KVENNABLAÐIÐ

„Takið helvítis lyfin ykkar og hættið þessari djöfulsins hysteríu“

Tómas Ragnarsson skrifar:

Síðasti pistill minn um hunda í strætó, Um hið séríslenska bráðahundaofnæmi, er búinn að fara um internetið eins og klamedía um vestfirska verbúð.

Ég hef alveg látið það eiga sig að svara virkum í athugasemdum vegna þess að ég vil ekki draga þessa umræðu niður á plan einstakra tilfella en það er vísast ekki hjá því komist að rýna í nokkur þeirra.

Pistillinn fjallar í raun hvað minnst um hunda í strætó. Hann fjallar um það að allt of margir ofnæmishafar og aðstandendur þeirra krefjast þess að tekið sé sérstakt tillit til þeirra af umhverfinu.

Ég var alltaf ofnæmisgemsinn í mínu nærumhverfi. Ég var með ofnæmi fyrir eggjum, grasi, birki, dún, agúrkum, appelsínum, nagdýrum pensilíni og haug í viðbót. Ég tók ofnæmislyf hið minnsta allt sumarið, mörg þeirra voru sljóvgandi fyrst um sinn en svo vandist maður þeim og oft dugðu þau ekki til og þá var eins og maður væri með rafsuðublindu, þ.e sandpappír innan á augnlokunum. Ég gekk með medicare armband til að gera mögulegum læknateymum vart um pensilínofnæmið og ég var öll unglingsárin með ventólin í vasanum til að díla við astmaköstin sem voru ófá.

Auglýsing

Það sem ég gerði hins vegar ekki var að væla í umheiminum um að hann lagaði sig að göllunum mínum. Ég er búinn að lesa aragrúa fábjánalega vitlausra kommenta síðustu daga, einn sagðist hafa brunað með son sinn bláan í framan upp á slysó því hann hefði fengið ofnæmiskast vegna þess að yngri bróðir hans hefði klappað ketti á leið heim úr skóla.
Þetta er það sem gerist þegar skólakerfið leggur ekki nóg í að kenna fólki rökfræði.

Sonur þessa manns er með asthma, hann getur triggerast af nánast öllu, láttu mig þekkja það. Ef barnið væri með svona slæmt kattaofnæmi væri það látið, því það er engin leið að koma barni gegnum leik og grunnskóla án þess að það hitti annan einstakling sem hefur átt klappsamband við kött.

Því segi ég fullum fetum frá einum ofnæmissjúklingi til annars: hættið þessari helvítis fórnarlambsvæðingu og drullist til að taka ábyrgð á sjálfum ykkur með því að taka þau lyf sem til þarf og ganga með asthmapúst í vasanum sé þess þörf.

Ég hef þurft að fara með son minn í sjúkrabíl uppá Barnaspítala Hringsins (sem ég fæ aldrei fullþakkað fyrir frábæra þjónustu) og sitja yfir honum næturlangt meðan hann náði upp súrefnismettun.

Mér dettur hinsvegar ekki í hug að kenna köttum bæjarins um það eða hundum, ekki einu sinni Framsóknarflokkinum.

Sé maður með ofnæmi af einhverri sort þá má gera ráð fyrir óþægindum, þau eru óumflýjanleg. En þau eru ekki banvæn, svo takið helvítis lyfin ykkar og hættið þessari djöfulsins hysteríu.

Ást og friður
Tommi

Áður birt á Kvennablaðinu 2016

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!