KVENNABLAÐIÐ

María og Gunnar eiga sjö husky hunda! „Við hreinlega féllum fyrir tegundinni“

María Björk Guðmundsdóttir segir að það þurfi „meira en eina skrýtna konu til að vera með alla þessa hunda,“ en hún og eiginmaðurinn, Gunnar Ómarsson búa í sveitinni, um sex kílómetrum fyrir utan Akureyri.

Þau hjónin eru ættuð frá Akureyri og Dalvík en kynntust í Reykjavík. María situr fyrir svörum þegar spurt er um fjölskylduhagi: „Við eigum þrjá unglinga á aldrinum 16 til 23 ára og við fjölskyldan elskum dýr og alveg sérstaklega hunda og ketti. Við fluttum til Akureyrar 2004, þá með börnin mjög ung en eignuðumst ekki dýr fyrr en 2009.“

Í dag eiga þau sjö husky hunda á aldrinum níu mánaða til átta ára og tvo ketti sem eru 10 og 12 ára. María segir: „Ég vinn skrifstofuvinnu á daginn en maðurinn minn vinnur mest á næturvöktum. Hundarnir eru því lítið einir heima og ef fyrirkomulagið væri ekki svona þá ættum við sennilega ekki alla þessa hunda.“

husky10

Gunnar og hundarnir í útilegu 2018

María heldur áfram: „Við erum saman í þessum hundalífsstíl. Ég tek þátt í flestum keppnum sem ég get á meðan maðurinn minn er meira að sjá um að halda keppnir og er núna í stjórn Sleðahundaklúbbs Íslands. Við erum með sitthvort fyrirtækið, maðurinn minn er með hundasleðafyrirtæki, goHusky og ég sé um fyrirtæki sem selur hunda- og kattafóður, Husse Akureyri.“

Auglýsing

Hvað kom til að þið fenguð ykkur fyrsta Husky-inn?

Það var alveg óvart. Mig langaði alltaf að eiga tvo schäffer hunda og manninn minn langaði að eiga boxer. Við sáum eitt sinn husky á röltinu á Akureyri og fannst þetta fallegasti hundur sem við höfðum séð.

Svo gerðist það árið 2011 að við fórum í 1. maí göngu og hittum vinafólk okkar sem spurði: „Viljið þið kíkja í heimsókn og skoða hvolpa?“ …og þá var ekki aftur snúið. Við heilluðumst alveg upp úr skónum af gullfallegri bláeygðri tík, henni Ösku okkar og fórum heim og lásum allt sem við gátum um þessa tegund, sem við vissum í raun ekkert um. Svo var bara tekin sú ákvörðun að hætta að vera sófakartöflur og snúa lífinu við.

husky11

Hvenær fenguð þið ykkur svo fleiri?

Á þessum tíma ætluðum við ekkert að eiga fleiri, við vorum bara að fá okkur heimilishund. En svo kynntumst við frábærum hópi af fólki á Akureyri sem var í þessu sporti og í framhaldi fórum við í husky útilegu. Og þar vorum við spurð hvort við ætluðum virkilega bara að eiga einn husky, það væri sko miklu betra að eiga tvo, já og eiginlega bráðnauðsynlegt ef maður ætlaði að taka þátt í þessu sporti.

Í framhaldi fórum við að leita og fundum æðislegan rauðan rakka, hann Eld, sem kom til okkar 7 mánaða. Og þá skelltum við okkur í sleðasportið! Við fórum með Eld á hundasýningu en honum gekk ekkert rosalega vel en þetta kveikti áhuga minn á sýningum. Og þá bættist töffarinn Reykur við og saman förum við tvö á hundasýningar. Þarna vorum við komin með 3 hunda og fannst þetta bara fínt.

Árið 2015 komst Reykur á Ösku og þar sem þau eru bæði hraustir og frábærir sleðahundar ákváðum við að leyfa þessu goti að koma. Það fæddust 8 stykki, takk fyrir. Við héldum 2 rökkum, Myrk og Klaka en 6 tíkur fóru á frábær heimili, allt hjá vinafólki og á öllum heimilum nema einu voru husky hundar fyrir. Kviku var skilað rétt um 6 mánaða og þarna vorum við með 6 hunda og það var bara frábært.

2016 urðum við fyrir tveimur áföllum. Eldur var búinn að vera veikur og það uppgötvaðist að hann væri með hrygg gigt og kvaldist mikið og þann 9. júní leyfðum við honum að fara í Eilífðarlandið. Hann var bara fimm ára.

Þann 18. september hljóp Myrkur frá okkur í lausagöngu og varð fyrir bíl á þjóðveginum, viku fyrir eins árs afmælið sitt. Þarna misstum við tvo hunda á stuttum tíma og þetta var mjög mikið áfall og erfitt fyrir okkur öll, menn og hunda.

Dimma kom óvænt inn í líf okkar í apríl 2017. Hún er úr gotinu okkar en það hafði ekki gengið nógu vel á hennar heimili, enda er hún ofvirka týpan og því tókum við hana til baka.

Reykur fór svo á tík hjá Múlaræktun í byrjun síðasta árs og við tókum tvo rakka úr því goti, Jökul og Jaka. Þeir eru líka sýningarhundar, eins og pabbi þeirra.

husky12

Hvernig er venjulegur dagur hjá ykkur?

Lífið hefur breyst mikið síðustu mánuði eftir að við fengum Jökul og Jaka og alveg sérstaklega síðasta mánuð en þá fluttum við út í sveit, nokkra kílómetra frá Akureyri. Áður en við fluttum þá fór ég yfirleitt í einn göngutúr á morgnanna fyrir vinnu með tvo til þrjá hunda. Maðurinn minn gaf þeim svo að borða þegar hann kom heim og fór svo í tvær gönguferðir með restina. Stundum fórum við bara á hundasvæði. Seinni partinn fórum við svo oft saman eða í sitthvoru lagi í göngutúra eða hjólatúra/sleðaferð með gengið.

Það eru ákveðin viðbrigði að flytja úr bæ í sveit og þá breytist líka margt hjá hundunum. Í dag hreyfum við hundana ekki eins og þegar við bjuggum í bænum, þau fara vissulega í göngur en það er ekki lengur aðalhreyfingin þeirra. Þau eru mikið að leika sér í hundagerði heima hjá okkur og svo er mikið um sleðaferðir þessa dagana.

Umhverfið sem við búum í núna býður upp á frábærar göngu- og hjólaleiðir á sumrin og því verður meira um fjölbreyttari hreyfingu hjá hundunum í sumar, bæði göngur og hjól. Eins eru þau bara í bráðabirgða gerði núna en fá mun stærra gerði í sumar.

Auglýsing

Hvað fer langur tími í að baða/fóðra/hreyfa þessa stóru grúppu?

Hundarnir eru ekki baðaðir oft, það bara þarf ekki. Þau eru hreinlega með sjálfvirkan hreinsibúnað og það er aldrei vond lykt af þeim. Sýningarhundarnir mínar fara oftar í bað en hinir vegna sýninga. Það tekur heillangan tíma að þvo þeim fyrir sýningar með alls konar sjampói og svo þarf að blása feldinn alveg þurran. Við greiðum hundunum samt mjög oft og það er bæði til að hafa ekki hár út um allt en mest til að hafa feldinn heilbrigðan og fallegan. Svo þarf að klippa klær reglulega, 144 stykki.

Hundarnir borða tvisvar á dag og við kennum þeim að sitja fallega og biða þar til við segjum „gjörðu svo vel“ og þá eru þau snögg að borða. Við vigtum ofan í hvert og eitt og þau fá þurrmat og hrátt hrossahakk á morgnanna og þurrmat og Laxolíu á kvöldin.

Hreyfingin tekur mismikinn tíma, það fer alveg eftir því hvað við erum að gera. Stundum fara hundarnir ekkert út nema bara í gerðið sitt og þá fer enginn tími hjá okkur hjónum í hreyfingu en stundum er ég t.d. ein um helgi og labba þá t.d. þrisvar sinnum 45 mínútur. Sleðaferðir og hjólaferðir geta líka tekið tíma, það fer allt eftir hvað maður fer langt og hvort annað okkar sér um hreyfinguna þann daginn eða bæði.

Mynd: Marinó Sveinsson
Mynd: Marinó Sveinsson

Þið bjóðið upp á sleðaferðir og fleira á gohusky.is. Eru aðallega ferðamenn sem sækja í þetta eða er allur gangur á því?

Við höfum farið í sleðaferðir í þrjú ár. Það var bara á síðasta ári sem við bjuggum til logoið okkar, skráðum okkur hjá Ferðamálastofu, stofnuðum síðu og gerðum þetta meira að okkar. Við erum ennþá að byggja þetta fyrirtæki upp í rólegheitum og erum rétt að verða starfhæf eftir flutninga. Fyrirtækið okkar er lítið og við bæði i fullri vinnu svo þetta er meira eins og aukavinnan okkar. Við erum með samning við ferðaþjónustuaðila og það eru eingöngu útlendingar sem hafa verið að fara með okkur. Íslendingar eru auðvitað velkomnir líka en hafa ekki verið að sækjast eftir því. Erlendum ferðamönnum finnst svolítið cool að fara á hundasleða á Íslandi.

María og hundarnir. Mynd: Auðunn Níelsson
María og hundarnir. Mynd: Auðunn Níelsson

Þarf að þjálfa Husky sérstaklega til að draga sleða eða er þetta þeim eðlislægt?

Dráttareðlið er hundunum meðfætt en þau þurfa samt að fá viðeigendi þjálfun. Við vorum svo heppin að Aska, Eldur og Reykur lærðu af eldri hundum, frábærum sleðahundum sem vinafólk okkar átti og þau hafa svo kennt hinum hundunum okkar. Það eru samt ekkert allir huskyar sem verða góðir sleðahundar. Sumir hreinlega nenna þessu ekki. Mínir eru misgóðir og ég nota mismunandi hunda eftir hvað við erum að gera.

Aska og Kvika eru t.d. góðir leiðarar, hundarnir sem eru fremst og eru duglegastir að hlýða skipunum og stjórna hraðanum. Klaki er stór og sterkur og hann er bestur aftast á sleðanum, oft með Reyk, pabba sínum. Aska nennir ekki að draga hjól en er frábær á sleða og ef ég er í keppni þá vel ég alltaf Dimmu því hún er pínu klikk og hleypur bara og hleypur. Jökull og Jaki eru svo rétt að byrja í þjálfun og Jökull sýnir t.d. góða takta í að vera leiðari meðan Jaki verður sennilega aftarlega á sleða.

Það eru fullt af skipunum sem þarf að kenna hundunum og þjálfa þá með og svo þarf líka að passa að velja réttan og góðan búnað, viðeigandi vegalengdir og einnig gott undirlag.

 

Er ekki erfitt að vera með svo stóran hóp?

Það getur auðvitað alveg verið krefjandi en líka mjög gaman. Ég fer t.d. ekki með fleiri en þrjá í einu út að ganga og því þarf að fara fleiri ferðir sem tekur þá meiri tíma. Það er meiriháttar mál að fá pössun fyrir svona stóran hóp og því ekkert um utanlandsferðir fyrir okkur. Ekki það að við séum eitthvað spennt fyrir því, þetta er bara okkar lífsstíll.

Svo kostar auðvitað sitt að eiga svona marga hunda. Það þarf auðvitað að borga slatta fyrir bólusetningar og ormalyf og svo getur alltaf eitthvað komið upp á þannig að dýralæknakostnaður getur orðið mikill. Það þarf að kaupa búnað eins og hálsólar, göngubeisli, dráttarbeisli, mittisbeisli og alls konar tauma. Búr, dallar, kong, leikföng, bein og nammi. Svo borða þau alveg slatta. Huskyar eru reyndar mjög matgrannir hundar miðað við stærð og vinnugetu. En svo hjálpar líka til að við erum söluaðilar á Husse fóðri og getum fengið fóður ódýrt.

Huskyar eru hópdýr og þrífast vel sem stór hópur. Þeir hafa ofan af fyrir hvor öðrum og það hjálpar til þegar það er lítill tími til hreyfinga. Fólk heldur oft að hundarnir séu bara út um allt og upp um alla veggi og að við gerum ekki annað en að hreyfa þau en það er alls ekki raunin. Þau leika sér saman þegar þau eru úti en þegar þau eru inni þá liggja þau yfirleitt út um öll gólf og reyna að fá að kúra uppi í sófa og sofa megnið af deginum. Þegar hundarnir fara hins vegar út þá eru þau mjög dugleg og virk.

husky7

Eru allir jafnir? Þ.e. er ekki erfitt að gera ekki einn hund að sínum „uppáhalds?“

Í hópnum eru ekki allir jafnir gagnvart hver öðrum, það er ákveðin goggunarröð og þau búa hana alveg til sjálf. Aska ræður öllu, við köllum hana drottninguna. Reykur er næstur og hann passar að börnin sín lúffi fyrir sér og sýni sér virðingu. Klaki og Kvika koma á eftir foreldrum sínum en Kvika mun hafa vinninginn seinna, hún er svo klár. Dimma er á eftir systkinum sínum, hún verður alltaf eilífðarunglingur. Gúbbarnir litlu eru síðastir og Jökull er síðastur í röðinni.

Hundarnir eru allir uppáhalds. Drottningin hún Aska fær þó sér meðferð, hún fær að sofa inni hjá okkur hjónum og fær oft fyrsta bitann þegar hundarnir fá nammi.

María og Aska
María og Aska

Er mikill munur á persónuleika hjá þeim?

Já, það er töluverður munur á karakter hjá þeim og enginn þeirra eins.

Aska er eldklár en hún er ekki allra. Hún passar vel hópinn sinn, okkar fjölskylduna meðtalda en er almennt ekki að nenna fólki sem hún þekkir ekki. Hún er samt mjög blíð og góð og er eflaust best þjálfaði hundurinn okkar enda okkar fyrsti hundur.

Reykur er blíður töffari. Hann er stoltur strákur sem elskar allt kvenkyns. Hann elskar líka alla athygli og finnst mjög gaman að hitta fólk.

Klaki er stærstur og með minnsta hjartað. Hann er ljúfur risi og er rosalega sterkur og öflugur. Hann er aðeins feiminn en er rosalega forvitinn um smábörn. Á kvöldin vill hann helst kúra hjá mér uppi í sófa.

Kvika er eldklár eins og mamma sín og elskuleg eins og pabbi sinn. Hún er algjör betlari og reynir að sníkja sér bita þegar hún getur, dóttir okkar spillti henni. Hún er frábær í samskiptum við fólk, ekki of æst en algjör kelirófa.

Dimma er ADHD hundurinn okkar. Hún er nett ofvirk og getur hlaupið endlaust. Við segjum að hún sé pínu vitlaus en það er bara því hún er svo ör. Dimma er afskaplega elskuleg. Hún er sú eina af hundunum okkar sem geltir.

Jökull er litla barnið í hópnum. Hann er sá ljúfasti af þeim öllum og með lítið hjarta. Hann virðist mjög klár og við höfum væntingar til hans sem góður leiðari á sleða.

Jaki er töffari eins og pabbi sinn og einstaklega ljúfur líka. Hann gerir allt fyrir mat og nammi. Hann er svolítill nagli og þau eldri eru að hjálpast að við að ala hann upp.

Letihaugar!
Letihaugar!

Mætið þið stundum fordómum út af tegundinni?

Ekki eins mikið í dag og áður. Það hafa komið upp atvik í gegnum tíðina þar sem huskyar hafa fengið slæma umræðu í fjölmiðlum og eftir slíkar fréttir þá höfum við fundið fyrir fordómum en kannski aðallega hræðslu. Fólk hefur öskrað á okkur á hundasvæði „að drulla okkur í burtu með þessar drápsvélar“ og ég man eftir atviki þar sem kona hágrét af hræðslu þegar hún sá hundana okkar leika við smáhundinn hennar. Svo eru alltaf einhverjir sem hafa heyrt þetta og hitt um tegundina og vilja endilega segja mér frá því.

Ég er eiginlega alveg hætt að fara á hundasvæði út þessu nema við séum bara ein þar eða einhverjir sem ég þekki, það er bara einfaldara. Ég er nýhætt í stjórn Félags hundaeigenda á Akureyri, var þar í sex ár og í gegnum tíðina hefur stjórnin meðal annars staðið fyrir hundagöngum, sem ég sá oft um, þar sem allir labba saman í taum, litlir og stórir hundar en enginn má heilsast. Þessar göngur hafa gert mínum hundum gott og eins fann ég að fólk sá að það væri alveg óhætt að vera nálægt mínum hundum. Þetta var bara frábær umhverfisþjálfun fyrir alla.

Það er mikilvægt að þekkja sína tegund og sinn hund og vita hvað maður er með í höndunum. Huskyar eru t.d. með sterkt veiðieðli og geta verið hættulegir smádýrum eins og t.d. músum, fuglum, kanínum og köttum. Þá er eigandans að þekkja eðlið og setja hundinn ekki í þær aðstæður að hann geti valdið slysi. Nú erum við flutt út í sveit og þá er það okkar að passa að hundarnir sleppi ekki út og komist í fé. Það eru reyndar fjölmargar hundategundir sem fara í fé en það virðist þó bara vera fréttnæmt þegar það gerist hjá husky.

Það gerðist einmitt slíkt atvik árið 2012, að huskyar fóru í fé og í framhaldi var birt blaðaviðtal þar sem viðmælandi hélt því fram að huskyar væru hættulegir hundar og gætu hreinlega drepið barn. Ég gerði strax athugasemd við bæði blaðamanninn, sem svaraði mér ekki og viðmælandann, sem sagði að blaðamaðurinn hefði haft rangt eftir. Skaðinn var skeður og aftur og aftur dúkkar þessi grein upp þegar huskyhundar komast í umræðuna. Aðrar tegundir hafa farið í fé síðan þetta var en enginn virðist hafa fundið sig knúinn til að skrifa blaðagrein um þau tilvik.

Eftir þetta ákvað ég að framvegis skyldi ég taka upp hanskann fyrir mína tegund og leggja mitt af mörkum til að kenna fólki og fræða um þessa dásamlegu hundategund. Ég hef gert athugasemdir við fréttamiðla, t.d. ef það er birt mynd af husky við neikvæða hundafrétt, þar sem husky kemur ekki við sögu. Ég blanda mér í samræður um huskyhunda á Hundasamfélaginu ef mér finnst ástæða til. Ég vil samt ekkert rífast við fólk, bara leiðrétta misskilning og fræða, það hjálpar oft til við fordóma.

Við hjónin spjöllum gjarnan við fólk sem við hittum á förnum vegi, gamalt fólk er einstaklega hrifið af hundunum okkar og börn vilja fá að klappa hundunum og vita hvað þau heita. Í leiðinni kennum við krökkunum hvernig á að heilsa hundi og hvað á ekki að gera. Við höfum verið beðin um að koma með hundana að hitta krakka hjá ADHD samtökunum og Hetjunum. Hundarnir eru tilvaldir í svona verkefni því það er líka í eðli þeirra að vera einstaklega barnelskir og blíðir við fólk.

Eðli og einkenni husky hunda eru einmitt dráttareðlið, veiðieðlið og það hvað þeir elska fólk og eru einstaklega barnelskir. Í stuttu máli þá voru forfeður Siberian husky ræktaðir í Síberíu fyrir meira en 1000 árum. Þeir voru hjá fólkinu sínu yfir vetrartímann, voru sterkir og klárir og gátu dregið sleða og þannig hjálpað til við að koma bráðinni heim. Í fimbulkuldanum um nætur voru hundarnir í tjöldum hjá fólkinu til að halda á þeim hita og börnin sváfu á milli þeirra.

Fyrir þessa vinnu fengu hundarnir fæðu. Á sumrin var ekki sama þörf fyrir hundana, þeir fóru frá fólkinu og þurftu sjálfir að veiða sér til matar og þess vegna er þetta veiðieðli svo sterkt. Án þess hefðu þeir ekki lifað af. Á veturna komu hundarnir svo til baka til fólksins.

Ég set mikið af myndum af hundunum mínum á samfélagsmiðla og tilgangurinn er bæði að fræða og gleðja enda er fólk forvitið um hvernig er að eiga alla þessa hunda. Ég er mest á Snapchat en einnig á Instagram og með síðu á Facebook. Margir þekkja hundana mína en fæstir vita hvernig ég lít út enda er ég ekki í aðalhlutverki heldur hundarnir mínir. Stundum er eiginmaðurinn í aukahlutverki, án hans vitundar.

María og hundarnir, sumar 2018
María og hundarnir, sumar 2018

Hvernig verður framtíðin? Ætlið þið að bæta við fleiri Husky-um? 

Framtíðin er vonandi björt. Við erum komin á draumastaðinn og erum með ákjósanlegar aðstæður og umhverfi til að byggja upp hundasleðafyrirtækið okkar. Við ætlum okkur ekkert að verða stór en þurfum þó að eignast fleiri hunda til að geta stækkað. Þannig að já, við munum bæta við okkur og það er reyndar stutt í næstu viðbót.

Hér má finna þennan fallega hóp á FACEBOOK

goHusky á Instagram 

Snapchat: mariabjork73

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!