KVENNABLAÐIÐ

Lífsreynsla móður: „Við vitum aldrei hvað getur gerst á morgun“

Alma Rut skrifar: Stundum tökum við hlutum sem sjálfsögðum. Ég gerði það og það breyttist ekki hjá mér fyrr en vissir hlutir fóru úr lífinu mínu og ég stóð frammi fyrir því að við fjölskyldan gátum ekki gert þá lengur.

Sonur okkar varð langveikur og við það skertust lífsgæði hans verulega. Þessir litlu hlutir sem voru partur af okkar daglegu rútínu og eitthvað sem við gerðum á hverjum degi og í hverri viku.

Auglýsing

Að vakna og hafa tök að fara fram úr rúminu, klæða sig og halda út í daginn heill heilsu er eitt og sér eitthvað sem við ættum alltaf að þakka fyrir að geta gert því við vitum aldrei hvað gerist á morgun og það getur allt gerst hjá okkur alveg eins og hjá öðrum þess vegna er svo mikilvægt að þakka fyrir alla þessa litlu hluti, hlutina sem eru partur af okkar hefðbundnu rútínu.

Sonur okkar fæddist heilbrigður, hann lék sér eins og börn og naut lífsins, ég hugsaði aldrei til þess að einn daginn myndi hann ekki geta gert það sem hann gat gert áður, en sú varð því miður raunin.

Mér fannst sjálfsagt að barnið mitt gæti sótt leikskóla – það var bara eitthvað sem flest börn gerðu og mér fannst það aldrei vera forréttindi. Að hann gæti vaknað á morgnanna og lifað í sinni hefðbundnu rútínu sem við höfðum búið til í kringum hann var svo eðlilegt. Mér fannst það bara hluti af lífinu okkar og ég áttaði mig ekki á því hversu mikilvægt það var fyrir hann og okkur fyrr en öll þessi lífsgæði hurfu og við gátum ekki notið þeirra.

Auglýsing

Einn daginn breyttist nefnilega allt, sonur okkar varð veikur og við vorum ekki undir það búin. Það var ekkert sem benti til þess eða leiddi það í ljós að hann myndi fá sjúkdóm, sjaldgæfan alvarlegan sjúkdóm sem við höfðum enga þekkingu á…en það gerðist samt.

Við fórum í gegnum tímabil þar sem hann var lamaður, hann gat ekki labbað, ekki borðað og við keyrðum hann um í hjólastól. Við stóðum frammi fyrir því að horfa á barnið okkar – það dýrmætasta sem við áttum og eigum – vera lamað, við vissum ekki hvort það væri tímabundið eða varanlega.

Það að geta gengið og hreyft sig er gríðalega mikilvægt og dýrmætt.

Það kom annað tímabil þar sem að sonur okkar sá ekki nema tvö prósent við stóðum frammi fyrir því að mögulega myndi hann aldrei fá betri sjón og kannski missa sjónina alveg.

Það að sjá er gríðalega mikilvægt og dýrmætt.

Annað áfallið sem kom var að sonur okkar hætti að anda og missti meðvitund, við sátum yfir honum og það var óvíst hvernig það myndi fara. Við gátum misst hann.

Það er svo mikilvægt og dýrmætt að hafa heilsu.

Við vorum heppin í dag getur litli strákurinn okkar lifað eðlilegu lífi, hann getur labbað, hann sér betur, hann getur leikið sér, sótt leikskóla, hann hleypur, hann borðar, hann getur gert alla þessa litlu mikilvægu hluti sem eru í raun það dýrmætasta sem við höfum.

Auglýsing

Tökum engu sem sjálfsögðu, njótum lífsins til fulls og þökkum fyrir það sem við eigum og höfum…því við vitum aldrei hvenær eitthvað verður frá okkur tekið.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!