KVENNABLAÐIÐ

Klám vs. ást

Þau voru frekar hnípin á svip hjónin sem settust inn hjá mér um daginn. Þau voru búin að vera í sambúð í ein níu ár og gift helminginn af tímanum, áttu þrjú börn og allt hafði verið í í lukkunar velstandi að þeirra mati. Auðvitað áttu þau sér líka sínar slæmu stundir eins og aðrir. En yfirleitt tókst þeim að vinna úr þeim. Þangað til maðurinn fór að sækja klámstaðina nýverið með vinnufélögunum og vinunum. Þetta var víst bara eitthvað grín í fyrstu, eða svo hafði hann sagt. En þegar hann fór að fara oftar og eyða þarna stórfúlgum í einkadansa og drykkju, þá var konunni nóg boðið.

Auglýsing

Enda skildi hún ekki í því hvernig hann gæti horft framan í börnin sín eftir að hafa eytt heilu og hálfu nóttunum með drukknum vinnufélögum, starandi á klámsýningar. Henni fannst enginn afsökun að „allir hinir væru giftir líka”. Og ekki skildi hún heldur hvað hann væri eiginlega að tala um þegar hann sagðist elska hana. Þetta með ástina var viðkvæðið hjá honum þegar hann var að reyna að eyða talinu. Hvað þóttist hann eiginlega eiga við, spurði hún? Hún var alla vegana búin að fá nóg og vildi skilja við hann. Og það strax.

Þessi hjón eru reyndar ekkert einsdæmi. Klámsýningarnar og kynlífsbarirnir hafa farið illa með mörg pör og grafið undan margri fjölskyldunni. Því eins og konan sagði, hvernig geta menn eiginlega horfst í augu við fjölskyldu sína og sagst elska hana, eftir að hafa eytt nóttinni í það að niðurlægja ástina, einn eða með drukknum félögum? Það merkilega er, að mörg steggjapartýin enda líka á svona klámstöðum, eða með einkasýningum, jafnvel helgina fyrir væntanlegt brúðkaup. Og hvað getur verið í meiri andstöðu við brúðkaupið en það að kaupa sér aðgang að líkama einhverrar konu úti í bæ?

Jú, jú, einhverjir mótmæla þessu efalaust og segja sem svo að það sé nú ekkert vændi stundað á þessum klámstöðum, það megi bara skoða en ekki snerta. Þess vegna sé ekki verið að „kaupa sér aðgang að konu úti í bæ“. En skiptir í raun og veru einhverju höfuðmáli í hverju „aðgangurinn“ er fólginn? Sá sem borgar konu fyrir að dansa klámdans fyrir sig, er búinn að kaupa sér afnot að líkama hennar. Hún er hans eign, þann tíma sem hann hefur borgað fyrir hana. Menn geta svo kallað þetta hvað sem þeir vilja. Þetta vissi konan fullvel sem ég sagði frá hérna áðan. Og þess vegna þoldi hún ekki ferðirnar á klámbarina hjá manninum sínum, heldur vildi hún skilnað.

Þegar allt kemur til alls, þá takast á tvö gersamlega andstæð sjónarmið í umræðunni sem hefur farið fram að undanförnu um kynlífsmarkaðinn. Það er ekki flóknara en svo. Annarsvegar höfum við sjónarmið þeirra er vilja selja líkama kvennanna og neytendurna, sem hafa borgað fyrir sig. Þeir nota líkamann sem þeir hafa borgað fyrir, fá þá vöru sem í boði er. Þegar líkami konunnar hefur verið nýttur samkvæmt vörulýsingu, hendir neytandinn umbúðunum.

Auglýsing

Hitt sjónarmiðið er sjónarmið ástarinnar. Ástin er grundvallaratriði í nánum samskiptum tveggja þroskaðra einstaklinga. Ástin er bæði þrá eftir þeim sem maður elskar, en líka löngun til þess að gefa af sér, til þess að vefja þann sem maður elskar, elsku sinni. Ekkert er betra en það að elska og að vera elskaður. Þessi gagnkvæmni ástarinnar er grundvöllurinn undir öll samskipti í lífinu, líka við börnin okkar. Ástin verður síðan forsendan fyrir hamingjusömu kynlífi, þar sem báðir aðilar eru gefendur og þiggjendur.

Spurningin er hvort okkur finnist kynlífsiðnaðurinn „ok“? Ástin og klámið takast á í samfélaginu. Hvort viljum við að verði mótandi fyrir börnin okkar og samfélagið sem heild? Viljum við að börnin læri að lifi ástríku lífi, eða eiga þau að alast upp við að líta á sig og líkama sinn sem hverja aðra vöru sem hægt er að kaupa og selja? Er neyslan það eina sem máli skiptir? Eða hefur ástin enn eitthvað gildi? Um það snýst spurningin. Konan sem ég sagði frá hér í upphafi vissi svarið fyrir sitt leyti. Ég held að þú vitir það líka.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!