KVENNABLAÐIÐ

Tilfinningar sorgarinnar

Lífið er ferðalag um augnablik jákvæðrar upplifunar og sársaukafullrar reynslu sorgarinnar. Augnablik, sem setja mark sitt á líf einstaklingsins, inntak þess og þroska. Að vera manneskja er að finna til. Sorgin hlífir engum og birtist að óvörum. Hún tekur á sig ýmsar myndir og tengist því fyrst og fremst að vonir og væntingar hafa brugðist og framtíðaráform raskast. Sorg er hluti heilbrigðs lífs og henni þarf að finna farveg, sem miðar að því að læra að lifa með þeim missi sem á okkur er lagður og lifa í sátt við það ör sem myndast við missinn.
Að finna þennan farveg getur reynst flókið og tekur langan tíma. Næturnar eru langar og dagarnir stuttir ef þá dagar yfirhöfuð. Syrgjandinn lifir í djúpum dal myrkurs, sársauka og vanlíðunar, sem á sér enga samsvörun við neitt sem hann hefur upplifað áður. Atorka og lífsgleði eru víðsfjarri, depurð og vonleysi grípur um sig og starfshæfni skerðist.

Auglýsing

Með þessa reynslu í farteskinu var lagður grunnur að stofnun Nýrrar dögunar, samtaka um sorg og sorgarviðbrögð, árið 1987. Kraftmikill og samstilltur hópur sjálfboðaliða reið á vaðið og sýndi fram á brýna þörf á slíkum vettvangi fyrir syrgjendur. Vettvangi, þar sem syrgjendur gátu komið saman og með sameiginlegum stuðningi, ásamt fræðslu um mál sem litlum gaum hafði verið gefinn að, orðið að liði við úrvinnslu þeirra erfiðu tilfinninga, sem tengjast sorginni. Farvegur var fundinn í formi sameiginlegs og / eða einstaklingsbundins stuðnings.
Fram til þessa höfðu syrgjendur á Íslandi átt í fá hús að venda og kynslóð fram af kynslóð ríkti það viðhorf að sorg snerti einungis þá sem fyrir henni urðu. Það vill svo til að sorg snertir alla og mætir flestum okkar á lífsleiðinni.

Sorgin og sárar tilfinningar hennar eru eðlileg viðbrögð við missi. Missir er ekki eingöngu bundinn við að einhver deyr. Missir getur líka tengst skilnaði, slysum, veikindum, fötlun og öðru mótlæti í lífinu.
Sorgin hefur margbreytileg birtingarform og sorgarferlið er langt frá því að vera það sama hjá öllum. Flestir eru þó sammála um að flæði tilfinninga sé mikið og tilfinningalegar sveiflur töluverðar. Þessar sterku og nýju tilfinningar sem hrærast innra með syrgjandanum gera það að verkum að hann verður oft hræddur við eigin viðbrögð og því mikilvægt að fá viðurkenningu, frá umhverfinu, á að þetta séu eðlileg viðbrögð við þeirri þungbæru reynslu sem missir er.

  • Tilfinningar sorgarinnar

Margir syrgjendur hafa lýst mikilli doðatilfinningu fyrstu mánuðina eftir missi. Það er einsog skynfærin nemi skilaboð á annan hátt en vant er, syrgjandinn heyrir ekki né skilur það sem sagt er og er utanvið sig í samskiptum. Hugsanir geta orðið mjög ruglingslegar og stutt er í þráhyggju og ranghugmyndir.
Á þessu tímabili heyrir syrgjandinn gjarnan frá umhverfinu hvað hann standi sig vel.
Afneitun
er önnur tilfinning, syrgjandinn neitar að horfast í augu við missinn og á þann hátt takmarkar hann þann sársauka sem herjar á hann. Reiðin er ein þeirra erfiðu og sterku tilfinninga sem birtast hjá syrgjendum og er eðlilegur hluti af sorgarferlinu. Hún getur tekið á sig ýmsar myndir og henni fylgir mikil vanlíðan. Reiðin getur beinst gegn syrgjandanum sjálfum, sjúklingnum, þeim sem látinn er, læknum og hjúkrunarfólki og ekki má gleyma reiðinni sem beinist gegn Guði. Reiðin fer oft í þann farveg að leita svara við spurningum s.s. “hvers vegna ég?” “hvað gerði ég til að verðskulda þetta?”, o.s.frv.
Syrgjandinn fær oft á tíðum útrás fyrir reiðina með því að finna blóraböggul sem hlýtur að eiga sök á því sem komið er.Ásökun eða sektarkennd eru tilfinningar sem tengjast reiðinni og birtast oft hjá syrgjendum. “Ef ég hefði………….” klingir í höfðum þeirra og veldur mikilli streitu og vanlíðan.

Auglýsing
Fyrstu vikur sorgarinnar einkennast af áfalli, reiði, sekt og afneitun og á því tímabili er síður rými fyrir einmanaleik. Einmanaleiki birtist síðar í sorgarferlinu, jafnvel nokkrum mánuðum eftir missi. Óbærilegur einmannaleiki þrengir sér inn í líf syrgjandans, hann upplifir sig ekki í tengslum, hvorki við annað fólk né umhverfi sitt og hefur ekki frumkvæði til að leita eftir samskiptum. Hann upplifir mikið tómarúm er félagslega einangraður, hræddur og kvíðinn og skilur ekki hvað er að gerast innra með sér. Hann verður hjálparvana, þreyttur og einbeitingar- og úthaldslítill.
Allt eru þetta merki um eðlileg sorgarviðbrögð og skyldi engan undra að syrgjandinn skuli breytast í samskiptum, með alla þessa byrði á bakinu.

Sorgin og líkamleg viðbrögð

Margir syrgjendur finna fyrir líkamlegum breytingum sem svipa til einkenna líkamlegra sjúkdóma og því er eðlilegt að syrgjendur hafi áhyggjur af að ofan á allt séu þeir líka orðnir alvarlega veikir. Sorgin er ekki sjúkdómur heldur bregst líkaminn við sorginni á þennan hátt. Einkenni eins og: þung andvörp, hjartsláttartruflanir, herpingur í brjósti, meltingartruflanir, höfuðkvillar, svimaköst, sjóntruflanir, svitaaukning, lystarleysi, grátköst, munnþurrkur, andarteppa, þróttleysi, vöðvaslappleiki, viðkvæmni fyrir hávaða, og svefntruflanir eru einkenni sem margir syrgjendur verða varir við.
Ekki er hægt að útiloka að um sjúkdóma sé að ræða og ætti syrgjandi því að leita læknis ef hann telur þess þurfa.

Sorgin og úrvinnslan

Sorgarferlið er langt og strangt og það þarf sitt rými og viðurkenningu. Með því að gangast við þessum erfiðu tilfinningum og líkamlegu vanlíðan og sporna ekki við þeim öðlast syrgjandinn aukinn styrk til að takast á við sorg sína.
Tjáning tilfinninga og samskipti við þá sem andstreymið hafa reynt, ásamt markvissri faglegri fræðslu, tengd sorg og sorgarviðbrögðum, skiptir höfuðmáli í viðleitni til sjálfshjálpar, eftir átakalegan missi. Syrgjandinn öðlast á þann hátt frekari skilning á fyrirbærinu sorg og einkennum hennar og verður hæfari til að takast á við lífið, án þeirra sem farnir eru.
Með þetta að leiðarljósi hefur Ný dögun byggt upp starfsemi sína og stuðningsþjónustu og sett sér markmið sem miða að því að styðja syrgjendur, á leið sinni til sjálfshjálpar og alla þá sem vinna að velferð þeirra.

Flestir syrgjendur hafi staðið frammi fyrir því að vita ekki hvernig þeir eigi að komast í gegnum daginn og hafa enga trú á að líðan þeirra eigi eftir að batna hvað þá að þeir eigi eftir að taka gleði sína á ný. En það er nú einhvern veginn svo að það birtir um síðir þó afar erfitt sé að sjá að það geti orðið. Smám saman fækkar þeim dögum sem litaðir eru af vonleysi og depurð og andleg og líkamleg líðan batnar. Lífið verður aftur þess virði að lifa því.
Sárin gróa, en eftir situr ör missis sem syrgjandinn lærir að lifa með. Söknuðurinn hverfur aldrei en minningin um þann sem farinn er verður skýrari og fallegri. Átakanleg og sársaukafull reynsla breytist í þroska sem gerir syrgjandann hæfari til að lifa í samfélagi okkar mannanna með kærleikann, umburðarlyndið og þakklætið að leiðarljósi.

Ráð sem reynst hafa syrgjendum vel

Mikilvægt er að syrgjandinn reyni eftir fremsta megni að einfalda líf sitt, fækka streituvöldum dagsins og taka fyrir einn dag í einu:

  • að nærast vel og reglulega, þrátt fyrir lystarleysi
  • að fá góðan svefn/hvíld, reyndu þó að þú eigir við svefntruflanir að stríða
  • notaðu ekki vímugjafa, vímugjafar fresta því að þú takist á við tilfinningar þínar
  • leitaðu samskipta við aðra, félagsleg einangrun eykur á vanlíðan þína
  • leyfðu þér að gráta, grátur losar um spennu og mundu að það er í lagi að gráta innan um aðra
  • hreyfðu þig reglulega, virkjaðu aðra með þér, reyndu þó að þér langi helst til að vera einn
  • skrifaðu dagbók, reyndu þó að þú megnir varla að lyfta blýanti, dagbókin á eftir að hjálpa þér síðar m.a. til að sjá hverju þú hefur fengið áorkað frá því síðast
  • ef þú ert spurður um líðan þína skaltu svara hreinskilningslega
  • æfðu þig í að leita stuðnings og hjálpar, mundu að þú einn berð ábyrgð á eigin líðan
  • mundu að þakka sjálfum þér fyrir vel unnin störf, það er meira en fullt starf að takast á við sorgina
  • leyfðu sjálfum þér að gleðjast, það er ekki vanvirðing við hinn látna
  • reyndu að setja þér það markmið að gera daginn í dag að betri degi en daginn í gær.

Nokkrar ráðleggingar til aðstandenda og vina

Vanþekking og hræðsla við dauðann og sorgina er oft hindrun þeim sem vilja veita stuðning.

  • Mundu að syrgjandinn þarf á stuðningi þínum að halda
  • Hafðu samband, með því sýnir þú að þér er ekki sama. Misskilin tillitsemi getur aukið á sjálfsásökun og sektarkennd syrgjenda. Farðu í heimsókn og gefðu af tíma þínum. Mundu að syrgjandi á oft erfitt með að taka frumkvæði og hefur ekki þann kraft sem þarf til að stuðla að samskiptum. Að lyfta upp símtólinu getur verið honum um megn. Hafðu samband á frídögum, sársaukinn er mestur á þeim tíma.
  • Gerðu þér grein fyrir mikilvægi þess að fjölskyldan og vinahópurinn standi saman, fyrstu mánuðina.
  • Fáðu hugmynd og framkvæmdu hana, feimnislaust.
  • Vertu reiðubúinn að bjóða fram aðstoð þína við hagnýta hluti s.s.versla í matinn, útbúa mat, þvo upp, svara í símann og þrífa. Það getur verið syrgjandanum um megn að framkvæma einföldustu heimilisverk.
  • Sýndu hluttekningu, einlægni og heiðarleika, vertu óhræddur við að sýna eigin vanmátt, vertu þú sjálfur.
  • Stattu við gefin loforð.
  • Faðmlag og snerting veitir styrk og öryggistilfinningu.
  • Hlustaðu, það er syrgjandanum mikilvægt að fá tækifæri á að tjá sig við einhvern sem hann treystir.
  • Ekki breyta um umræðuefni. Með því lokar þú á marga möguleika til að veita stuðning.
  • Virtu tilfinningar syrgjandans og líðan, það er mikilvægt að fá viðurkenningu á að það sé eðlilegt að vera sorgmæddur.
  • Forðastu að dæma hagi eða hátterni syrgjandans. Hegðun hans getur verið óviðeigandi, láttu það ekki á þig fá. Reyndu að skilja og setja þig í spor hans.

Doktor.is – allur fróðleikur um heilsu og lyf!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!