KVENNABLAÐIÐ

Ég sá tittling í gær

Bréfritari óskar nafnleyndar: Ég var í göngutúr á höfuðborgarsvæðinu í gær. Ég er móðir á fimmtugsaldri. Mánudagskvöld um sjöleytið. Unglingsdrengur um 16-17 ára aldur hjólaði framhjá mér. Aftur og aftur. Grunsamlega oft. Ég fór að halda að hann ætlaði að stela símanum mínum og varð varkár.

Það var hinsvegar ekki það sem vakti fyrir honum.

Það næsta sem ég sé er að hann hjólar bakvið bílskúr og var í beinni sjónlínu við mig, grunlausa. Þá dregur hann út á sér tittlinginn og byrjar að fróa sér. Mér dauðbrá, en þegar ég dró upp símann til að reyna að ná mynd forðaði hann sér.

Auglýsing

Ég fékk hjartslátt. Þetta var alveg út í hött. Það síðasta sem maður býst við í rólegum göngutúr í – það sem maður hefði talið – öruggt, rótgróið íbúðarhverfi.

Svo fór ég að hugsa. Hvað ætti ég að gera? Ætti ég að láta sem ekkert hefði gerst? Var háttalag mitt eitthvað sem hefði getað vakið þessar kenndir hjá þessum unga manni? Ætti ég að þegja?

Auglýsing

Ég var sem steinrunninn í nokkrar mínútur. Ég var að hlusta á podcast og heyrði ekkert hvað fram fór.

Svo ákvað ég að hringja í lögregluna. Tvær lögreglukonur komu og tóku niður upplýsingar og sýndu mér samúð og voru því algerlega sammála að hegðun af þessu tagi væri óviðurkvæmleg. Sem hún er.

Þegar leið á kvöldið og ég var komin heim reyndi ég að einbeita mér að einhverju öðru sem var erfitt. Hugsanir um alla óumbeðna tittlinga sem ég hef lent í í gegnum ævina.

 

Óumbeðnar tippamyndir.

Nauðganir.

Misnotkun á barnsaldri.

Kynferðislegar þvinganir. Bæði í hjónabandi, samböndum og ekki.

„Tittlingurinn á MÉR.”

„Sjúgðu hann!”

„Ég set hann í það gat sem mér sýnist!”

Og svo framvegis. Ég veit ég er ekki eina konan sem veit um hvað þetta snýst. Langt frá því. Og ég er gersamlega komin með upp í kok af þeirri undanlátsemi sem konur hafa „þurft“ og „þurfa enn“ að sýna tittlingum alls konar manna.

Og…hvað með þennan dreng? Flassar hann líka litlar stúlkur? Hvað ef það væri dóttir mín? Dóttir þín? Konan þín? Það sem ég lenti í er ekkert annað en kynferðislegt ofbeldi. Ef þetta eru kenndirnar svona ungur að aldri, hvað tekur við síðar meir?

Kannski ekki neitt. Kannski eru þetta óþarfa áhyggjur. Kannski „vex hann upp úr þessu.” Ég er samt reið og full ógeðs. Þetta atvik rifjaði upp allt of mörg mál – ég hef mikið reynt að gleyma mörgu af því sem fyrir mig hefur komið. Það er bjargráðið mitt. Hugsa ekki of mikið um það.

Gætum við sammælst um að kenna börnunum okkar rétta hegðun hvað varðar kynferðismál? Hvað er rétt og hvað er rangt? Því opnari og hreinskilnari sem við erum, því minna tabú verður í kringum þessi mál og kannski fækkar tilfellum sem þessum með aukinni meðvitund og fræðslu.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!