KVENNABLAÐIÐ

Að koma í veg fyrir kulnun í starfi

Eitt af frumskilyrðum þess að okkur líði vel er að við höfum nóg að starfa og hóflegan frítíma. Iðulega hefur verið bent á að atvinnuleysi er hættulegt heilsu manna, en það gildir einnig um ýmsar kringumstæður á vinnustaðnum, sem lúta að vinnuvistfræðilegum þáttum, s.s. ýmis konar mengun er stafar af efnum og búnaði á vinnustaðnum og síðast en ekki síst af stjórnunarlegum og samskiptalegum þáttum á vinnustaðnum. Mikilvægi þessara síðastnefndu þátta er hlutfallslega vaxandi á vesturlöndum sem sést best á því að samkvæmt könnun frá 1996 hjá Evrópubandalaginu telur 57% starfsfólks að vinnan hafi áhrif á heilsufar þess. Þau vinnutengdu heilsuvandamál sem talin eru tíðustu meðal starfandi fólks eru stoðkerfiskvartanir í 30 % tilvika og streita í 28% tilvika. Tilkynningar breskrar lækna um meinta atvinnusjúkdóma endurspegla þetta líka en þar eru atvinnutengdir geðsjúkdómar í þriðja sæti, á eftir húð og stoðkerfisvandræðum.

Auglýsing

Hérlendis eru þeir sem eru á örorku flestir óvinnufærir vegna geðsjúkdóma eða um og yfir 30 %, en gera má ráð fyrir að yfir 4% þjóðarinnar sé á örorkulífeyri. Hér á landi er starfsfólk er undir miklu álagi. Samkvæmt könnun sem Gallup gerði (nóvember 2001) fyrir Áfengis og vímuvarnarráð er 28% til 44% fólks á vinnumarkaði undir mjög miklu álagi í vinnu sinni. En nokkuð er misjafnt eftir hvaða starfshópi það tilheyrir hvernig fólk metur álag sem það er undir í vinnu. Þetta er mikilvæg niðurstaða þegar horft er til íslensks samfélags þar sem miklar breytingar eru að verða á vinnumarkaði. Það er ljóst að breytingar á vinnustað og vinnumarkaði geta haft veruleg áhrif á líðan einstaklinganna sem eru að vinna. Niðurskurður á starfssemi í einu eða öðru formi hefur hvað mest áhrif enda tengist hann neikvæðum breytingum á vinnustað. Samhliða því fylgir oft breyting á á stuðningi frá fjölskyldu, aukning á ýmsum ósiðum eins og t.d. reykingum en einnig leiðir þetta til aukningar á veikindafjarvistum.

Í þessu sambandi hafa menn ekki síst litið til millistjórnenda en þeir virðast hvað helst vera í hættu á því að veikjast af þunglyndis- og kvíða- kvillum þegar veruleg breyting og uppstokkun verður í fyrirtæki. Þannig sýndi sig í stóru frönsku fyrirtæki að þó breytingarnar ykju almennt á hættu allra til að veikjast af kvíða eða þunglyndisröskunum um 1,7 falt, þá jókst hætta millistjórnenda 2,4 falt (5). Á vinnustöðum, þar sem lítill stuðningur er við starfsfólk, kröfur eru ekki í samræmi við færni og getu starfsmanna og /eða þeir hafa litla stjórn á verkefnum, eru veikindafjarvistir tíðari en annars staðar Það sama gildir einnig ef möguleikar starfsmanna til áhrifa eru litlir . Hins vegar er góður félagslegur stuðningur á vinnustaðnum verndandi gegn skammtíma fjarvistum af völdum geðsjúkdóma. Fleiri rannsóknir hafa sýnt að það er mismunandi eftir stéttum hvaða hópar eru í mestri hættu. Í viðamikilli bandarískri athugun þar sem skoðaðar voru 104 starfshópar var sýnt fram á, þegar leiðrétt hafði verið fyrir öðrum þáttum, s.s. kyni og aldri að lögfræðingar, kennarar, ráðgjafar og ritarar voru í meira en tvöfaldri hættu á að veikjast af þunglyndi

Auglýsing

Kulnun í starfi: einkenni og skilgreining

Byggt á staðreyndum eða grunsendum um áhrif vinnuumhverfis á líðan einstaklings á vinnustaðnum sem voru á þessum nótum kom fram hugtakið kulnun í starfi, út-bruni (burn-out) í kringum árið 1974. Ef skoðaðar eru greinar sem birst hafa um kulnun í starfi er ljóst að einkenni sem hafa verið tengd þessu fyrirbæri eru mýmörg, enda gróska verið mikil í rannsóknum á því sem sést af því að það má finna á annað þúsund greinar um fyrirbrigðið þegar leitað er á leitarvefnum Medline. Kulnun í starfi hefur verið skilgreind á nokkra mismunandi vegu, en ekki hefur verið allsherjar sátt um hvernig skilgreina ætti fyrirbærið og hefur það staðið rannsóknum á því fyrir þrifum. Schaufeli og Enzmann vörpuðu fram eftirframandi skilgreiningu „ Kulnun í starfi er viðvarandi neikvætt vinnutengt hugarástand hjá eðlilegum einstaklingum, sem fyrst og fremst einkennist af því að vera úrvinda, samhliða streitu, tilfinningu um minnkaða getu, minnkaðan drifkraft og að viðhorf til vinnu verði verkum ekki til framdráttar”. Spinetta og félagar (10) vörpuðu fram þeirri almennu skilgreiningu sem felur í sér, að starfsmaður sé líkamlega og andlega úrvinda, sinnulaus og hefði tilfinningu af að vera misheppnaður í vinnu og einnig misheppnaður sem einstaklingur. Það sem eru lykileinkenni kulnunar í starfi er að viðkomandi finni til eftirfarandi: Örþreytu, sé úrvinda, firringar með tilliti til vinnu og starfslöngunar, streitueinkenna, minnkaðrar vinnufærni og að einkenni þessi eru vinnutengd. Hollensku læknasamtökin hafa lagt upp greiningu á þessu vanda sem er í raun þríþættur.

1. „Vinnutengd streita”: Í þessu fasa fer að bera á að skyldum, annað hvort félagslegum eða hefðbundnum vinnuskyldum verður ekki fullnægt vegna streitueinkenna, s.s. breytts lundarfars með þreytu og leiða, minnkaðri einbeitingarhæfni og stöðugum áhyggjum, sinnuleysi og ábyrgðarleysi, auk einkenna eins og svefnraskana og skorts á dug.

2. „Ofálag”: Í þessum fasa er komnar fram verulegar takmarkanir á getu einstaklingsins til að sinna f&eacut e;lagslegum og starfslegum skyldum sínum. Tíminn frá þvi vinnutengd streita kemur fram og ofálag liggur fyrir er tiltölulega stutt eða innan við 3 mánuðir.

3, „Kulnun í starfi”: Geta til að sinna vinnuskyldum fullnægjandi er ekki lengur til staðar. Tíminn frá því fyrstu einkenni komu fram þar til þessi staða er komin upp er tiltölulega langur, jafnvel lengri en eitt ár. Þeir sem eru á þessu stigi finna sig dags daglega úrvinda, sinnulitla og þeim finnst þeir vanhæfir til að sinna skyldum sínum á vinnustað.

Það vakna óneitanlega þær spurningar þegar þetta er skoðað hvort að kulnun í starfi verði greint frá þunglyndi manns á vinnustað? Þetta hefur verið skoðað nokkuð og bent á grundvallarmun sem er á þessum tveimur heilkennum. Þunglyndi er sjúkdómur sem í raun snertir alla fleti daglegs lífs einstaklingsins, en kulnun í starfi kristallast í kringum vinnustaðinn (11) Afleiðingar af kulnun geta hins vegar orðið alvarlegt þunglyndi, og/eða sállíkamlegar kvartanir, til viðbótar við að einstaklingurinn er óánægður í starfi, ótrúr vinnustað sínum og hefur jafnvel löngun til að hætta. Þessu fylgja eins og fyrr er greint í þessum pistli aukning á veikindafjarvistum og aukin starfsmannavelta í fyrirtækinu.

Ef litið er á flestar greinar sem hafa verið birtar um þetta og koma t.d. fram á leitarvefnum Medline er mest áberandi að fólk sem hrjáist af kulnun tilheyrir þeim geira atvinnulífisins sem hefur með beinum hætti í starfa sínum ábyrgð á velferð annarra hópa. Í Hollandi hefur verið áætlað að um 4% vinnandi fólks þjáist af kulnun í starfi, en sem dæmi má nefna að 9% kennara þar í landi og um 8% heimilislækna og hjúkrunarfræðinga í heimahjúkrun þjást af kulnunareinkennum. Í þessu sambandi er rétt að minna á að byggingarverkamenn og ófaglært starfsfólk hefur einnig heldur hærra algengi á kulnun en aðrir (9). Áhættuþættir eru í raun ekki fullþekktir en líta verður til almennra áhættuþátta á vinnustöðum fyrir slæmri geðheilsu s.s. ónógs sjálfstæðis í verkum í samræmi við stöðu og menntun starfsmanna og krafna til hvernig starfsmaður stendur sig. Skipulag stofnunar gegnir lykilhlutverki viðað draga úr áhættuþáttunum, en í því sambandi er rétt að undirstrika mikilvægi félagslegs stuðning á vinnustað þegar verkefni eða kringumstæður eru erfið.

Hvað er til ráða?

Það er að sjálfsögðu aðalatriði að greina vandann rétt og líta á kulnun sem félagslegt fyrirbæri sem kemur fram á vinnustað og hefur áhrif á samskipti, hefur áhrif á framleiðni/þróun og spillir starfsanda á vinnustað. Jafnframt þarf að líta til þess sem einkennis um sjúkdóm þar sem sjúklingurinn er andlega úrvinda með verulega vanlíðan auk þess sem hann er vantrúa á eigin getu, hefur minnkaðan drifkraft, er áhugalaus eða neikvæður í garð vinnu sinnar. Í báðum nálgunum er lykilatriði við greiningu að vandinn er tengdur vinnustaðnum. Mikilvægt er í þessu samhengi að minna á þær skyldur sem liggja fyrir um heilsuvernd starfsmanna og kveðið er á um í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (nr 46/1980). Þar segir m.a. um hlutverk heilsuverndar á vinnustað: „..stuðla að því, að starfsmenn séu verndaðir gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni, sem stafa kann af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum” og einnig „..stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna”. Þannig að ljóst er að nokkur skylda hvílir á vinnustöðum/vinnumarkaðinum að bregðast við vanda af þessu tagi.

Aðgerðir í atvinnulífi, á vettvangi vinnunnar, þar sem aðaláherslan er á að skila þeirri vinnu sem þarf til að hvert fyrirtæki gangi vel hljóta að vera fyrst og fremst s.k. fyrsta stigs forvarnir, þ.e.a.s. að koma í veg fyrir að einkenni kulnunar komi fram. Skipulag fyrirtækisins þarf að miðast jöfnum höndum við að ná markmiðum fyrirtækisins og að taka til þess að þeim verður ekki náð nema að starfsmönnum líði vel, bæði stjórnendum og öðrum starfsmönnum og að öllum sé tryggt nægilegt frjálsræði með öflugu atvinnulýðræði samfara viðeigandi verkefnum og fullnægjandi stuðningi við verkefnin. Einnig þarf kerfið að gera ráð fyrir að fylgst sé með líðan bæði starfsmanna og stjórnenda þannig að strax sé brugðist við ef einkenni fara að koma fram. Það er ljóst að þegar einkenni um kulnun eru komin fram þarf einstaklingurinn að fara til greiningar hjá heimilislækni sínum, en einnig að þá er eðlilegt að fyrirtækið leiti til sinna ráðgjafa í stafsmannamálum til þess að sporna við að fleiri þrói með sér einkenni og til þess að aðlaga verkefni fyrirtækisins betur að líðan starfsmanna.

Það er í dag öllum ljóst að einstaklingur sem fellur út af vinnumarkaði um lengri eða skemmri tíma verður fyrir miklu tjóni, en það gerir líka fyrirtækið sem hann vinnur hjá. Því eru aðgerðir til þess að bæta almenna líðan allra á vinnustaðnum bráðnauðsynlegar. Hvert fyrirtæki ætti því að hafa öfluga starfsemi á sviði Heilsuverndar á vinnustað sem eitt af sínum markmiðum.

Hraust starfsfólk og hraustir stjórnendur – Góð fyrirtæki.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!