið.

Á meðan ég var enn í náminu hóf ég sumarstörf sem flugfreyja hjá Icelandair og samhliða því lék ég til dæmis í Föngum. Við vorum rétt óútskrifuð þegar tökur hófust sem gerði þetta að miklu púsli. Ég var hrædd við að hafa ekki nóg að gera svo ég endaði sem heilsárs flugfreyja eftir að ég hætti í leikhúsinu. En svo komu fleiri hlutverk til mín, miklu fleiri en ég hafði leyft mér að vona. Ég lék meðal annars í Brot eða The Valhalla Murders eins og þeir heita á Netflix. Það var fyrsta hlutverkið sem ég upplifði sem veigamikið. Það var alveg geggjuð reynsla og eiginlega upphafspunkturinn á Svörtu söndum því þar kynntist ég Ragnari Jónssyni rannsóknarlögreglumanni sem var að þjálfa mig og Ottó Geirs í handtökuaðferðum. Eftir þá kennslu kom ég að Ragnari og Ottó á svaka spjalli og ég fékk á tilfinninguna að ég ætti að troða mér inn í þetta spjall,“ segir Aldís og hlær. „Þannig að ég byrjaði að spjalla við þá og það kom í ljós að Ragnar er svakalegur kvikmyndaáhugamaður, hefur mikinn áhuga á kvikmyndagerð og handritsskrifum og var búinn að sitja á einni hugmynd svolítið lengi. Hugmynd um ungan lögreglumann sem er sendur í óþökk út á land að vinna þar en hann var ekkert kominn mikið lengra með þessa hugmynd. Þá spurði ég í hálfgerðu gríni: „Hvað ef þetta væri lögreglukona?“ Hann sagði að honum þætti það geta orðið áhugaverður vinkill á söguna og við ákváðum að vera í bandi.“ Ragnar hafði samband við Aldísi stuttu seinna og sagði að honum þætti það ótrúlega góð hugmynd að gera persónuna að lögreglukonu en hann viðurkenndi að hann hefði litla innsýn inn í raunveruleika kvenna og væri mjög til í að hittast og henda á milli þeirra hugmyndum. Aldís sagði já við því og útskýrir fyrir mér að hún hafi verið á þeim stað í lífi sínu að hún væri tilbúin að segja já við nýjum hlutum.

Ætlaði sér aldrei að fara út í handritsskrif  

„Ég hafði pælt í því en ég hafði alltaf hugsað að fyrr myndi ég hætta að vinna sem leikari heldur en að gera það.“ Að enda sem handritshöfundur þá? „Já, mér fannst það svo leiðinlegt eða ímyndaði mér að það væri það því það versta sem ég gerði í skólanum var að búa til mitt eigið verk. Þetta var bara ekki ástríða hjá mér.“ Hvað breyttist þá eiginlega og fékk þig til að skrifa þetta handrit? „Það munaði ótrúlega miklu að hafa frábæra leiðsögn Baldvins Z sem tók okkur Ragnar undir sinn væng þegar hann fékk upprunalegu hugmyndina í hendurnar. Baldvin var þungavigtin í fyrri seríunni og eftir að við höfðum í sameiningu skapað söguþráðinn ákvað hann hver myndi skrifa hvaða senur. Sjálfur tók hann mestu vinnuna á sig. Í þetta sinn vorum við að deila með okkur þáttunum ásamt öðrum höfundi, Elíasi Kofoed, svo álagið dreifðist miklu meira. Ég var til dæmis að skrifa næstum þrjá þætti af átta alveg sjálf sem mér fannst biluð hugmynd á sínum tíma en hefur gengið ofsalega vel.

Ég er ótrúlega spennt að fá aftur að leika hlutverk sem er sniðið úr hugarfylgsnum einhvers annars. Það er margt æðislegt við að skrifa sinn eigin karakter en samt líka margt flókið, margt sem maður stundum skrifar og svo hugsar maður „en ég vil ekkert endilega leika þetta“. En ég viðurkenni alveg að eftir svona ótrúlega jákvæða upplifun af þessum handritsskrifum er ég ekki endilega með raunhæfustu myndina af ferlinu því þetta gengur vanalega aldrei svona vel. Við byrjuðum að skrifa 2018 og vorum búin með tökur 2021; það er sjaldgæft, hvað þá fyrir óreynt fólk eins og mig og Ragnar. Þannig að ég gekk inn í ótrúlegan forréttindapakka að hafa Glassriver í framleiðslunni og vera með Baldvini. Þetta gæti farið öðruvísi ef ég skrifa eitthvað meira og upplifi hvað þetta er erfitt.“ Er það þá ekki hluti af svona áskorun; þá verður uppskeran kannski betri? „Kannski. Jú, vissulega ef þetta er ástríðan þín en þetta er ekki beint súrefni fyrir mig. Samt spyr ég mig, er ekki allt í lagi líka að þetta sé eitthvað sem ég er ágætlega góð í og finnst gaman að gera við og við? Mér líður svo eins og söguþráðurinn í kringum leiklistina sé að ef þú ert ekki til í að blæða fyrir listina og tilbúin að gefa frumburðinn þá ertu kannski ekki alveg með nógu mikinn metnað.“ Ég sammælist Aldísi og mér þykir þetta eiga við flestar list- og sköpunargreinar, ef ekki allar. Að menningin í kringum það að vera of upptekinn sé upphafin núna og ef það sé ekki of mikið að gera þá sé ekki nóg að gera. „Einmitt, ef þú ert ekki við dauðans dyr þá ertu ekki að gera nóg sem er svakalega eitrað hugarfar. Og vissulega er það frábært þegar maður er ótrúlega spenntur fyrir einhverju og það er eitthvað afl sem drífur þig áfram. En fæst okkar geta staðið í því til lengri tíma án þess að upplifa einhvern andlegan skaða. Maður getur einfaldlega unnið sig í þrot.“

Aldís lýsti því fyrr í samtalinu hvað hún hlakkar til að leika hlutverk sem er ekki skrifað úr hennar eigin hugarheimi og ég spyr hana hvað það sé við það sem sé svona spennandi. „Það er öðruvísi áskorun því það er eitthvað sem getur komið mér á óvart. Ég þarf að gera vinnuna; að kryfja og fara á dýpið og finna út úr því hvað það er sem lætur þessa manneskju tikka, hvað það er sem lætur hana segja þetta og gera hitt. Ég vissi alla þessa hluti með Anítu í Svörtu söndum þannig að það var ekki margt sem kom mér á óvart í tökum.“

Ný og spennandi verkefni fram undan

Við Aldís höfðum ekki mikinn tíma til að vinna með þegar það kom að því að finna tíma til að hittast því hún er á leið til Bretlands að vinna í nýju verkefni. „Mér finnst mjög gaman að skapa baksögu út frá persónu sem einhver annar býr til, að blanda saman hvernig ég sé hana og leikstjórinn. Það er líka eitthvað við það að fá þá viðurkenningu þegar ég kem með tilboð að leik, eða einhvers konar ímynd af þessum karakter, og sá sem skrifaði persónuna samþykkir það. Upplifunin að ég uppfylli þá ímynd sem hún hefur af þessari persónu er æðisleg. Þannig að ég er spennt að finna fyrir þeirri áskorun aftur.“

Hún Aldís er mjög dyggur talsmaður fyrir velferð dýra, mikill umhverfissinni og er líka vegan eða grænkeri eins og hún kallar það. „Ég brenn mjög mikið fyrir umhverfisvernd og veganisma. Ég legg mikið upp úr því á til dæmis samfélagsmiðlum mínum að vera einlæg og heiðarleg þegar ég tala um þessa hluti. Ég vil í raun bara valdefla fólk eins mikið og ég get og með því sem ég kann. Að hjálpa fólki að hugsa út í umhverfið sitt, að auka meðvitund sína og hugsa um dýravelferð. Ég er ekki alin upp sem grænmetisæta né grænkeri þannig að ég tengi við það sjálf að vita ekki alveg hvar maður eigi að byrja. Sumum finnst tilhugsunin um að „leggja þetta á sig” mjög erfið. Mér leið einnig þannig þegar ég byrjaði. Það sem ég þurfti að gera var bara að taka minn tíma í þetta, til að setjast niður og eiga svona innra samtal við sjálfa mig. Líður mér virkilega eins og ég sé að fara að missa af einhverju? Svarið var augljóst fyrir mína parta; auðvitað líður mér miklu betur að fylgja sannfæringu minni og ég get alveg sagt að það er ekkert sem ég upplifi að ég sé að missa af. Ég var líka alin upp trúandi því að við ættum ekki að vera vond við dýr og að við ættum ekki að níðast á þeim sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Ég held að flest okkar séum alin þannig upp að við eigum að vera góð við dýrin. Ég held að ef þau sem tengja við þessi gildi hugsi út í það þá skilja þau fullkomlega af hverju ég er grænkeri. Það er val að taka þátt í þessu ofbeldi; það er bara þannig, klippt og skorið. Ég gerði það lengi og valdi svo að hætta því. Að hætta fylgdi andleg vellíðan sem trompaði alla aðra vellíðan sem ó-vegan matur gat mögulega leitt af sér. Enda sé ég ekki lengur hvernig hægt er að telja sig dýravin en taka síðan þátt í slátrun þeirra. Ég losnaði undan hræsninni í sjálfri mér.“

Ég spyr hana hvað hún sé búin að vera lengi vegan og hvernig hún byrjaði á því. „Ég er búin að vera vegan í svona sirka þrjú ár. Þetta gerðist eiginlega óvart því ég var fyrst grænmetisæta í um það bil fjögur til fimm ár. Þá var ég í fullri vinnu í fluginu og tók ég alltaf nesti með mér. En svo sá ég hvað það er hræðilega mikil sóun í flugvélum, það er svo miklu hent og það er ekki hægt að endurnýta neitt því það eru svo miklar reglugerðir varðandi matinn. Þannig að ég byrjaði að borða aftur fisk og kjöt um borð. Mér leið ekki vel í sálinni en mér leið einhvern veginn verr að henda ógeðslega miklu af dýraafurðum. Mér fannst það samt erfitt og ég fékk svakalegt samviskubit. Það var frekar stórt teikn að ég væri ekki að fylgja eigin sannfæringu, að heiðra gildin mín varðandi dýr.“

Ég segi að ég skilji hana vel. Ég hafði oft heyrt fólk tala um eins og það réttlæti að borða dýr því ef þau eru ekki borðuð þá verður svo mikil matarsóun. En ég hugsa með mér að eflaust er meirihluti allra þessara dýra einungis ræktaður með þeirri áætlun að slátra þeim þó ég sé ekki með neinar tölur um það á hreinu. „Já, ég ætla bara að fá að grípa boltann. Þessi rök halda engu vatni í venjulegu lífi. Við kjósum með veskinu okkar. Að kaupa dýraafurðir eða neyta þeirra þegar aðrir hafa keypt þær sendir ákveðin skilaboð.  Fólk hefur áhrif en auðvitað ekki á sama kaliberi ef stjórnvöld myndu setja einhvers konar löggjöf.

Þegar ég var ekki að fljúga í upphafi Covid þá fattaði ég þegar ég var að versla í matinn að ég var að versla allt vegan. Þannig að þá hugsaði ég að ég yrði bara að gangast við þessu og prófa þetta. Þetta var smá svona „trial and error“, maður þarf að læra að lesa á pakkningar því það eru alls konar orð notuð yfir dýraafurðir sem maður þekkir ekki. Gelatin er til dæmis úr svínum. Whey er mjólkurprótein. En heilt yfir var þetta miklu auðveldara en ég hélt að það yrði og enn auðveldara núna þar sem úrvalið er stórkostlegt.

Ef við horfum á veganisma og pælum í 2014 þegar ég prófaði hann fyrst þá fékk ég mér bara franskar ef ég fór út að borða. Það var ekkert annað í boði. Núna eru ekki nema tæp 10 ár liðin en á þessum 10 árum erum við til dæmis komin með eina stærstu vegan-búð í heiminum. Það er vandræðalegt ef fólk fer á veitingastað og það eru ekki vegan-réttir í boði eða allavega sæmileg leið til að græja þá. Sumir veitingastaðir ganga meira að segja það langt að útbúa vissa rétti sem eru ekki á matseðli fyrir grænkera. Svo erum við með þrjá til fjóra 100% vegan-veitingastaði og það bara á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er alveg geggjað!“

This image has an empty alt attribute; its file name is Vikan-Aldis-Ama-2521-683x1024.jpg

 

Tilbúin að tala um átröskunina

Aldís glímdi á tímabili við átröskun; sjúkdóm sem herjar á marga og nú fleiri en nokkurn tíma fyrr.  Birtingarmyndirnar eru margar og spyrja ekki um kyn, aldur eða kynhneigð þó að kvenmenn séu í meirihlutahópi yfir þá sem eru með greinda átröskun. Átraskanir eru með næsthæstu dánartíðnina þegar geðsjúkdómar eru skoðaðir á eftir þeim sem eru með fíknisjúkdóm. Um 100 manns leita árlega til LHS vegna átröskunar. Aldís segir að sig hafi lengi langað til að tala um þetta en hún hafi verið hikandi þar sem hún vill gera það á ábyrgðarfullan hátt. Ég skil hana mjög vel, fjölmiðlar eiga það til að skrifa um átraskanir og reynslu átraskanasjúklinga með það í huga að fá eins dramatískar frásagnir og hægt er. Vissulega er sjúkdómurinn lífshættulegur og ber að skrifa um hann á beinskeittan og sannan hátt en þetta er oft tvíeggja sverð því frásagnir af átröskunum geta oft verið mjög triggerandi fyrir átröskunarsjúklinga eða þá sem eru í áhættuhópi.

„Já, þetta er ótrúlega oft þannig. Það er svo hættulegt að áherslan verður oft á þyngdina sem getur leitt af sér samanburð og neikvæðar afleiðingar. Það sem ég vissi ekki var að fæstir með átröskun eru í undirþyngd. Það er bara þessi ímynd að átröskunarsjúklingar þurfi að vera horaðir og það er alls ekki satt. Fólk með hvers konar líkama getur verið mjög veikt.

Ástæðan fyrir því að ég vil tala um þetta er að núna brenn ég svo fyrir þessari umræðu. Ég varð veik ekki sem táningur heldur fullorðin kona og man hvað ég tók svakalega virkan þátt í megrunarmenningunni, hvað hún er inngróin í samfélaginu okkar. Ég gerði mér enga grein fyrir í hvað stefndi þegar ég fór á fyrsta „kúrinn” minn orðin 26 ára gömul. Ég hugsaði aldrei út í allt ruglið sem ég var að segja við annað fólk; hvernig ég talaði um sjálfa mig fyrir framan annað fólk. Það er mér svo ótrúlega minnisstætt þegar ég var erlendis með vinkonum mínum á þeim tíma þegar ég var sjálf mjög veik. Átröskunin hafði auðvitað mjög neikvæð áhrif á ferðina mína, því miður. Hún hefði getað verið svo miklu betri ef ég hefði ekki verið svona upptekin af því hvað ég borðaði og hvernig ég leit út. Eitt sinn talaði ég á ótrúlega neikvæðan máta um sjálfa mig við eina vinkonu mína þannig að aðrar heyrðu. Seinna sagði ein þeirra við mig: „Ég heyri ykkur tala svona og þá fer ég að velta því fyrir mér hvernig þið sjáið aðra sem eru stærri en þið.“ Þetta fékk ofsalega á mig því þetta snerist aldrei um aðra en mig en hafði samt svona slæm áhrif. Þá fór ég að hugsa hvernig maður talar um sjálfan sig fyrir framan aðra og gerir sér enga grein fyrir því hvernig manneskja sem er í kringum þig túlkar það. Maður er senda skilaboð út í samfélagið um að þú viljir ekki líta út á vissan hátt. Þetta er miklu meira en bara að tala illa um sjálfan sig. Hvernig við tölum um okkur sjálf hefur beint eða óbeint áhrif á fólk í kringum okkur. Að vinna í sínum veikindum er erfitt en það sem ég gat heldur betur breytt auðveldlega var að hætta að taka þátt í þessari eitruðu orðræðu. Það er með auðveldari hlutum sem við getum gert til að stuðla að breyttu samfélagi. Hætta að taka þátt í þessu „í kjólinn fyrir jólin“ og vera ekki að tala um að maður þurfi að fara í megrun fyrir sumarið. Að passa hvað maður segir hefur líka áhrif inn á við, þetta er form af hugrænni atferlismeðferð. Besta gulrótin í hreyfingu og mataræði ættu að vera góð lífsgæði og að heilsan sé í lagi. Okkur ætti ekki að þurfa að líða þannig að gulrótin sé að geta passað í vissa stærð eða líta út á vissan hátt.

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni inn á www.birtingur.is

 

Viðtalið er endurbirt úr Vikunni frá 13.05.2023

 

Birtíngur er með stútfullt safn af íslensku efni, viðtölum og greinum.

Öll blöð Birtíngs eru á einum stað. Með áskrift að vefnum færðu aðgang að fjölbreyttum og áhugaverðum greinum og viðtölum.

Frá aðeins 1.890 kr á mánuði og engin skuldbinding.

www.birtingur.is

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!