KVENNABLAÐIÐ

Sigurveig Káradóttir: Væri frekar til í að moka snjó en fara á líkamsræktarstöð

Sigurveig Káradóttir, landsþekktur matgæðingur, heimshornaflakkari og eigandi Matarkistunnar ákvað að svara nokkrum skemmtilegum spurningum hér hjá okkur á Sykri.

Fyrsta spurningin er: Hvað á kokkur alltaf til í eldhúsinu?

Í ísskápnum er yfirleitt til :hvítlaukur, laukur, egg, smjör, parmesan, sítrónur og yfirleitt steinselja eða aðrar ferskar kryddjurtir. Síðan á ég alltaf til eitt og annað í „skápnum” – pasta, tómata í dós, kókosmjólk, túnfisk, hrísgrjón, núðlur… Þannig að það er yfirleitt hægt að henda í fljótlegan pasta eða núðlurétt án þess að hlaupa út í búð.

Auglýsing

Hver er besta eða áhrifamesta mynd sem þú hefur séð?

Erfitt sko! Ég hef ekki mikið „bíómyndaminni”. Ég man að ég var skíthrædd lengi vel eftir að sjá Rosmary´s Baby í sjónvarpinu þegar ég var lítil og Birds jók dálítið á undirliggjandi fuglafóbíu. Hef auðvitað séð margar góðar og margar lélegar en þessar tvær koma í kollinn eins og er.

Hver er skemmtilegasta og leiðinlegasta líkamsræktin?

Að ganga. Það er eiginlega eina líkamsræktin sem ég held að geti talist skemmtileg. Að ganga um skemmtilega borg eða úti í náttúrunni í góðu veðri. Þar á eftir kemur sund.
Leiðinlegust? Allt innanhúss – skil ekki líkamsræktarstöðvar. Kannski væri hægt að hafa útisal, frekar kaldan og fólk gæti verið að moka snjó fram og tilbaka. Það gæti verið gaman held ég.

Uppáhalds drykkur?

Vatn. Hef alltaf drukkið mikið af því – frá því ég man eftir mér.

Hvernig væri þín draumaríkisstjórn?

Fyrst yrði að leggja niður alla stjórnmálaflokka og kjósa um fólk en ekki flokka. Fólk sem væri hægt að reka ef það stæði sig ekki. Mér finnst þetta kerfi sem við höfum alltof þungt og óskilvirkt. Og bara virkar ekki. Alltof mikill tími fer í innbyrðis þras fólks og flokka og endalaust valdapot og árangurinn er eftir því.

Það er mikið talað en lítið gerist. Einfaldir hlutir þvælast fyrir fólki. Þetta er pínulítið eins og að senda 63 manneskjur á vídeoleigu og ætlast til að það velji saman mynd.

Ef þú mættir breyta einu á landinu okkar góða, hvert væri þitt fyrsta verk?

Það er svo margt…úff bara…Fyrir utan það að fá að kjósa um fólk en ekki flokka…Betri umgengni um land og borg sem og meiri kurteisi, tillitsemi og virðing fyrir náunganum. Við búum í samfélagi og mér finnst stundum að þessir þættir hafi ryðgað dálítið hjá fólki almennt. Tölum ekki um umferðarmenninguna! Fólk flautar ef maður stoppar fyrir fólki að fara yfir á gangbraut – hvað er það?

Hver er þín fyrsta minning?

Ég er ekki alveg viss hver er sú fyrsta – sú allra fyrsta. Ég á margar minningar um að sitja í aftursætinu á bíl – það var held ég farið út að keyra með mig til að svæfa mig á svo til hverju kvöldi!
Síðan eru margar minningar frá því ég var hjá ömmu að sýsla í eldhúsinu. Ég fékk að leika mér meira þar í eldhúsinu en heima – svona eins og gerist og gengur! Ferðalög – við ferðuðumst mikið og mér finnst ég varla sjá mynd af stað í Evrópu án þess að eiga óljósa minningu um að hafa allavega keyrt þar í gegn!

Auglýsing

Ef þú mættir búa annarsstaðar en á Íslandi, hvar myndirðu búa?

Þessa stundina er Boston efst á óskalistanum, þó svo ég vissulega elski Grikkland. Ég var í Boston í fimm vikur í sumar meðan sonur minn var í sumarnámi í Berklee og náði að kynnast borginni mun betur en áður þegar ég hef komið þar við í nokkra daga. Einstaklega þægileg borg. Ekki of stór, hægt að labba allt en almenningssamgöngur líka góðar.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!