KVENNABLAÐIÐ

Einn látinn einstaklingur af völdum áfengis eða lyfja er einum of mikið

Sigurlaugur Þorsteinsson skrifar: Í gærkveldi horfði ég á þátt í sjónvarpinu sem heitir „Lof mér að lifa.“ Þessi þáttur snerti mig djúpt og ég setti hann strax á endursýningu til að vera viss um að ég hafi heyrt og skilið rétt það sem þar kom fram.

Það er ekki langt síðan ég jarðsetti dóttur mína sem glímdi við sína ára og tapaði.

Auglýsing

Mér varð hugsað til allra þeirra sem um stund hafa verið samferða mér og öðrum í vináttu, frændsemi, vinnu eða leik. Einstaklinga sem misstu tökin og féllu fyrir fíkninni hvort sem um er að ræða áfengi eða lyf. Stelpur og strákar sem áttu lífið og framtíðina. Vel gefið og umvafið ástvinum og á góðum stað í lífinu. En þá kemur þessi bölvaldur inn í líf viðkomandi og allt verður sem sviðin jörð, ekkert er heilagt fíklinum, fjölskylda – vinir – breytir engu.

Púkinn á fjósbitanum herðir takið og nær að lokum algjöru valdi yfir fallegri sál sem brotnar saman undan álaginu.
Í hugann koma nöfn og andlit samferðafólks mín sem fallið hefur í valinn, feður eða mæður, en það dugar ekki til að koma í veg fyrir að börn viðkomandi falli í sömu gryfju.

Auglýsing

Svo eru það þeir sem í meðvirkni eitthvern veginn falla í þann farveg að hafna vandamálinu og breiða yfir og fela fyrir umheiminum og sjálfum sér ástand ástvinarins og skaða jafnvel meira en fíkilinn þá sem verða fyrir í vegferð neytandans.

En illt finnst mér að sjá og heyra framáfólk upphefja og jafnvel krefjast þess að lögleiða og auðvelda aðgengi að vímuefnum. En hvað á maður að segja umræðan um svona ástand? Það er ekkert nýtt og í áratugi hef ég og aðrir séð afleiðingar þessarar fíknar á götum borgarinnar eða bæjanna.
Aftur og aftur er fjallað um þetta í fjölmiðlum og aftur og aftur rís alda umræðu og yfirlýsinga, en litlar eru efndirnar. Jafnvel þjóðþekktir einstaklingar stíga fram og upphefja notkun sína á þessum efnum.

Ég man enn lesturinn á bókinni Dýragarðsbörnin eða sögu sonar Njarðar P Njarðvík um neyslu hans. [Ekkert mál] Frægar stórstjörnur hafa horfið sjónum vegna þessa efna og oft var ástand fólks sem ég sá og ók þá áratugi sem ég ók taxa, fólk sem var jafnvel í fjölmiðlum daglega, en faldi vandlega fíkilinn sem það bar innra með sér. Og síðustu 18 ár hef ég orðið vitni að fleiri en einu eða tveimur dauðsföllum á því sem má kalla vinnustað mínum, Hlemmi,

Ég veit ekki hversu mikið ég lít upp til þeirra sem hafa náð að rífa sig lausa frá neyslunni og náð fótum á ný og gefið öðrum fordæmi. Þvílíkt Grettistak sem slíkt er verður seint metið til fjár, en gróði þjóðfélagsins er margfaldur og réttlætir vel þann kostnað sem fer í að koma fíklum í skjól og vonandi hjálpa þeim við að losna undan því taki sem víman hefur á þeim.

En þurfum við ekki að hætta þessari tvöfeldni sem ríkir í þessum málum og girða okkur í brók hvað þessi mál varðar? Einn látinn einstaklingur af völdum áfengis eða lyfja er einum of mikið.

Ég segi eins og vinur minn til áratuga réttilega bendir á…það er rennislétt sama hvaðan hjálpin kemur ef hún kemur. En falleg ræða í tilefni umræðubylgjunar, skrifuð á blað sem fer beint í ruslafötuna eftir að búið er að lesa hana er lítils virði.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!