KVENNABLAÐIÐ

„Verðlaunin okkar eru að sjá börnin brosa á ný“

Klukkan er rétt fyrir 11 á sunnudagsmorgni, síðsumars í Reykjavík árið 2017. Í rólegu íbúðahverfi í höfuðborginni eru íbúar að vakna og nudda stírurnar úr augunum…svo líta þeir út um gluggann heima hjá sér. Þeim verður starsýnt á hverfisrólóinn.

Þar eru um bifhjólamenn og konur, leðurklædd, merkt frá toppi til táar. Karlarnir eru flestir með skegg. Þeir standa vaktina á rólóinum, einn í hverju horni rólósins.

Hallgrímskirkja hringir í fjarska. Íbúarnir eru uggandi. Er að fara fram uppgjör í fíkniefnaheiminum?

Seinna fæst sú vitneskja að fjölmargir íbúar hringdu í 112, neyðarlínuna. „Uppgjör í fíkniefnaheiminum” eða „Hells Angels á róló í Reykjavík!” gætu verið fyrirsagnir netmiðlanna seinna um daginn ef satt reyndist.

Það hlýtur samt að vekja furðu meðal íbúanna að löggan kemur við, en fer strax aftur.

Hvað er um að vera á rólóinum?

Addi til vinstri, Bangsi til hægri
Addi til vinstri, Bangsi til hægri

B.A.C.A eru alþjóðleg góðgerðasamtök sem eru lítið þekkt samtök á Íslandi, en þeim mun betur þekkt í Bandaríkjunum. B.A.C.A. stendur fyrir Bikers Against Child Abuse. (Bifhjólafólk gegn barnaofbeldi)

Bifhjólatöffarar, (karlar og konur), leðurklædd frá toppi til táar, merkt B.A.C.A. merkinu eru tilbúnir að leggja líf sitt í sölurnar til að verja börn gegn hverskonar ofbeldi, kynferðislegu, líkamlegu og andlegu.

Auglýsing

 

B.A.C.A var stofnað í Utahríki í Bandaríkjunum árið 1995 og eru orðin alþjóðleg samtök.

Þennan sunnudag fer móðir með börnin sín óhult að leika sér á rólóinum. Hún þarf ekki að óttast eitt andartak og getur andað léttar því hún veit að enginn getur skaðað þau meðan þau eru með „lífverðina” með sér. Hún hafði verið hrædd að fara út úr húsi með börnin og var óskað eftir hjálpar B.A.C.A því þau vildu fara út án þess að verða fyrir ónæði af völdum ofbeldismanns.

Við hjá Sykri hittum þá Adda og Bangsa, forseta og varaforseta B.A.C.A, (Bikers Against Child Abuse – Bifhjólafólk gegn ofbeldi gegn börnum) á Íslandi og vildum fræðast um þá starfsemi sem fram fer á landinu okkar.

Ótrúleg tilviljun réði því að B.A.C.A. var stofnað á Íslandi

Þeir Addi og Bangsi höfðu báðir hug á að stofna Íslandsdeild (kallaður kafli hjá B.A.C.A.) árið 2012. Þeir þekktust þó ekki neitt. Bangsi var á spítala að jafna sig eftir að hafa fengið blóðtappa. Addi hafði fengið myndband sent frá syni sínum í tölvupósti. Sonurinn (sem einnig er meðlimur B.A.C.A. á Íslandi í dag) sagði við föður sinn: „Pabbi, þetta er eitthvað fyrir þig.”

Myndbandið hafði þannig áhrif á Adda að hann þurfti að þurrka sér um augun. Þetta var eitthvað sem höfðaði til hans. Í myndbandinu má sjá unga stúlku berjast gegn áhrifum ofbeldis á líf hennar. Svo birtust ÞEIR… og þá er verið að tala um B.A.C.A. Sjá meðfylgjandi myndband hér að neðan:

Nokkrum mánuðum seinna barst þeim svo sameiginlegur tölvupóstur frá höfuðstöðvum B.A.C.A.: „Viljið þið tveir ekki stofna deild saman? Þið mynduð vinna að sameiginlegu markmiði til að gera félagið sterkara?”

Daginn eftir hittust þeir Addi og Bangsi á kaffihúsi. Þeir eru því hjartanlega sammála að það hafi verið hálfgerð töfrastund: „Já, við urðum bestu vinir eftir það. Það hefur ekki slitnað slefið á milli okkar síðan!” svo hlæja þeir hjartanlega. „Já, allavega eftir að mesti óttinn var farinn!” segir Addi og á við að Bangsi gæti litið dálítið vígalega út fyrir hinn almenna borgara. „Hann er samt ekkert í takt við útlitið. Hann er með hlýrra og betra hjarta en margir aðrir, hann má alveg eiga það,” segir Addi.

Auglýsing

Addi og Bangsi sameinast í þessu málefni sem þeir hafa fullan hug á að leggja sig alla í. Það er að segja: Að vernda börn gegn hverskonar ofbeldi: Heimilisofbeldi, líkamlegu, kynferðislegu og andlegu.

Þeir segja báðir: „Samhugurinn í kaflanum er ótrúlegur. Það hefur alltaf verið þannig. Við viljum frekar vera fámenn en góðmenn, en fjölmenn með fjölda rugludalla innanborðs. Við sinnum þannig hlutum að ekkert má út af bregða. Fólki þarf að vera 120% treystandi því verkefnin eru af þeim toga. Við þurfum að vera til staðar fyrir börnin. Ef liðsmaður segist þurfa að fara í bíó, eða sé upptekinn við eitthvað lítilvægt höfum við ekkert með þannig liðsmann að gera. Við viljum fá fólk sem er 100% treystandi og er tilbúið að leggja sig 100% í verkið.”

Liðsmenn B.A.C.A. eru öflugir í góðgerðamálunum
Liðsmenn B.A.C.A. eru öflugir í góðgerðamálunum og allur ágóði fer í að hjálpa börnum sem hafa þurft að þola ofbeldi

Þeir Addi og Bangsi segja að ef menn ætli í bifhjólaklúbb (R.C / Riding Club) geti þeir farið í slíkt og hjólað með öðrum á kvöldin. Þetta sé hinsvegar ekki þannig klúbbur, um 60% þeirra sem sótt hafa um hafa ekki fengið inngöngu.

Ef fólk langar að verða hluti af B.A.C.A. hvað þarf að gera?

Þú byrjar á því að mæta á kaflafundi. Þeir eru fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði kl 20.00 á Ölver í Glæsibæ. Þetta eru opnir fundir og til að halda utan um viðveruskrá byrjar stjórnin að telja. Þú þarft að mæta á þrjá í röð, ef þú missir einn út er byrjað að telja upp á nýtt. Svo leggurðu inn umsókn. Þá þarf að liggja fyrir hreint sakavottorð og umsóknin fer í ferli.

Svo hefst ferlið í umsjón Bangsa sem hefur umsækjendur í þjálfun í að minnsta kosti 12 mánuði. Það er að bandarískri forskrift, eða í raun alþjóðlegri. Nú eru 14 lönd í Evrópu meðlimir og í Kanada og á Nýja-Sjálandi: „Það er uppsveifla í gangi. Margir að sækja um og stofna kafla hér og þar,” segja strákarnir. „Á þessu ári munu sennilega bætast við 300 kaflar um allan heim. Ef t.d. Akureyri vildi stofna kafla þyrftum við að athuga það, þá yrði það sér kafli út af fyrir sig.”

Ferlið og útkoman

Addi og Bangsi fengu inngöngu í samtökin eins og áður er vikið að. Þeir þurftu að mæta á fjölmörg námskeið í Bandaríkjunum þar sem þeir „sugu upp þekkingu gömlu refanna” eins og þeir orða það sjálfir! „Við vorum prófaðir. Og það voru sko alvöru próf. Án þess að monta okkur höfum við staðið okkur mjög vel. Við erum vel liðin og þar kemur inn í að við erum gríðarlega fjölmenn miðað við höfðatölu. Við höfum fengið mikla viðurkenningu, m.a. á þingi í Las Vegas þar sem 12 meðlimir mættu. Enda höfum við unnið hart og ötullega í tæp fimm ár til að komast á þann stað sem við erum núna.”

Þeir Addi og Bangsi eru sammála því að B.A.C.A. sé þeim án efa hjartans mál, það sé í raun ástríða þeirra. En hver eru verðlaunin?

a og b lolo

„Þegar við byrjuðum og fengu fyrsta málið okkar á borð fengum við að kynnast því sem félagar okkar vestanhafs höfðu sagt okkur frá en við í rauninni ekki upplifað og höfðum í raun ekki gert okkur í hugarlund hvernig viðbrögðin yrðu: „Það er tekin svokölluð fyrsta mynd. Level one. Það er tekin ein mynd af fórnarlambinu eftir hjólaferðina og hún prentuð út og sett í ramma. Henni á helst ekki að vera deilt á samfélagsmiðlum eða þannig, meira persónuleg. Þegar móðirin sá myndina fór hún að hágráta. Okkur var brugðið, því hvað höfðum við gert rangt? Þá sagði móðirin: „Dóttir mín hefur ekki brosað í þrjú ár.””

Þarna fengu B.A.C.A. staðfestingu á að þau væri svo sannarlega að gera rétt

Addi og Bangsi segja: „Það eina sem við viljum fá er þetta bros….þessa staðfestingu á því að við séum að gera rétt, gera gagn. Það er eina markmiðið…að sjá börnin brosa breitt,” segja þeir báðir og það er svo sannarlega ekki laust við að maður fái kusk í augun að sjá þessa fílefldu menn vera svo einbeittir og staðráðnir að halda áfram að verja börn landsins með þessum hætti.

Neyðarnúmer B.A.C.A. er 780-2131

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!