KVENNABLAÐIÐ

Af Ísafjarðar-Beggu og ómeðvitaðri handrukkun um miðjan vetur

Valgarður Bragason skrifar: Að gamni mínu setti ég inn status í gær að við pabbi værum að fara út að handrukka saman. Það gerum við jú reglulega. Það og svo förum við líka stundum saman á kvennafar.

Ég hef í kjölfarið fengið allnokkrar fyrirspurnir um hvort ég sé til í að handrukka einhvern en ég verð því miður að hryggja vini mína með því að segja að ég sé ekki handrukkari og einskorðast handrukkið sem greiði við aldraðan föður minn.

En fyrst við erum að spekúlera í þessu get ég svosem alveg sagt ykkur frá því í stuttu máli frá því þegar ég varð óvart handrukkari eina vetrarnótt í Reykjavík.

Auglýsing

Það besta við þetta allt saman var þó að ég hafði ekki hugmynd um það.

Ég vann um tíu eða tólf ára skeið fyrir mér og mínum með því að dreifa plakötum. Límdi þau um allan bæ og vomaði yfir þeim markaði svo ferlega að ekki hefur sést annað eins – hvorki fyrr né síðar.

Og eina vetrarnóttina þegar ég barðist um í snjónum með límfötuna rekst ég á vinkonu mína og feigðarkvendið Ísafjarðar-Beggu. Henni hafði ég kynnst í sorglegum partíum og okkur strax orðið vel til vina. Almennt var ekki talið gáfulegt að kynnast henni eitthvað náið og voru sterkustu menn skrýtnir á svipinn í návist hennar.

Hún, þessi elska, vatt sér upp að mér þar sem ég var að líma plaköt á einhvern vegginn niðrí bæ og hálföskraði: „HEY – Valli motherfokker! Koddu og skutlaðu mér á tvo staði. Ha, er það ekki?”

„Jú, jú,” sagði ég og við fórum inn í bílinn minn og héldum af stað.

„Skreppum aðeins til Tóta svarta á Seljaveginum. Ég þarf bara að ná í dálítið,” sagði Begga. „Ooo, Valli, þú ert alltaf svo æææðislegur. Svo góður strákur. Oh.”

Auglýsing

Við dinglum hjá Tóta og hann hleypir okkur inn. Svo setjumst við inn í stofuna hjá þessum einum vaskasta fíkniefnasala landsins. Og loftið er vægast sagt lævi blandið. Augngotur og skringilegheit sem ég gat með engu móti eytt með smalltalki mínu. Svo fara þau tvö inn í eldhúsið og garga hvort á annað en síðan kemur Begga fram og brosir og segir: „Heyrðu, þetta er komið Valli minn. Drífum okkur bara.”

Næst liggur leiðin til Bubba síðhærða á Njarðargötunni. Sem á þeim tíma var aðallega að selja hass og spítt. Og þar er sama ritúalið. Allt voða skrýtið og rafmagnað en svo vikið sér afsíðis og hún gargar dálítið og svo förum við út.

snowww

„Jæja Begga mín, ertu góð?” sagði ég síðan. „Hvert viltu að ég skutli þér. Ég þarf nefnilega að halda áfram að vinna bara. Ekkert partýstand á mér núna þessi árin.”
„Æ, Valli minn,” sagði Begga þá…„ég var bara að nota þig því mig vantaði að hafa einhvern með mér í þetta. Þeir voru að borga mér skaðabætur. Og ég fékk alveg 20 grömm af eðalgonna. Takk Valli minn fyrir hjálpina.” Svo rétti hún mér gullkeðju og Cartier úr sem hún dró upp úr vasanum: „Hérna, taktu þetta fyrir hjálpina,” sagði hún.

„Af hverju skaðabætur?” spurði ég. „Hvað gerðist Begga mín?”

Ísafjarðar-Begga leit á mig frekar hvasst þarna og sagði: „Viltu vita það?”

„Já, ég vil vita það…” sagði ég.

„Sko…” sagði Begga þá: „Þeir tóku mig þessi helvíti og lúbörðu mig. Alveg í hakk. Út af akkúrat engu. Svo skáru þeir stóran skurð á lærið á mér og svo migu þeir yfir mig. Og Valli minn – mér fannst þetta bara vera alveg fullmikið af því góða.”

Svo rykkti hún upp bílhurðinni og hvarf út í vetrarnóttina.

Ég sá Ísafjarðar-Beggu aldrei eftir þetta. Mestan tímann seinustu árin sat hún inni fyrir frekar alvarlegar sakir. Svo lést hún fyrir nokkrum árum langt fyrir aldur fram.

Ég hef kynnst nokkrum svona konum sem gengið hafa hinn grýtta vel. Og fyrir konur er hann oft grýttari en hitt og það ofbeldi og hryllingur sem þær hafa reynt í lífinu er með ólíkindum. Konur í undirheimum verða fyrir alveg hroðalegu ofbeldi. Þær eru margar harðar og skrámaðar. En ljós þeirra er hlýtt og fallegt þegar það fær að lýsa.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!