KVENNABLAÐIÐ

Hvað hefur áhrif á verkun lyfja?

Sum lyf eru svo slævandi að á meðan áhrif lyfsins vara getur verið varasamt að stjórna vélknúnu ökutæki eða vinna störf sem þarfnast fullrar einbeitingar. Rauður þríhyrningur er merki sem yfirvöld lyfjamála á Norðurlöndum hafa komið sér saman um að nota á lyf sem talin eru draga úr viðbragðsflýti flestra manna, jafnvel við venjulegan skammt. Eins og alltaf gildir um lyf, getur verkun að þessu leyti verið breytileg eftir einstaklingum og lyf sem ekki eru þríhyrningsmerkt geta haft slævandi áhrif á suma, jafnvel í litlum skömmtum.

Auglýsing

Í lyfjaskránni eru þau lyf, sem samkvæmt norrænum lyfjareglum eiga að vera þríhyrningsmerkt, merkt með svörtum þríhyrningi aftan við nafn lyfsins í fyrirsögn. Auk þess eru venjulega varnaðarorð í textanum um viðkomandi lyf. Þótt lyf sé þríhyrningsmerkt er ekki endilega ólöglegt að aka bifreið eftir að hafa tekið inn slík lyf, á sama hátt og ólöglegt er að aka undir áhrifum áfengis. Áhrif lyfsins verður að meta í hverju tilviki. Þannig getur t.d. skammvinnt þríhyrningsmerkt svefnlyf í sumum tilfellum gert mann hæfari til að aka bifreið næsta dag en hann hefði orðið ef hann hefði ekki tekið lyfið og ekið syfjaður og þreyttur. Almennt gildir að hver og einn verður á eigin ábyrgð að meta hvort hæfni hans til að aka hefði minnkað eftir töku lyfsins. Þegar byrjað er að taka lyf, og fólk hefur ekki að fullu gert sér grein fyrir áhrifum þess, er sérstaklega mikilvægt að sýna ýtrustu varkárni. Ef maður er í vafa er betra að láta bílinn eiga sig. Rannsóknir á fólki sem lent hefur í umferðarslysum sýna að stórt hlutfall þessa fólks hefur notað þríhyrningsmerkt lyf.

Um flest þríhyrningsmerktu lyfin gildir að sé áfengis neytt samhliða töku þeirra getur slævandi verkun og þar með hætta á umferðarslysum margfaldast. En þríhyrningurinn merkir ekki eingöngu að viðkomandi lyf geti verið hættulegt í umferðinni heldur einnig að varasamt geti verið að stjórna alls konar tækjum eða vinna störf sem krefjast mikillar einbeitingar og athygli. Í skránni er stundum einnig varað við að lyf geti verið slævandi fyrir ákveðna einstaklinga, þó svo að þau séu ekki þríhyrningsmerkt. Þetta á einkum við um ýmis geðlyf og verður hver og einn að meta hvort hann telur sig hafa fulla einbeitingu og óskerta athyglisgáfu meðan hann þarf að nota þannig lyf.

Áfengi og lyf

Áfengi eða alkóhól hefur áhrif á verkun margra lyfja. Reyndar hefur löngum verið litið á alkóhól sem lyf og það er enn notað í margar hóstamixtúrur og hressandi lyf. Alkóhól hefur sljóvgandi áhrif á heila og taugakerfi manna og getur aukið eða minnkað áhrif annarra lyfja sem verka á heilann. Alkóhól verkar einnig á önnur líffæri, t.d. veldur lítið magn aukningu á framleiðslu meltingarvökva í maga en mikið magn dregur úr framleiðslu meltingarvökva og stuðlar að myndun magabólgu eða magasárs.

Verkjalyf hafa mörg hver reynst valda magabólgu og getur alkóhól stórlega aukið hættuna á magasári þegar þess er neytt með verkjalyfjum eins og t.d. Magnýli. Sterk verkjalyf svo sem morfín hafa slævandi áhrif á heilann og á öndun. Alkóhól eykur þessa sljóvgun og getur valdið öndunarstöðvun og dauða.

Blóðþrýstingslyf geta stundum valdið því að fólk verður óeðlilega næmt fyrir breytingum á stöðu líkamans, þannig að ef til dæmis er staðið snögglega upp úr stól getur það valdið svima og jafnvel yfirliði. Alkóhól getur í sumum tilfellum aukið á þessa hættu og gildir það ekki eingöngu um áfengi heldur einnig til dæmis um hóstamixtúrur sem innihalda alkóhól.

Blóðþynningarlyf þarf að taka reglulega og finna þarf rétta skammta fyrir hvern einstakling. Vitað er að alkóhól getur aukið á blóþynningaráhrif lyfja, sérstaklega þegar um er að ræða mikla áfengisdrykkju. Af þessum sökum getur reynst erfitt eða ógerlegt að ákveða réttan lyfjaskammt.

Sykursýkilyf er flokkur lyfja sem varasamt getur verið að nota með áfengi. Áfengið breytir blóðsykurmagninu og ef sykursýkilyf eru notuð samtímis getur það leitt til lækkunar á blóðsykri og meðvitundarleysis.

Sefandi geðlyf hafa oft slævandi verkun og eykur alkóhól á þessa sljóvgun og veldur því til dæmis að mjög hættulegt getur verið að aka bifreið, jafnvel eftir að drukkið hefur verið mjög lítið magn áfengis. Sefandi geðlyf brotna niður í lifrinni og lifrarskemmdir af völdum áfengis geta dregið úr þessu niðurbroti. Sama gildir um mörg þunglyndislyf sem geta safnast fyrir í líkamanum ef lifur er skemmd af áfengisnotkun og getur þá komið fram eitrun af þunglyndislyfinu.

Sum lyf trufla niðurbrot áfengis í lifur og valda því að mikið af acetaldehýði safnast fyrir í líkamanum, þetta veldur höfuðverk ógleði og uppköstum. Þekktast þessara lyfja er Antabus, sem notað er við áfengissýki, en fleiri lyf hafa svipaða verkun t.d. metrónídazól (Flagyl, Elyzol og Metrazól), og nílútamíð (Anandron).

Auglýsing

Róandi lyf eru ef til vill þau lyf sem hættulegast er að taka með áfengi. Þetta á einkum við um eldri gerðir róandi lyfja svo sem barbítúröt en gildir einnig um svo kölluð benzódíazepínlyf svo sem Valium.

Alkóhólismi og lyf

Það fer alltaf illa saman að neyta áfengis og taka lyf. Í fyrsta lagi getur áfengið breytt eðli lyfjaverkunar þannig að lyfjaskammtur sem að öllu jöfnu er skaðlaus getur orðið lífshættulegur. Í öðru lagi er hætta á að lyfjataka verði óregluleg við langvinna drykkju og þá getur lyf, sem við eðlilegar aðstæður mundi virka vel, haft neikvæð áhrif. Í þriðja lagi getur lyfjanotkun gert áfengisvandamálið flóknara og erfiðara að meðhöndla þegar áfengissjúklingurinn leitar sér aðstoðar.

En lyf eru ekki aðeins varasöm virkum alkóhólistum heldur ber óvirkum alkóhólistum að sýna fyllstu aðgát við notkun lyfja og yfirleitt forðast að taka lyf nema brýna nauðsyn beri til, kemur þar margt til.

Lyfjanotkun er í andstöðu við lífsviðhorf óvirkra alkóhólista, að minnsta kosti notkun lyfja sem hafa áhrif á andlega líðan, vegna þess að lyfið fer þarna í hlutverk gamla vímugjafans og breytir líðaninni við það eitt að komast inn í líkamann.

Önnur og alvarlegri ástæða er sú að mörg lyf geta aukið á fíkn óvirks alkóhólista í áfengi. Þau lyf sem þarna er um að ræða eru einkum ýmis tauga- og geðlyf sem eru í N-flokki í kaflanum „Flokkun lyfja eftir verkun í þessari skrá. Það getur verið gagnlegt fyrir þá sem forðast vilja þessi lyf að fletta upp í þeim kafla, en lyfin sem helst ber að varast eru eftirfarandi: Öll lyf sem flokkast undir róandi lyf (N 05), svefnlyf (N 05), örvandi lyf (N 06),sterk verkjalyf (N 02), önnur verkjalyf og hitalækkandi lyf (N 02), í þessum flokki er þó að jafnaði óhætt að nota lyf sem innihalda eingöngu asetýlsalicýlsýru, parasetamól eða díflúnísal. Af flogaveikilyfjum (N 03) ber að varast lyfið Fenemal en önnur flogaveikilyf er að jafnaði óhætt að nota.

Auk þessara lyfja geta viss svæfingalyf haft áhrif í þá átt að auka á fíkn í áfengi, en sjúklingurinn er ekki alltaf í aðstöðu til að ákveða hvort hann fær slík lyf og verður þá að láta aðstæður ráða hverju sinni.

Varðandi sefandi geðlyf af flokki N 05 má segja að þau lyf er að jafnaði óhætt að taka ef læknir telur nauðsyn á, enda auka þau ekki fíkn í áfengi. Um notkun þunglyndislyfja af flokki N 06 eru nokkuð skiptar skoðanir. Flestir telja þó að alkóhólistum sé óhætt að taka þessi lyf ef læknir telur mikla nauðsyn á.

Af öðrum lyfjaflokkum ber helst að nefna hóstastillandi lyf, en hóstamixtúrur innihalda oft alkóhól og einnig kódein sem er efnafræðilega skylt morfíni. Slímlosandi lyf geta einnig verið varasöm, en þó er að jafnaði óhætt að nota lyfin Bisolvon, Fabrol og Mucomyst. Ofnæmislyf af flokki R 06 geta haft slævandi verkun og þannig verið varasöm fyrir alkóhólista. Sé nauðsyn að taka slík lyf eru lyfin Teldanex og Clarityn líklega æskilegustu lyfin fyrir óvirkan alkóhólista. Af meltingarfæralyfjum ber helst að varast krampalosandi lyfið Librax.

Af gigtarlyfjum í flokki M ber einkum að varast vöðvaslakandi lyf (M 03). Þau eru stundum notuð við bakverkjum og bólgum og leiða mjög auðveldlega til misnotkunar.

Að jafnaði gildir sú regla að lyf sem merkt eru með rauðum þríhyrningi á umbúðum eru slævandi og varasöm fyrir óvirka alkóhólista. Lyf sem ekki er getið um í skránni ættu menn að kynna sér vel og kanna hvort nokkur hætta sé á að þessi lyf séu óæskileg áður en þau eru tekin inn.

Aldur og lyf

Við lyfjagjöf handa börnum og eldra fólki þarf að gæta sérstakrar varúðar. Upptaka lyfsins í æðakerfið, dreifing um líkamann og útskilnaður úr líkamanum er öðruvísi hjá börnum en fullorðnum. Þetta á þó einkum við um börn undir þriggja ára aldri. Þegar lyf eru gefin börnum, á ætíð að gæta þess að skammtur hæfi aldri og líkamsþunga. Ef skýr fyrirmæli eru um það að lyfið eigi ekki að gefa smábörnum á skilyrðislaust að fara eftir þeim.

Það hefur sýnt sig að eldra fólk er viðkvæmara fyrir verkun og aukaverkunum lyfja en yngra fólk. Hér er ekki hægt að benda á nein skýr aldursmörk en það hefur komið í ljós að um sjötugt fer þetta að skipta máli. Hæfni líkamans til að taka lyfið upp í æðakerfið er sennilega hin sama en starfsemi t.d. nýrna og lifrar er hægari þannig að lyfið skilst seinna út úr líkamanum og áhrif þess verða meiri. Það er þess vegna mjög mikilvægt að skammta lyfið sérstaklega fyrir hvern sjúkling sem kominn er á efri ár og fara eftir þeirri skömmtun, eins og mögulegt er.

Sumir eiga í erfiðleikum með að gleypa töflur eða hylki. Hjá gömlu fólki er munnvatnsframleiðsla oft skert og auk þess valda sum lyf munnþurrki. Það getur verið gott að fá sér vatnssopa áður en lyfin eru tekin inn og skola þeim síðan niður með að minnsta kosti hálfu glasi af vatni. Hylki vilja stundum klístrast föst í munni eða hálsi en með því að bleyta hylkið áður en það er sett upp í munninn má koma í veg fyrir það.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að eldra fólk hefur stundum skerta sjón og á þannig erfiðara með að þekkja sundur lyfin sín og getur auk þess stundum ekki munað hvort það hefur tekið lyfjaskammt dagsins. Þegar þannig stendur á er ráðlegt að verða sér úti um vikulyfjabox, sem fæst í flestum lyfjabúðum, en það er þannig úr garði gert, að því er skipt í sjö hólf og er hverju hólfi skipt í nokkur smærri hólf. Þessi sjö hólf eru merkt með vikudögum og er því hægt að setja lyf í hvert hólf fyrir alla vikuna. Á þennan hátt er mjög auðvelt að sjá hvort lyfið hefur verið tekið rétt eða ekki.

Matur og lyf

Matur getur haft áhrif á það hvernig lyf sogast úr meltingarveginum út í blóðrásina. Oftast dregur fæðan eitthvað úr upptöku lyfsins í blóðrás og þess vegna er oft ráðlegt að taka lyf að minnsta kosti 1 klst. fyrir máltíð eða 2 klst. eftir máltíð, en þó er þetta ekki einhlítt.

Sum lyf, t.d. gigtarlyf eru svo ertandi fyrir magaslímhúð að best er að taka þau með mat en önnur lyf ,t.d. sum sýklalyf, eru þannig að matur hefur engin áhrif á það hvernig þau berast út í blóðið. Þegar töflur eða hylki eru tekin inn er ráðlegt að drekka vel með þeim, t.d. hálft glas af vatni. Oft er óhætt að drekka mjólk eða ávaxtasafa með lyfjum, en þó ekki alltaf. Þannig getur sýran í ávaxtasafa dregið úr verkun penicillíns og annarra sýklalyfja og kalkið í mjólkinni getur dregið úr upptöku á tetracýklinlyfjum sem eru einn flokkur sýklalyfja.

Þegar fólk tekur blóðþynningarlyf geta ýmsar fæðutegundir haft áhrif á meðferðina. Mjög feitur matur dregur úr verkun blóðþynningarlyfja og sumar grænmetistegundir innihalda mikið af K-vítamíni sem einnig hefur áhrif á blóðstorknun.

Þeir sem taka levódópa við Parkinsonssjúkdómi ættu að varast próteinríka fæðu sem inniheldur mikið af B6-vítamíni þar sem það dregur úr áhrifum lyfsins. Almennt gildir að ekki á að taka vítamín í stórum skömmtum með öðrum lyfjum nema að vel athuguðu máli.

Sumar fæðutegundir hafa áhrif á saltbúskap líkamans og hafa þannig víxlverkun við lyf. Matarsalt getur verið varasamt fyrir þá sem eru með háan blóðþrýsing eða hjartabilun og sama gildir um lakkrís í miklu magni, þar sem lakkrís veldur uppsöfnun á natríum og auknum útskilnaði á kalíum í þvagi. Aðrar fæðutegundir hafa þveröfug áhrif á saltbúskap líkamans, þær auka kalíummagn og eru þannig æskilegar fyrir þá sem taka þvagræsilyf. Dæmi um slíkar fæðutegundir eru t.d. ávextir, mjólk, ávaxtasafi og kjöt.

Lyf geta einnig haft áhrif á matarlystina. Sum lyf auka matarlyst t.d. þunglyndislyf og sum sterk geðlyf. Önnur draga úr matarlyst. Sum sýklalyf, svo sem penicillín geta valdið ógleði og dregið þannig úr matarlyst.

Mörg lyf hafa áhrif á upptöku næringarefna úr fæðu. Dæmi um þetta eru sýrubindandi magalyf, flogaveikilyf, sum berklalyf, getnaðarvarnalyf og súlfalyf. Oftast eru þessi áhrif þó óveruleg og skipta litlu máli.

Lyf og önnur lyf

Orðin víxlverkun og milliverkun koma stundum fyrir í lyfjaskránni. Þau merkja í stuttu máli að eitt lyf hefur áhrif á verkun annars lyfs og getur annað hvort aukið eða dregið úr áhrifum þess. Víxlverkun milli lyfja er atriði sem oft vill gleymast þegar margir læknar sinna sama sjúklingi og eru að fást við mismunandi sjúkdóma. Það er því alltaf mikilvægt að fólk greini lækninum skilmerkilega frá öllum lyfjum sem það tekur áður en nýju lyfi er bætt við þau sem fyrir eru. Algengt er að fólk taki að staðaldri fjórar eða fimm mismunandi lyfjategundir og oft er enginn sem veit hvort þessi lyf hafa víxlverkanir. Miklar rannsóknir hafa þó farið fram á því hvernig lyf verka hvert á annað og margt vitað í þeim efnum.

Víxlverkun getur aukið eða minnkað áhrif annars hvors eða beggja lyfjanna. Þegar víxlverkun veldur auknum áhrifum er það oftast vegna minnkaðs niðurbrots í lifur, minnkaðs útskilnaðar í þvagi eða vegna samkeppni lyfjanna um prótein-bindingu í blóði. Mörg lyf bindast próteinum blóðsins, einkum albúmíni. Stundum er aðeins lítill hluti lyfsins óbundinn í blóði, en það er sá hluti sem hefur áhrif í líkamanum. Prótein blóðsins geta aðeins bundið takmarkað af lyfjum og ef lyf keppa um þessa próteinbindingu getur það valdið því að aukið magn lyfsins er óbundið í blóði og því kemur fram kröftugri verkun.

Flest lyf brotna niður í lifur og skiljast út í óvirku formi í hægðum eða þvagi. Stundum keppa tvö lyf um sömu efnahvatana í lifur og geta þá hindrað niðubrot hvors annars. Þetta getur einnig leitt til aukinnar verkunar beggja lyfjanna. Loks eru sum lyf sem hafa áhrif á nýru þannig að þau hindra eða draga úr útskilnaði annarra lyfja í þvagi. Þetta veldur því að lyfið safnast fyrir í líkamanum og verkun þess verður kröftugri en áður.

Víxlverkun tveggja lyfja getur einnig leitt til þess að verkun annars lyfsins eða beggja verður minni en annars hefði orðið. Algengast er að þetta stafi af því að annað lyfið truflar frásog (upptöku) hins lyfsins í maga eða þörmum eða eykur niðurbrot þess í lifur. Stundum getur víxlverkun lyfja verið gagnleg. Dæmi um það er að lyfið Probenecid er stundum gefið með penicillínlyfjum til að fá aukin og langvinnari sýkladrepandi áhrif. Stundum er lyfjum jafnvel blandað saman í eitt lyfjaform og þau gefin þannig til að nýta sem best víxlverkun þeirra. Þetta gildir t.d. um lyfið Primazol sem er blanda af trímetóprími og súlfalyfi en þau lyf auka verkun hvors annars. Langtum algengara er þó að víxlverkanir séu til ills og oft eru það aukaverkanir lyfjanna sem aukast mest en lækningaverkun sáralítið. Víxlverkanir lyfja eru sjaldan lífshættulegar.

Þrír flokkar lyfja hafa nokkra sérstöðu að því er varðar tíðni víxlverkana. Það eru blóðþynningarlyf, flogaveikilyf og alkóhól. Þessir lyfjaflokkar hafa mjög oft víxlverkanir gagnvart öðrum lyfjum og ber því að gæta sérstakrar varúðar við notkun þeirra.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!