KVENNABLAÐIÐ

„Má segja frá mönnum sem halda framhjá, senda óviðeigandi skilaboð eða hegða sér eins og fífl“

Nína Eck stofnaði síðuna Slæmar reynslur af Tinder og eru tæplega 3000 íslenskar konur í honum. Þar koma fram viðvaranir kvenna við ýmsum mönnum sem stunda stefnumótaappið og eru ýmist giftir, senda typpamyndir eða hegða sér ósæmilega á einhvern hátt.

Auglýsing

Við tókum Nínu tali og spurðum hana hvernig henni datt í hug að stofna þessa síðu: 

Nína segir: „Ég átti sjálf mjög slæma reynslu af manni sem kom vel fram að fyrstu og fór að hugsa, sjaldnast er báran stök, það hljóta að hafa verið fleiri sem hafa orðið fyrir þessum manni. Leitaði í smá stund á Facebook, fann ekkert og stofnaði síðan mína eigin. Síðan er núna orðin okkar, ég er langt frá því að vera sú eina sem deilir sögum og stelpurnar eru farnar að vera mun opnari með reynslusögurnar sínar.“

Skjáskot af síðunni þar sem beðið er um viðbrögð við typpamyndum
Skjáskot af síðunni þar sem beðið er um viðbrögð við typpamyndum

Á síðan sér einhverjar fyrirmyndir? Hver er aðaltilgangur síðunnar?
Það er til svipuð síða sem varar við mönnum á annarri stefnumótasíðu, sem er reyndar mun minna notuð hér á landi en Tinder. Tilgangurinn er sá að hrista upp í þessum ofbeldismönnum og til að virka sem forvörn fyrir aðrar konur.

Er þetta framhald af #MeToo byltingunni í einhverri mynd?
Algjörlega. Hinsvegar eftir að hafa sjálf undanfarið orðið fyrir barðinu á hótunum frá lögmönnum ákvað ég að segja bara fokk it og hætta að stuðla að þöggun. Ég vil helst ekki að svona menn fái að njóta nafnleyndar, auðvitað innan ramma laganna.

Hér er varað við dæmdum manni
Hér er varað við dæmdum manni

 

Má tala um og vara við óæskilegri hegðun frá hinu kyninu? Eru bara konur á þessari síðu?
Mönnum er og hefur alltaf verið velkomið að senda inn sínar upplifanir af Tinder. Hinsvegar til þess að gefa konum safe space og stuðla að trúnaði þá eru bara konur inni á síðunni.

Auglýsing

Nú er verið að nafngreina menn og konur vara við ákveðnum mönnum. Við gerum okkur grein fyrir að einhverjir hafa áhyggjur af því (væntanlega) og segja þetta standist ekki lög. Hvað segir þú um það?
Samkvæmt lögum er ekkert að því að segja óhugnalegar sögur af mönnum svo lengi sem það er ekki verið að saka þá um glæp. Til dæmis er allt í góðu að segja frá mönnum sem halda framhjá, senda óviðeigandi skilaboð eða hegða sér eins og fífl.

Lýsing eins af Tinder
Lýsing eins af Tinder

 

Hefur þú ekki upplifað að einhverjir hafi haft samband við þig?
Jú, algjörlega. Mér fannst reyndar best þegar kvenkyns lögfræðingur án réttinda til málflutnings hringdi í mig á kvennadeginum og vildi að ég tæki niður færslu um strák sem sagðist hafa fengið áfallastreituröskun eftir date með stelpu. Ég neitaði pent og óskaði henni til hamingju með daginn.

Hvert verður framhaldið?
Það verður meira og meira að gera, ég er búin að vera í sambandi við starfsfólk Tinder og er að vinna í stóru skjali með mönnum, kvörtunum undan þeim og meira að segja tengla á dóma og fréttaflutning af brotum þeirra. Það er brot á samfélagsreglum Tinder að nota forritið ef þú hefur verið dæmdur fyrir ofbeldisglæp.

Það er grundvöllur fyrir banni ef dæmdur afbrotamaður er á Tinder. Ég er að vinna í möppu í dag sem fer til Tinder með mönnum og brotum þeirra. Tek við upplýsingum um það en vil benda á að með nýjum meðlimum er sjúklega mikið af skilaboðum að koma inn svo ekki endilega búast við löngum svörum frá mér!

Hér geturðu smellt og komist inn á hópinn á Facebook!