KVENNABLAÐIÐ

Hvenær er ástæða fyrir að hafa áhyggjur af höfuðverk?

Höfuðverkur er almannakvilli sem flestir fá öðru hverju. Venjulegur höfuðverkur krefst ekki læknismeðferðar en einstaka manneskja getur verið svo þjáð af höfuðkvölum, að ástæða er til að láta athuga það. Mígreni-sjúklingar hafa yfirleitt þörf fyrir lyfjameðferð.

Hvað getur valdið höfuðverk?

Það er alþekkt að margt í umhverfinu okkar getur valdið höfuðverk. Fyrir þann sem þjáist oft af höfuðverk gæti verið ráðlegt að halda dagbók yfir höfuðverkjaköst, þannig að hægt sé að glöggva sig á hvað sé kveikjan og hvenær. Hugsanlega þarf bara að forðast eitt atriði til að losna við að höfuðverkinn. Læknirinn getur líka stuðst við dagbókina, til að átta sig á hvort þörf sé á meðferð og þá hverri.

Loftþrýstingur

Náttúrulegt umhverfi og aðrar aðstæður geta framkallað verkinn. Til dæmis kannast margir við að fá alltaf höfuðverk þegar loftþrýstingur breytist. Það þýðir að þeir eru viðkvæmir fyrir veðrabreytingum, þegar loftþrýstingurinn sveiflast milli hæða og lægða. Aðrir finna fyrir árstíðabreytingum á þennan hátt.

Óreglulegt mataræði

Matur og drykkur getur líka valdið höfuðverk. Það á sérstaklega við um mígrenisjúklinga, sem verða varir við að þeir fá köst t.d.eftir neyslu á kaffi, súkkulaði, te, osti og áfengi. Gervisykur getur líka valdið höfuðverk og einnig fá sumir höfuðverk af að borða matvæli, sem innihalda nítrít (saltpétur), t.d. pylsur. Ef við borðum ekki reglulega getur blóðsykur lækkað of mikið og valdið höfuverk. Best er að borða oft og lítíð í einu til að viðhalda stöðugum blóðsykri í líkamanum.

Lyfja-höfuðverkur

Lyf geta einnig valdið höfuðverk. Hjartalyfið nitroglycerin er eitt þekktasta lyfið sem getur valdið höfuðverk. Einnig má nefna svefnlyf. Of mikil neysla höfuðverkjalyfja getur líka valdið höfuðverk. Því er mikilvægt að fylgja ráðleggingum um skammtastærðir sem lesa má á umbúðunum. Ef þörf er meiri lyfja ætti að hafa samband við lækni.

Streita og svefn

Lífsstíll getur átt sinn þátt í að valda höfuðverk. Langvarandi álag, krefjandi vinna eða erfitt persónulegt samband eru ekki ólíkleg til að koma af stað höfuðverkjaköstum. Svefnleysi er líka algeng ástæða höfuðverks, og að sama skapi getur of mikill svefn haft svipuð áhrif.  Reykingar og áfengisneysla eru líka sökudólgar.

Hár blóðþrýstingur

Lítillega hækkaður blóðþrýstingur hefur oft engin einkenni í för með sér, jafnvel svo árum skipti. Ef einkenni gera vart við sig er algengast að finna fyrir höfuðverk. Stundum er hann í hnakka, með æðaslætti og verstur á morgnana, en hann getur lýst sér á annan hátt. Háan blóðþrýsting er tiltölulega einfalt að greina með því að mæla blóðþrýstinginn en gott er að mæla nokkrum sinnum, jafnvel með nokkurra daga eða vikna millibili. Ef einstaklingur er með höfuðverk og hefur grun um að orsökin geti verið hár blóðþrýstingur, ætti hann að fara til læknis og fá skoðun og blóðþrýstingsmælingu.

Hormónar og konur

Höfuðverkjaköst kvenna geta verið hormónatengd. Þær geta fengið höfuðverk við hormónasveiflur. Það getur gerst við byrjun tíða eða lok þeirra, við egglos, eða þegar þær eru á breytingaskeiðinu.

Ekki slaka of mikið á

Helgar-höfuðverkur er nýtt hugtak. Fólki hættir til að fá höfuðverk þegar það loksins nær að slaka á og njóta þess að vera í fríi. Höfuðverkurinn kemur fram við spennufallið. Þessi tegund höfuðverkja er nátengdur streitu.

Vinnustellingar

Vinnustellingar skipta verulegu máli hvað varðar höfuðverk. Ef setið er vitlaust við skrifborð, t.d. axlir spenntar, þegar unnið er við ritvél eða tölvu, myndast vöðvabólga og þrýstingurinn getur valdið höfuðverk. Það sama á við um allar óhentugar vinnustellingar. Ef vinnustellingar valda hugsanlega höfuðverkjum, og ekki er unnt að breyta þeim á eigin spýtur þarf að fá tilsögn hjá lækni eða sjúkraþjálfara.

Ónóg vökvainntekt

Ef við drekkum ekki nægan vökva getur það haft slæma verki í för með sér. Ráðlagt er að drekka a.m.k. 2 lítra af vökva á dag en of mikil kaffidrykkja getur valdið höfuðverk vegna og mikils koffins. þess vegna er ekki ráðlegt að drekka meira en 2 bolla af kaffi á dag. Vatnið er alltaf besti drykkurinn.

Hvernig á að halda höfuðverkjadagbók?

Auðveldast er að hafa lítið dagatal við höndina þar sem merkt er við í hvert sinn er viðkomandi fær höfuðverk. Viðkomandi skráir hjá sér tímasetninguna þegar verkurinn byrjaði, og hve lengi hann stóð. Skráðu líka hjá þér hvað þú borðaðir eða drakkst. Hvort viðkomandi hafi tekið inn lyf, hvar viðkomandi ert stödd í tíðahringnum (ef viðkomandi er kona), hvort eitthvað sérstakt hefur borið við (streita) hugsanlega hvernig veðrið hafi verið og hvort miklar veðrabreytingar hafi orðið nýlega. Ráðlegt er að halda dagbókina í einn eða tvo mánuði til að sjá, hvort hægt sé að greina mynstur. Tilgangurinn með að halda dagbók er að átta sig á hvaða þættir koma af stað höfuðverkjaköstunum, og læra þannig að forðast þá, eða aðstæður sem valda þeim. Ef slík tengsl liggja ekki í augum uppi, gæti verið reynandi að fara með dagbókina til heimilislæknisins. Ef til vill getur hann spurt spurninga til viðbótar og þar með leyst gátuna.

Hvað getur þú gert við höfuðverkjunum?

Ef höfuðverkjadagbókin hefur auðveldað að komast að orsökum höfuðverkjanna er fyrsta skrefið að sneiða hjá því sem veldur höfuðverkjunum. Ef það er matur eða drykkur, sem valda óþoli má gera ráðstafanir til að forðast það. Oft er hægt að fyrirbyggja höfuðverk með því að forðast svefnleysi, borða reglulega, nota eins lítið af lyfjum og kostur er, reykja ekki og forðast mikla áfengisdrykkju. Nota skal heilbrigða skynsemi og forðast að ofreyna sig langtímum saman. Gætið að vinnustellingum. Ef þær eru óhentugar, er annð hvort hægt að breyta þeim á eigin spýtur eða í samráði við fagmanneskju. Oft eru það smávægileg atriði, eins og til dæmis að breyta stillingu á stól, eða þess háttar. Ef um spennuhöfuðverk er að ræða er mikilvægt að læra slökun. Hana má bæði nota á meðan höfuðverkur er til staðar og einnig til að fyrirbyggja hann. Sumir eru ánægðir með árangur af nálastungum og aðrir nota öndunaræfingar. Fjölmargar aðferðir koma til greina, og velur viðkomandi þær sem henta skapgerð hans og lífsskoðun.
Sjúkraþjálfun getur verið liður í að losa sig við vöðvabólgu. Það, ásamt nuddi, getur verið byrjunin en til að fullur árangur náist þarf að fylgja því eftir með hreyfingu. Farðu í göngutúr á eftir, það getur haft stórbætt áhrif á líðanina að fá sér frískt loft eða fara í hressilegan göngutúr. Þú byggir upp vöðvana, kemur blóðinu á hreyfingu og þér líður vel á eftir. Fimmtán til tuttugu mínútna gönguferð, 2-3 sinnum í viku, getur gert kraftaverk.

Hvenær er höfuðverkur hættulegur?

Ef einhver af eftirfarandi einkennum eru til staðar, þarf strax að hafa samband við lækni:

  • Skyndilegur og magnaður höfuðverkur.
  • Ógleði eða uppköst.
  • Breytt meðvitund (syfjaður/sljór, erfitt að vekja viðkomandi eða ná sambandi við hann).
  • Hár hiti og stífleiki á aftanverðum hálsi.
  • Krampar.
  • Sjóntruflanir eða sjónskerðing.
  • Stjórnleysi eða tilfinningaleysi í höndum og/eða fótum.

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!