KVENNABLAÐIÐ

Góð ráð til geðræktar!

Rétt eins og sum okkar kjósa frekar að stunda útihlaup fremur en lyftingar, er geðrækt til af ýmsum toga. Fyrir mörg okkar þýðir það að rækta geðið að setja sjálfum okkur mörk og hafa gott jafnvægi milli leiks og starfa. Það getur reynst erfitt en við megum ekki gleyma því að kulnun er jafnalvarleg og að veikjast líkamlega. Geðorðin tíu eru ráð sem hvert og eitt okkar getur tileinkað sér og æft sig í ævina á enda, enda ræktum við geð og líkama svo lengi sem við lifum.

Geðorðin 10

1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara
Jákvæð sýn á lífið er undirstaða vellíðunnar og vel er hægt að hafa áhrif á almenna líðan með jákvæðu hugarfari. Þó hugsanir geti verið neikvæðar þarf ekki öll tilveran að vera það.

2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um 
Góð samskipti við aðra eru lykillinn að hamingjunni. Það er gott að sýna ást og umhyggju og enn betra er að finna fyrir henni frá öðrum.

3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir
Það eykur víðsýni og umburðarlyndi að temja sér nýjungar og með opnum huga verður auðveldara að sjá lausnir á erfiðum vandamálum.

4. Lærðu af mistökum þínum 
Mistökin móta manninn og mikilvægt skref í velgengni er að læra af eigin mistökum og mótlæti.

5. Hreyfðu þig daglega, það léttir lund 
Regluleg hreyfing skiptir sköpum fyrir gott geð, dregur úr þunglyndi og kvíða og stuðlar að hamingjusamara lífi.

6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu 
Það er gott að þjálfa sig í því að útiloka neikvæð áhrif frá umhverfinu og þekkja þær flækjur sem valda okkur streitu og vanlíðan og beinlínis forðast þær.

7. Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig 
Umburðarlyndi gagnvart öðrum er farsæl leið til að lifa og gott er að hrósa og hvetja aðra í kringum sig reglulega.

8. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup 
Góðir hlutir gerast hægt og það er mjög mikilvægt að gefast ekki upp þó á móti blási. Velgengni næst með því að leyfa mótlætinu að þroska sig.

9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína 
Öll búum við yfir einhverjum hæfileikum og hvert og eitt okkar þarf að finna sína hæfileika og leyfa þeim að njóta sín, enda eitt af lykilatriðum hamingjunnar að hafa gaman af hversdeginum.

10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast 
Þau ná lengst sem setja sér skýr og mælanleg markmið og það er bókstaflega aldrei of seint að breyta til, láta drauma sína rætast og gera eitthvað nýtt – en ekkert gerist nema unnið sé að því!