KVENNABLAÐIÐ

Helga Valfells bjó út í frumskógi og var langyngst allra: „Afríka mótaði mig mest“

Texti: Ragnheiður Linnet
Myndir: Hallur Karlsson
Förðun: Heiðdís Einarsdóttir

 

Helga Valfells er fyrirmynd margra ungra kvenna. Hún hefur verið frumkvöðull á ýmsum sviðum og hlotið verðlaun fyrir frammistöðu sína, nú síðast sem viðskiptafræðingur ársins 2021. Hún er einn stofnanda og framkvæmdastjóri vísisjóðsins Crowberry Capital sem er sprota- og vaxtasjóður og leiðandi í nýsköpunarheiminum á Íslandi. Helga segir umhverfi í nýsköpun hér gróskumikið, en við verðum að gera upp við okkur hvort við viljum vera þiggjendur eða þátttakendur í þeim öru tækniframförum sem nú eiga sér stað. Hún segir mörg vannýtt tækifæri þar, t.d. í heilbrigðiskerfinu og skólamálum.

Helga er alin upp að hálfu leyti á Íslandi og hálfu í Bandaríkjunum, en faðir hennar var prófessor í kjarnorkuverkfræði og eðli málsins samkvæmt var ekki mikið um störf fyrir hann hér. „Til 13 ára aldurs var ég í Bandaríkjunum á veturna, í Ames Iowa, og á sumrin dvaldi ég á Íslandi. Ég er alltaf þákklát fyrir það að foreldrar mínir töluðu eingöngu íslensku á heimilinu. Það var mikill munur á löndunum en ég fór austur í Skaftafellssýslu þaðan sem móðir mín er ættuð, og heimsótti Vík en svo kynnstist ég bandarískri menningu á veturna. Ames Iowa er lítill háskólabær í miðríkjum Bandaríkjana og ég held að öll börnin sem voru með mér í bekk hafi átt foreldra með doktorspróf,“ segir Helga og hlær létt. „Ég var í skóla sem tengdist háskólanum og þarna lærði ég að skilja mikilvægi þess og bera virðingu fyrir þekkingu, vísindum og tækni. Þegar kom á unglingsárin hjá mér voru foreldrar mínir farnir að hafa áhyggjur að því að við systkinin yrðum Bandaríkjamenn en eldri bróðir minn var byrjaður í menntaskóla þannig að við fluttum til Íslands. Eldri bróðir minn hefur einhvern veginn aldrei fest rætur á Íslandi, hann flutti til Genf í Sviss og starfaði mjög lengi fyrir Rauða krossinn þar en yngri bróðir minn fetaði í fótspor pabba, er kjarnorkuverkfræðingur og forseti verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík en honum hefur fundist mjög gaman að taka þátt í uppbyggingu hans.“ Eftir menntaskóla fór Helga svo aftur út til Bandaríkjanna og í Harvardháskóla. Hún ætlaði upphaflega í efnafræði, enda kemur hún úr raunvísindafjölskyldu, en ákvað að feta aðra leið. „Af því að maður var alltaf að læra þessar raungreinar fannst mér spennandi að ég mátti læra alls konar fög þannig að ég valdi mér fög í enskum bókmenntum, hagfræði og stjórnmálafræði, þetta voru greinar sem ég var mjög forvitin um. Ég tók því BA-gráðu í hagfræði og enskum bókmenntum, sem eru gjörólík svið. En reyndar verð ég að viðurkenna, af því ég fór í tæknigeirann, að efnafræði eða eðlisfræði nýtast þar mjög vel.“

Helga kom svo til Íslands og fór a vinna á Þjóðhagsstofnun, hún fann að hún vildi ekki fara í djúpar hagrannsóknir og fór að vinna á verðbréfamarkaði sem þá var að fara í gang hér. Hún segir að það hafa verið mjög skemmtilegt, nánast eins og nýsköpun á þeim tíma, kynntist hvernig bankarnir voru og fleira.

This image has an empty alt attribute; its file name is Helga-Valfells-2-683x1024.jpg

„Þakka Afríku fyrir að hafa kennt mér svo margt“

Helga upplifði mikið ævintýri eftir að hafa sótt námskeið hjá Rauða krossinum þegar hún ákvað að fara í hjálparstarf til Afríku. Hún segir að móðir sín sé hjúkrunarfræðingur og að það hafi mótað sig, hún vilji og sé alin upp við þá hugsun að hjálpa öðrum og gera gagn. „Ég fór á námskeið hjá Rauða krossinum, sá að það var auglýst eftir sendifulltrúa og viku seinna var ég komin út til Vestur-Afríku. Aðspurð segir Helga að veran þarna hafi átt mjög vel við sig. „Ég þakka Afríku fyrir að hafa kennt mér svo margt. Vera mín þarna setti allt lífið í samhengi, maður lærði ákveðið æðruleysi. Það er alveg sama hvaða krísa kemur upp t.d. í vinnunni það er enginn að fara að deyja. Ég kynntist fólki sem lifði mjög hamingjusömu og innihaldsríku lífi en bjó við ótrúlegar aðstæður. Ég hélt áður en ég fór að það væri stöðug neyðarkrísa þarna en það eru kannski svolítið vestrænir fordómar, þó að auðvitað búi margir við erfiðar aðstæður en þarna var líka fólk sem var mjög hamingjusamt og leið vel. Ég var í Gíneu í Vestur-Afríku sem er á milli Síerra Leóne og Líberíu og þegar ég var þarna var borgarastyrjöld í Líberíu og önnur að byrja í Síerra Leóne. Við tókum á móti flóttafólki í Gíneu sem var mjög fátækt land. Flestallar hjálparstöðvar heimsins settu upp bækistöðvar þarna og tóku á móti flóttafólk frá Líberíu og Síerra Leóne og maður vann mjög náið með hjálparstofnum Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossinum, Alþjóðlegu matvælastofnuninni og fleirum. Við bjuggum úti í frumskógi, ég var langyngst þarna, 27 ára, og verð ávallt mjög þakklát fyrir þessa reynslu. Ég lærði ofboðslega mikið.“

Fékk heimþrá eftir fæðingu eldra barnsins

Þegar Helga kom eftir dvölina í Afríku langaði hana ekki að vinna aftur í banka. Hún fór til Bretlands í MBA-nám og var í níu ár í London. Hún segir dvölina hafa verið mjög ánægjulega, og þar kynntist hún eiginmanni sínum, Conor Byrne, sem er af írskum ættum, alinn upp í Bretlandi.

„Eftir útskriftina bauðst mér starf hjá Estée Lauder í markaðsmálum. Það var mjög skemmtilegt að kynnast svo stóru alþjóðlegu fyrirtæki og hvernig það vinnur sín markaðsmál. Við Conor vorum á þessum tíma að kaupa okkur íbúð og einhver hringdi í mig sem var að leita að fólki til að vinna hjá stórum amerísku fjárfestingarbanka. Launin voru svo miklu hærri þannig að ég fór í viðtal, fékk starfið og keypti íbúð. Ég lærði mjög mikið og endaði í deild sem var með ráðgjöf fyrir bankastofnanir og tryggingarfélög. Þarna var verið að ráðleggja bönkum um allan heim hvernig þeir ættu að fjármagna sig. Ég var þarna í tvö ár, vann 24 tíma á sólarhring en fékk líka tækifæri til að ferðast um allan heim, þannig að þetta voru spennandi tímar.

En svo urðu tímamót hjá Helgu. „Daginn sem ég vissi að ég var ófrísk að eldra barninu mínu sagði ég upp. Mig langaði ekki að vera í þessu starfi með barn, ég hefði getað ráðið einhvern til að vera heima og ala upp barnið en það hentaði mér ekki.“

Þá var hringt. Það var verið að byggja Smáralind og vantaði aðila í Bretlandi sem gæti fundið verslanir sem færu þangað. Helga var rétta manneskjan í það, hún segir að verkefnið hafi verið skemmtilegt meðan hún beið eftir barninu.

„Eftir að ég eignaðist barnið fékk ég í fyrsta sinn á ævinni heimþrá. Mig langaði að vera hjá fjölskyldunni. Ég samdi við manninn minn um að við myndum prófa eitt ár á Íslandi en við vorum mjög ánægð í London. Við fluttum heim og höfum verið hér í næstum 20 ár. Conor talar afar góða íslensku og ég er mjög stolt af honum en hann tók strax þá ákvörðun að læra hana og hefur unnið mikið á íslensku. Ef þú ætlar að verða hluti af samfélagi, þarftu að læra tungumálið.

Það hefur líka verið mjög gaman að upplifa landið með augum útlendings því alls konar hlutir sem maður tekur sem sjálfgefnum, bæði hvar fegurðin er mest á landinu og fleira, er ekki endilega þannig í augum útlendinga. Í fyrsta skipti sem við fórum hringinn hafði hann mikið heyrt talað um að Gullfoss væri fallegasti fossinn, þá spurði hann; hver ákvað hvaða foss væri fallegastur? Ég hafði aldrei hugsað út í þetta,“ segir Helga og hlær.

„Hann er mjög hrifinn af Snæfellsnesinu, við höfum verið oft heppin með veður og þar er mikið af fallegum gönguleiðum. Svo höfum við verið mikið hjá Dyrhólaey en þar hafa foreldrar mínir gert upp gamlan sveitabæ.“

Vinna í alþjóðlegu samhengi og nýsköpun heilla

This image has an empty alt attribute; its file name is Helga-Valfells-3-683x1024.jpg

Við víkjum talinu að störfum Helgu sem tengjast nýsköpun. Hún segir að sér hafi boðist starf hjá Útflutningsráði Íslands þegar þau fluttu heim um 2000. „Mér var reyndar líka boðið starf hjá nokkrum bönkum en þá fannst mér íslenskir bankar nokkuð sérstakir eftir að hafa unnið hjá stórum alþjóðlegum banka. Bankarnir voru að umbreytast og mér fannst fólk taka óþarfa áhættu þar. Ég er heldur ekki mikil peningamanneskja en finnst gaman að vinna í alþjóðlegu samhengi, fór að vinna hjá Útflutningsráði sem nú heitir Íslandstofa og var með verkefni sem hét Venture Iceland og þar kynntist ég nýsköpun.“

Hún segir að í kringum aldamótin hafi mjög mikið verið að gerast í nýsköpun. „Hér voru nokkrir nýsköpunarsjóðir, svo sprakk .com-bólan en þá hafði ég kynnst nýsköpuninni og vann með alls konar fyrirtækjum í útflutiningi. Það sem gaf mér mest var vinna með þekkingar- og tæknifyrirtækjum þannig að ég var þar til 2005 og stofnaði þá mitt eigið fyrirtæki sem hét Kind með Sigríði Sunnevu og Maríu Ólafsdóttur hönnuðum og Lin Wei  fiðluleikara. Við hönnuðum og létum framleiða vörurnar í Kína en Lin Wei hjálpaði okkur að finna verksmiðjur þar til að framleiða. Þetta var mjög skemmtilegt hópfjámögnunarverkefni áður en hópfjármögnun varð til. Lin Wei var komin á fullt að selja í Bandaríkjunum þó að við sæjum þetta aldrei fyrir okkur sem stórt dæmi. Við urðum svo næstum allar ófrískar á sama tíma, 2007, þannig að við lögðum þetta til hliðar.“

Eiginmanni Helgu bauðst á þessum tíma verkefni í Bretlandi og þau fluttu út 2007 og ætluðu að koma aftur 2009 en þá hafði landslagið mikið breyst. „Við komum nú samt. Það var ein auglýsing í blaðinu,“ segir Helga með áherslu, „ég sótti um og fékk. Starfið var hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og ég fékk starf sem verkefnastjóri. Líkt og hjá Útflutningsráði vann ég með frumkvöðlum. Yfirmaður minn, Finnbogi Jónsson, var ráðinn í annað starf og framkvæmdastjórastaðan var laus og ég sótti um í hana. Á þessum tíma voru tveir sjóðir sem fjárfestu í nýsköpun, Nýsköpunassjóður atvinnulífsins og Frumtak. Ég var mjög ánægð þarna. Maður komst í snertingu við hátt í 50 íslensk nýsköpunarfyrirtæki. Mín vinna snerist líka um það hvernig hægt væri að fjárfesta í nýsköpun og áhættustýra. Við vorum með viðburði fyrir lífeyrissjóðina, fórum með þá til Svíþjóðar til að kynnast því hvernig lífeyrissjóðir á Norðurlöndunum fjárfesta í nýsköpun og frá og með 2015 hefur nýsköpun aðallega verið drifin áfram af lífeyrissjóðum landsins af því þeir sjá þetta sem atvinnusköpun og vonandi góða leið til að ná góðum hagnaði í sínum fjárfestingum.“

Leggur áherslu á fjölbreytni

Hægt er að gera mikið fyrir lítið í nýsköpun, að sögn Helgu. „Það er lítil áhætta sem fylgir þessu þó að talað sé um að áhætta fylgi því að fjárfesta í nýsköpun. Hver og einn lífeyrissjóður setur hlutfallslega lítið fjármagn í nýsköpunarverkefni.“

Hún segir að árið 2015 hafi verið komnir hér nokkrir sjóðir sem fjárfestu í sprotafyrirtækjum eins og Brunnur ventures, Eyrir sprotar og Frumtak Ventures. „Þessi sjóðir voru allir fjármagnaðir af lífeyrissjóðum og öðrum einkafjárfestum þannig að mér fannst að Nýsköpunarsjóður sem var fjármagnaður af ríkinu ætti ekki að vera í samkeppni við þá.

Þá langaði mig og samstarfskonur mínar, Heklu Arnarsdóttur og Jennýju Ruth Rafnsdóttur mikið til að einkavæða sjálfar okkur og stofna sjóð. Við sögðum skemmtilegu og góðu starfi upp og stofnuðum Crowberry Capital. Fluttum í lítið bakherbergi og töluðum við hluthafa um hvort þeir vildu bakka okkur upp og stofna með okkar nýsköpunarsjóð sem færi þá aðeins fyrr inn í hlutina en aðrir sjóðir en væru engu að síður með mjög úthugsaða einhverja áhættustýringu.“

Hvaðan kemur fjármagnið fyrir Crowberry? „Við erum með tvo sjóði. Í öðrum erum við með 17 hluthafa, 9 lífeyrissjóði og 8 fjársterka einkaaðila. Það eru mjög margir sem hafa hagnast af nýsköpun og vilja fjárfesta í sjóði og gefa til baka.Lífeyrissjóðirnir eru með 80% af Crowberry 1 og fjársterkir einstaklingar með 20%. Crowberry 1 hefur fjárfest í 15 félögum en 14 eru virk nú, m.a. tölvuleikjafyrirtæki og fjártæknifyrirtæki sem hafa gengið ótrúlega vel. Við förum inn í fyrirtækin áður en tekjur koma og styðjum þau í því að ná í tekjur, ráða rétta fólkið  og vaxa á alþjóðamarkaði. Núna starfa rúmlega 300 manns í þessum félögum. Þetta er bæði atvinnu- og tekjusköpun.

Það eru flestallir með háskólamenntum, fólk sem kemur úr ýmsum áttum, listaháskólum, tölvunarfræði, sálfræði og fleiri greinum en öll fyrirtækin eru drifin áfram af tæknibreytingum. Árið 2020 ákváðum við, vegna þess að hver sjóður getur bara fjármagnað í ákveðið mörgum félögum, að stofna annan sjóð Crowberry 2. Við fengum Europian Investment Fund sem hluthafa í Crowberry 2. Þetta er stór sjóður fjármagnaður af Evrópusambandinu og bönkum í Evrópu sem fjárfestir eingöngu í nýsköpunarsjóðum eins og við rekum, þ.e. vísisjóðum. Við fórum í gegnum heljarinnar síu en þau ákvaðu að fjárfesta í okkur og við fengum einnig bandarískan sjóð inn í þetta sem fjárfestir í öðruvísi sjóðum ásamt íslenskum lífeyrissjóðum og aðilum sem höfðu bakkað okkur upp í sjóði 1.“

Helga leggur mikla áherslu á að fyrirtækin vinni líka með erlendum fjárfestum því hún vill fjölbreytni inn í landið. Jafnframt segir hún nýsköpunarfyrirtæki mjög mikilvæg fyrir efnahagslífið hér. „Bæði Crowberry 1 og 2 fjárfesta á öllum Norðurlöndunum. Þetta styrkir fyrirtækin og gerir samstarfið fjölbreytt, við reynum að vera með mánaðarlega fundi þar sem frumkvöðlarnir hittast og allir læra mikið hver af öðrum. Við höfum lagt áherslu á að fyrirtæki fái til sín erlenda fjárfesta. Nýsköpunarfyrirtæki eru atvinnuskapandi og drífa áfram hagvöxt og eins og með allt, eru það afleidd störf líka. Þetta er eitt það besta sem hægt er að gera til að keyra hagkerfið áfram og ég held líka að þetta hjálpi samkeppnisstöðu Íslands.“

Verðum að fjárfesta í fólki með tæknimenntun

Að dómi Helgu verðum við að gera upp við okkur hvort við viljum vera neytendur varðandi tækni eða leggja þar eitthvað til. „Ég held að það sé mjög mikilvægt að við tökum þátt í að skapa tækni og þá getum við líka haft áhrif á tækniþróun í heiminum. Við verðum að fjárfesta í fólki með tæknimenntun. Sérstaða Íslands er að það er sérstakur og mikill sköpunarkraftur hérna og ég tel að við séum miklu betri í nýsköpun en að reka banka, þó að við séum með ágætis banka hérna,“ segir hún og brosir. „Það er einhver sjálfsbjargarviðleitni í okkar menningu og drifkraftur, við finnum það í gegnum fólk sem við vinnum með á Norðurlöndum þó að þar sé kannski meiri skipulagsgeta. Og það er einhver bandarískur nýsköpunarkraftur hér sem kemur upphaflega frá Kísildal og ég held að við höfum fangað það vel hér og maður finnur það líka að fólk sem hefur farið og menntað sig í Bandaríkjunum kemur svo heim og stofnar fyrirtæki hér. Við höfum fjárfest í flottum frumkvöðlum eins og Guðmyndi Hafsteinssyni sem var hjá Google og Áslaugu Magnúsdóttur sem stofnaði Moda Operandi. Þetta er mjög ánægjulegt.“

Vannýtt tækifæri á sviði heilbrigðisgeiranum

This image has an empty alt attribute; its file name is Helga-Valfells-4-683x1024.jpg

Eru vannýtt tækifæri hér á sviði nýsköpunar og fjárfestinga í þeim? „Örugglega, alltaf, það er kannski líka erfitt að vera með forskrift, ef við ákveðum að við ætlum bara að vera á tilteknu sviði þá gleymast önnur. Ég held að það séu vannýtt tækifæri í heilbrigðistækni, við eigum marga góða lækna og hjúkrunarfræðinga sem hafa menntað sig um allan heim og maður myndi vilja sjá að Landspítalinn væri fljótari að kaupa og prófa áfram hluti með þekkingarfyrirtækjum í heilbrigðisiðnaði. Þetta myndi létta á kerfinu. Heilsuvera er fín en ég hugsa oft; það er hugbúnaður sem getur leyst þetta enn betur en það þarf að taka sér tíma í breytingastjórnun. Það eru fullt af hugmyndum undir yfirborðinu og svo margir læknar og hjúkrunarfræðingar sem eru með alls konar lausnir en koma þeim ekki á framfæri vegna mikillar vinnu. Hekla og Jenný sem starfa með mér eru sérfræðingar í heilbrigðistækni, þannig að þær eru sérlega vel að sér í öllu sem þarf til og við höfum fjárfest í nokkrum heilbrigðistæknifyrtækjum. Það eru mörg flott fyrirtæki í heilbrigðistækni á Norðurlöndunum sem við gætum unnið með. Þetta er leiðin fyrir heilbrigðaiskerfið til að ná að sinna sínu starfi. Ég tel að í heilbrigðiskerfinu séu gríðarleg vannýtt tækifæri. Sömu sögu má segja um menntatækni.Við ættum að koma til móts við ungt fólk sem notar tæknina í öllu nema í skólanum og gera námið meira spennandi með því.“

Aðspurð um hvað sé mikilvægast að hafa að leiðarljósi fyrir þá sem leggja út í nýsköpun og vilja koma sinni vöru eða hugverki á framfæri, svarar Helga: „Að horfa á verkefnið sem tilraun, það er alltaf einhver áhætta, hjá því verður ekki komist. Ef hlutirnir ganga ekki upp er mikilvægt að ganga þannig frá að þú sért ekki með skuldir, það sé bara hægt að loka fyrirtækinu. Þú vilt ekki skilja fólk eftir í sárum eða skulda laun. Það er bara að þora að byrja, maður gerir mistök og lærir á leiðinni.

Það á að vera til nóg fjármagn fyrir hraðvaxtarfyrirtæki og líka þau sem vilja ekki vaxa hratt, fara inn á minna markaðssvæði og þá er annars konar fjármagn sem fólk þarf, styrkir eða bankalán, hópfjármögnun. Það eru margar leiðir eftir því hvernig maður hugsar fyrirtækið.

En ef fólk ákveður að búa til hraðvaxtartæknifyrirtæki þarf að vinna fjármögnunarferlið eins og best gerist og þá eru leiðir á alþjóðamarkaði. Svo þarf að hugsa hvernig hlutirnir eiga að vera og alþjóðlega samkeppni, hver sérstaðan er gagnvart samkeppnisaðilum. Tala snemma við fjárfesta, það eru allir velkomnir hingað í kaffibolla áður en þeir fara af stað.

Íslenskar fjarmálastofnanir hafa líka oft verið tilbúnar til að vera fyrsti viðskiptavinurinn og hjálpað fólki að þróa vöru.“

Fumkvöðlar yfirstigið margar áskoranir

Helga segir aðspurð að horfa þurfi á marga þætti þegar teymið hennar velji fyrirtæki sem það vill fjárfesta í og þau vilji gjarnan hafa erlenda aðila með, það sé erfiðara í byrjun en skili sér í sterkara fyrirtæki á alþjóðlegum markaði þegar fram í sækir.

Við skoðum hvaða þekkingu viðkomandi hefur á viðfangsefninu, markaðstækifæri og samkeppnina, sérstöðu vörunnar og hversu hratt fyrirtækið ætlar að vaxa á alþjóðamarkaði. Við þurfum að horfa á það hvort við höfum eitthvað fram að færa, hvort við séum bestu fjárfestarinir í verkefnið. Þetta er eins og stefnumót á milli frumkvöðla og fjárfesta. Allir að finna bestu frumkvöðlana og bestu fjárfestana. Það er gott að hafa í huga fyrir frumkvöðla að hér eru fimm sjóðir. Að okkar mati er best að vera með fleiri en einn fjárfesti. Þú vilt ekki vera háður einum fjárfesti. Crowberry hefur þá stefnu að fara snemma inn í fyrirtæki, jafnvel áður en fyrirtækið er komið með tekjur en við horfum líka snemma á tæknitrend eins og gervigreind og fleira. Velgengni hjá frumkvöðlum sýnir að þeir hafa stigið mjög margar öldur og sýnt þrautseigju,“ segir Helga með áherslu. „Maður sér allar þessar nýsköpunarhetjur á Íslandi og veit að þetta fólk hefur tekist á við margar áskoranir og yfirstigið þær“

Hvernig er kynjamunur í nýsköpun? „Ég sé mjög miklar breytingar. Þegar ég sótti um starf hjá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins 2009 var engin kona sem vann við að fjárfesta í nýsköpun. Ég þakka Finnboga Jónsyni sem var mikill jafnréttisinni, fyrir að ráða mig. Núna eru komir fimm vísissjóðir og jafnmargar konur og karlar sem vinna þar og þetta breytti samtalinu algjörlega. Ísland á heimsmet í því að hafa konur í vísissjóðum miðað við höfðatölu, við erum leiðandi og þegar fleiri konur eru komnar að fjárfestingum held ég að það sé líka kominn hvati fyrir konur að stofna fyritæki – við fjárfestum enn í færri konum en körlum, en bestu fyrirtækin eru þau sem hafa blönduð teymi. Við kannski löðum til okkar konur af því við erum þrjár konur sem stofnuðum Crowberry, við viljum hafa blönduð teymi og erum með frábæra karla í okkar fjárfestingum og í Crowberry-teyminu.“

„Go for it“

Þegar Helga er spurð hvaða skilaboð hún hafi til ungra kvenna sem langar að stofna eigið fyrirtæki eða koma vöru á framfæri stendur ekki á svari: „Go for it. Það er mikið talað um að það sé lítið fjárfest í konum, en þá þurfum við að búa til tækifæri sjálfar. Þetta er allt að breytast og fyrir konur sem vilja stofna fyrirtæki er mjög góð leið að byrja að vinna hjá nýsköpunarfyrirtæki og sjá hvernig hlutirnir eru gerðir og fara svo og stofna sitt eigið fyrirtæki.“

Það er komið að lokum spjalls okkar og ég spyr hana hvernig hún sjái framtíðina í nýsköpun. „Hlutirnir ganga vel. Við erum með sjóð 1 sem fjárfestir á fullu og sjóð 2 sem er að byrja að fjárfesta. Við erum að vaxa og stækka teymið og bökkum upp frumkvöðla eins og við getum. Svo er mikil og flott grasrót hér á Íslandi, Icelandic Innovation Week lauk í maí sem var einstaklega vel gerð og hér var fullt af viðburðum um allan bæ, frábær stemning þannig að framtíðin er björt og mikil nýsköpun í gangi.“

 

Viðtalið er endurbirt úr Vikunni frá 16.06.2022.

 

Birtíngur er með stútfullt safn af íslensku efni, viðtölum og greinum.

Öll blöð Birtíngs eru á einum stað. Með áskrift að vefnum færðu aðgang að fjölbreyttum og áhugaverðum greinum og viðtölum.

Frá aðeins 1.890 kr á mánuði og engin skuldbinding.

www.birtingur.is

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!