KVENNABLAÐIÐ

Missti föður sinn úr sjálfsvígi og fékk hugmyndina að átakinu #3030heilsa

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir Myndir: Anna Kristín Scheving

 

Það var stórt stökk út fyrir þægindarammann að stofna Instagram-síðuna, ég hafði lengi hugsað um að stofna þessa síðu en hreinlega þorði því ekki,“ segir Sigrún. „Svo ákvað ég að árið 2020 yrði árið þar sem ég myndi æfa mig í hugrekki og strax í byrjun janúar það ár stofnaði ég síðuna. Ég var mjög feimin með
hana til að byrja með og lengi vel deildi ég engu frá mér persónulega á síðunni. Ég á samt í ástar-/haturssambandi við samfélagsmiðla og setti mér strax ákveðnar reglur varðandi síðuna, eins og það að ég set enga pressu á mig um að pósta reglulega eða fá fleiri fylgjendur. Tilgangur síðunnar er fyrst og fremst að birta efni sem er uppbyggjandi og hvetjandi og styður um leið við andlega og líkamlega
heilsu fólks.“


Fróðleiksfús og með vítt áhugasvið

This image has an empty alt attribute; its file name is VI-Sigru%CC%81n-Fjeldsted-06-2-683x1024.jpg  Sigrún er alin upp á Patreksfirði og segir að sér hafi fundist æðislegt að alast þar upp, með fjallshlíðina á bak við æskuheimilið og hafið fyrir framan það. „Ég er nokkuð viss um að umhverfið í uppeldinu hafi haft mikil áhrif á það hversu mikið náttúrubarn ég er, en ég sæki mikið í orku úr náttúrunni,“ segir hún brosandi. „Tólf ára flutti ég í Hafnarfjörð og þar bý ég enn. Ég bjó reyndar í Bandaríkjunum í fjögur ár á meðan ég var í háskólanámi.“ Hún segist vera fróðleiksfús og með vítt áhugasvið og því eigi hún langan námsferil að baki. „Eftir framhaldsskóla tók ég B.A. í sálfræði frá The University of Georgia, en ég fékk fullan skólastyrk frá þeim til að stunda nám og keppa í frjálsum íþróttum. Ég ákvað svo að læra heilsunudd og starfaði sem heilsunuddari samhliða námi í kennslufræðum sem gaf mér kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskólum. Eftir það fór ég í M.A. nám í náms- og starfsráðgjöf. Ég hef starfað sem náms- og starfsráðgjafi í Fjölbrautaskólanum við Ármúla í sex ár. Þar sem ég elska að læra og bæta við mig þekkingu fór ég í grunn- og framhaldsnám í markþjálfun hjá Profectus og starfa í dag sem markþjálfi samhliða starfi mínu sem náms- og starfsráðgjafi auk þess að vera að fara að kenna spennandi námskeið.

Áhugamál mín eru allt sem snýr að mannlegu eðli, þ.á.m. andleg og líkamleg heilsa, samspil hugsunar, hegðunar og tilfinninga, sjálfsmynd og samskipti. Mér finnst svo áhugavert hvernig við erum öll eins en samt svo ólík. Ég hef lengi haft áhuga á mannrækt, sem í sinni tærustu mynd má segja að felist í að leggja rækt við og efla sjálfan sig og aðra. Mér finnst gaman að lesa bækur og hlusta á podcöst sem auka þekkingu mína á þessu sviði. Fyrir utan þetta þá hef ég áhuga á flestallri hreyfingu og útivist en þar má helst nefna utanvega-/náttúruhlaup, hjólreiðar, fjall- og kraftgöngur og allt sem reynir á andlegan og líkamlegan styrk. Ég hef líka áhuga á næringarfræði og finnst gaman að elda hollan og góðan mat og best er auðvitað að deila honum í góðum félagsskap. Síðan hef ég að sjálfsögðu brennandi áhuga á öllu sem börnin mín eru að fást við hverju sinni.“


Ákvað að reynslan af föðurmissinum myndi styrkja hana

Í september 2020 setti Sigrún á laggirnar áskorun á Instagram, undir myllumerkinu #3030heilsa, þar sem hún hvatti fólk til að gera samning við sjálft sig um að hreyfa sig í að minnsta kosti þrjátíu mínútur á hverjum degi. Hvernig skyldi hún hafa fengið hugmyndina að áskoruninni? „Hugmyndin kviknaði í september 2020, í kringum alþjóðlegan forvarnardag gegn sjálfsvígum sem er 10. september ár hvert. Þessi
dagur snertir mig og hreyfir við mér, en ég missti pabba minn úr sjálfsvígi. Fljótlega eftir að hann dó ákvað ég að sú reynsla myndi styrkja mig og að einn daginn myndi ég nýta hana til góðs. Þar sem ég hef bæði faglega þekkingu og reynslu af samspili andlegrar og líkamlegrar heilsu ákvað ég að fara af stað með #3030heilsa í þeim tilgangi að vekja athygli á því hvernig andleg og líkamleg heilsa spila saman.


Um leið og ég geri það vil ég hjálpa fólki að gera hreyfingu að vana með því að fá það til þess að hreyfa sig í þrjátíu daga samfleytt.“ Hún segir átakið snúast um skuldbindingu við sjálfan sig. „Áskorunin #3030heilsa snýst um að gera skuldbindingu við sjálfan sig um að hreyfa sig í að minnsta kosti þrjátíu mínútur á dag, þrjátíu daga í röð. Tilgangurinn er að fólk finni það á eigin skinni hvað þrjátíu mínútna hreyfing er góð fyrir andlega og líkamlega heilsu. Svo er ég auðvitað að vona að með því að fólk hreyfi sig í þrjátíu daga búi það
til vana til frambúðar.“


Sigrún segist strax hafa fundið fyrir mjög jákvæðum viðbrögðum frá fólki þegar hún setti áskorunina í gang. „Ég veit af fólki um allt land sem er að taka þátt, og líka í útlöndum. Það eru þá Íslendingar sem búa erlendis, en þeir hafa líka sagt mér frá erlendum vinum sínum og kollegum sem fannst hugmyndin góð og voru með,“ segir hún brosandi. „Ég veit til dæmis af einstaklingum á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum, í Nýja Sjálandi, Sviss, Noregi og Svíþjóð, svo eitthvað sé nefnt.“

Þrjátíu mínútna hreyfing á dag bætir heilsuna og eykur vellíðan
Þegar blaðamaður ber upp spurninguna hvort þrjátíu mínútur séu nægur tími fyrir hreyfingu, segist Sigrún fá þá spurningu mjög reglulega. „Og ég spyr alltaf á móti: Nóg fyrir hvað? Það fer algjörlega eftir því hvert markmið þitt er og hvernig hreyfingu þú stundar, hvort þrjátíu mínútur sé nóg,“ segir hún og myndar gæsalappir með fingrunum þegar hún segir nóg. „Öll hreyfing er þó alltaf betri en engin og að hreyfa sig í þrjátíu mínútur hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu. Aukinni hreyfingu fylgir líka aukinn ávinningur. En svo ég svari nú spurningunni, þá get ég sagt að með því að hreyfa sig í að minnsta kosti þrjátíu mínútur á dag bæti maður heilsuna og öðlist hamingju og vellíðan.“

„Ég veit af fólki um allt land sem er að taka þátt, og líka íútlöndum. Það eru þá Íslendingar sem búa erlendis, en þeirhafa líka sagt mér frá erlendum vinum sínum og kollegum sem fannst hugmyndin góð og voru með. Ég veit til dæmis af einstaklingum á nokkrum stöðum í Bandaríkjunum, í Nýja
Sjálandi, Sviss, Noregi og Svíþjóð, svo eitthvað sé nefnt.“

ru andleg heilsa og líkamleg jafn-mikilvægir þættir eða vegur annað þyngra en hitt?
„Andleg og líkamleg heilsa eru jafn-mikilvægir þættir fyrir vellíðan okkar. Þetta tvennt helst líka í hendur, en það hefur verið sýnt fram á að hreyfing hefur ekki aðeins góð áhrif á líkamann heldur líka á andlegu hliðina. Það sama á við um hreyfingarleysi, en kyrrseta hefur slæm áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu fólks. Boðskapurinn sem ég er að breiða út er að það er sterk fylgni á milli andlegrar og líkamlegrar heilsu.“

Hvernig getur líkamleg hreyfing haft áhrif á andlega líðan?
„Það hefur margoft verið sýnt fram á að hreyfing hefur áhrif á andlega líðan. Ég veit alla vega ekki um neinn sem líður verr á sálinni eftir að hafa stundað hreyfingu. Ég hef held aldrei heyrt neinn segja: „Vá, hvað ég sé eftir því að hafa farið á æfingu!“ Þannig að við finnum það flest sjálf að okkur líður betur í sálinni við það að hreyfa okkur og það er einföld skýring á því. Þegar við stundum líkamsrækt þá eykst
seyti ýmissa hormóna sem veita okkur sælutilfinningu og vellíðan. Þar að auki verðum við ánægðari með okkur þannig að sjálfstraustið eykst, við verðum orkumeiri, sofum betur, höfum meiri kynhvöt og sterkara hjarta-, æða-, og stoðkerfi. Auk þess er regluleg hreyfing góð forvörn gegn ýmsum andlegum og líkamlegum sjúkdómum og kvillum.“

Gott að spyrja sig reglulega hvort hugsanirnar séu að vinna með manni eða á móti
Sigrún segir hugarfarið skipta máli þegar kemur að hreyfingu, rétt eins og öðru. „Hugarfar okkar tengist öllu sem við gerum; og gerum ekki,“ segir hún með mikilli This image has an empty alt attribute; its file name is VI-Sigru%CC%81n-Fjeldsted-11-1-683x1024.jpg áherslu. „Mín skoðun er sú að hugarfarið sé lykillinn að því að ná árangri, sama í hverju árangurinn felst. Ég lít á hugann eins og vöðva sem þarf að þjálfa reglulega. Það er líka gott að spyrja sig með reglulegu millibili hvort hugsanirnar séu að vinna með manni eða á móti. Og hver stjórnar því hvort hugsanir manns séu með manni í liði eða á móti manni?

Þegar kemur að hreyfingu er mjög oft hægt að sjá greinarmun á hugarfari fólks til hreyfingar eftir því hvort það hreyfi sig reglulega eður ei, það er sem sagt munur á hugarfari fólks sem hreyfir sig og fólks sem hreyfir sig ekki. Ég er mjög hrifin af því að þjálfa upp andlegan og líkamlegan styrk á sama tíma og nýti til þess öll tækifæri. Þegar ég til dæmis er að æfa, hvort sem ég er að hlaupa, hjóla, ganga eða lyfta, þá þjálfa ég upp andlegan styrk í leiðinni með alls konar hugarfarsæfingum.“

Hver heldur þú að sé helsta ástæðan fyrir því að fólk hreyfi sig ekki?
„Rannsóknir hafa sýnt fram á að það séu helst tveir þættir sem valdi því að fólk hreyfi sig ekki; tímaskortur og þreyta. Mín skoðun er samt sem áður að helsta ástæðan sé falin í því hvernig fólk forgangsraðar. Ef hreyfing skiptir okkur miklu máli, þá komum við henni fyrir, sama hversu mikill tímaskorturinn er. Allt of margir velja til dæmis frekar að horfa á Netflix í stað þess að hreyfa sig. Ég mæli líka með því að þeir sem eru að upplifa að þeir séu of þreyttir byrji sem fyrst á því að hreyfa sig, þar sem við verðum bæði orkumeiri og almennt lífsglaðari ef við hreyfum okkur reglulega. #3030heilsa snýst einmitt um að það hafa allir þrjátíu mínútur á dag til að hreyfa sig, ef þeir setja hreyfinguna í forgang.“

Hvernig er best fyrir fólk sem hefur ekki stundað líkamsrækt í langan tíma að koma sér af stað aftur?
„Ég vildi að ég ætti hið eina rétta svar, en því miður er það ekki til því þetta er svo einstaklingsbundið. Eins og í öðru þá er sjálfsþekking mikilvæg þegar kemur að hreyfingu; fólk þarf að vera heiðarlegt og skoða af hverju regluleg hreyfing er ekki hluti af lífsstíl þeirra. Næst er að ákveða hvort maður vilji æfa í líkamsræktarstöð, úti, heima eða annars staðar. En til þess að gefa nokkur ráð langar mig að nefna að mikilvægast af öllu er að finna líkamsrækt eða hreyfingu sem manni finnst ánægjuleg eða skemmtileg.


Mörgum finnst líka gott að hafa æfingafélaga en það virðist vera erfiðara fyrir fólk að svíkja aðra en sig sjálfa. Það getur því verið ákveðið aðhald í því. Ekki fara of geyst af stað og ekki ætlast til þess að finna ávinning hreyfingarinnar strax. Best er að byrja rólega og auka álagið hægt og þétt. Að lokum mæli ég með að þeir sem eiga það til að taka tarnir í líkamsrækt án þess að ná að gera reglulega hreyfingu að lífsstíl, ráði sér markþjálfa eða einkaþjálfara til þess að halda utan um heilsuferðalag þeirra með þeim.“

 

Birtíngur er með stútfullt safn af íslensku efni, viðtölum og greinum.

Öll blöð Birtíngs eru á einum stað. Með áskrift að vefnum færðu aðgang að fjölbreyttum og áhugaverðum greinum og viðtölum.

Frá aðeins 1.890 kr á mánuði og engin skuldbinding.

www.birtingur.is

 

Ef þú finnur fyrir vanlíðan og veist ekki hvert þú átt að leita er gott að byrja á því að tala við einhvern sem þú treystir. Ekki burðast með erfiða líðan ein/einn/eitt – því fyrr sem þú leitar þér aðstoðar því betra.

Hjálparlínur og önnur þjónusta hafa líka komið í veg fyrir mörg sjálfsvíg. Hér eru nokkrar leiðir til þess að fá frekari aðstoð (ekki tæmandi listi):

  • Leita til starfsmanna skóla
  • Leita til heilsugæslunnar
  • Bóka tíma hjá sálfræðingi
  • Láta senda beiðni á sérfræðing (í gegnum lækni)
  • Hringja í 1717 sem er á vegum Rauða kross Íslands
  • Hafa samband við Píeta samtökin (sími þeirra er opinn allan sólarhringinn)
  • Óska eftir þjónustu hjá Bergið Headspace, sem er stuðnings- og ráðgjafasetur fyrir ungt fólk upp að 25 ára aldri
  • Fara upp á Bráðamóttöku geðsviðs á Landspítalanum

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!