KVENNABLAÐIÐ

Hvernig meðhölda skal brunasár

Bruni hefur löngum verið nefndur fyrsta, annars og þriðja stigs bruni. Sérfræðingar í brunasárum tala þó gjarnan um yfirborðsbruna, hlutþykktarbruna og fullþykktarbruna því þau orð lýsa betur vefjaskemmdunum.

Fyrsta stigs bruni

Fyrsta stigs bruni (yfirborðsbruni) er bruni á ysta lagi húðarinnar (yfirhúðar). Einkenni hans eru roði, væg bólga, eymsli og sársauki. Húðin grær án örs, venjulega innan viku. Útjaðrar alvarlegra brunasára eru oft með fyrsta stigs bruna.

Annars stigs bruni

Annars stigs bruni(hlutþykktarbruni) nær gegnum allt ysta lag húðarinnar og inn í leðurhúðina. Blöðrur, bólga, vessamyndun og mikill sársauki einkenna slíkan bruna en þau eru afleiðing þess að háræðar hafa skemmst og vökvi lekið út í vefina. Heilar blöðrur veita brunasárum dauðhreinsaða og vatnsþétta hlíf. Þegar blaðra springur vessar úr sárinu og hætta á sýkingu eykst.

Þriðja stigs bruni

Þriðja stigs bruni (fullþykktarbruni) er alvarlegur bruni sem nær gegnum öll húðlögin og inn í fituna og vöðvana undir henni. Húðin verður leðurkennd, hvít eða perlugrá og stundum líka sviðin. Húðin verður þurr vegna þess að háræðarnar skemmast og hætta að bera henni vökva. Húðin hvítnar ekki undan þrýstingi af því að svæðið er dautt. Þriðja stigs bruna fylgir enginn sársauki vegna þess að taugaendarnir hafa skemmst eða eyðilagst. Allur sársauki kemur frá minna brenndum svæðum í kring. Þriðja stigs bruni krefst þess að læknir fjarlægi dauðan vef og oft þarf að græða húð á svæðið til að sárið grói almennilega.

Auglýsing

Hvað gerirðu?

· Stöðvaðu strax brunann með vatni, teppi eða öðru slíku.
· Kældu brunasvæðið strax með volgu vatni þar til sársaukinn er horfinn.
· Fjarlægðu föt eða skartgripi ef það er ekki fast við húðina.
· Búðu um sárið með blautum sáraumbúðum.
· Ef bruninn nær yfir stórt svæði eða þér virðist hann vera alvarlegur skaltu hringja í Neyðarlínu 112. Það skiptir þó meira máli að kæla brunasárið en að flytja viðkomandi til læknis strax.

Ef kviknað hefur í fötum skaltu fjarlægja þau (í áttina frá andliti). Í flestum tilvikum má slökkva loga með því að leggja fólkið niður og velta því. Nauðsynlegt er að reyna að hindra fólk í að hlaupa um því við það espast loginn. Vefja má mottu eða ullarteppi um háls eða yfir höfuð á fólki til að hindra að loginn fari í andlitið.

Orsakir brunasára

Brunasár geta verið tilkomin vegna hita, efna og rafmagns.

Hitabruni: Snerting við eld, heita gufu eða vökva og eldfimar gufur sem kviknar í og mynda blossa eða sprengingu er algeng orsök brunasára.

Skemmdir geta orðið á öndunarfærum ef einstaklingur andar að sér heitu lofti eða gufu. Bólga byrjar að myndast innan tveggja tíma og fyllir að hluta eða öllu út í öndunarveginn og hindrar að loft berist til lungnanna. Ef grunur leikur á bruna eða hitaáverka í öndunarvegi krefst það tafarlausrar læknismeðferðar.

Efnabruni: Fjöldi efna getur valdið vefjaskemmdum og jafnvel dauða ef þau komast í snertingu við húð. Eins og þegar um hitabruna er að ræða fara vefjaskemmdirnar eftir lengd snertingarinnar, þykkt húðarinnar og styrkleika efnisins. Efni halda áfram að skemma vefinn þar til þau hafa verið fjarlægð. Þrjár gerðir efna; sýrur, lútur og ýmis lífræn efni, valda flestum tilfellum efnabruna.

Auglýsing

Rafbruni: Umfang áverka af völdum snertingar við rafstraum fer eftir því hvort um er að ræða jafnstraum eða riðstraum, hver spennan er, og umfang snertingarinnar og tímalengd.

Athugið þessar upplýsingar koma ekki í stað hefðbundinna skyndihjálparnámskeiða. Birt með góðfúslegu leyfi Rauða kross Íslands