KVENNABLAÐIÐ

„Gulrótarkaka“ kvöldsins – Uppskrift Sigurveigar

Þrátt fyrir að eyða dögunum að miklu leyti í bakstur og eldamennsku, þá koma kvöld þar sem mig langar að henda í góða köku…en…þegar ekki eru til helstu „baksturshráefni” á heimilinu, þá eru góð ráð dýr.

Hér var engan sykur að finna og ekkert hveiti.  Og alls konar „ekkert”. Og bara engin leið að fara út í þennan kulda að græja það. En það kom ekki að sök!

Ég er ekki mikið fyrir mjög sætar kökur og vil helst ekki blanda of mörgum „brögðum” saman. Góð hráefni eru alltaf galdurinn og um að gera að leyfa þeim að njóta sín.

Agavesíróp hef ég aldrei getað notað og stevia er ekki að gera sig fyrir mig. Alltof sætt fyrir minn smekk og aðeins of gervilegt. Döðlur finnst mér fínar þar sem við á, en í þessu tilfelli  var sætan úr eplinu, gulrótunum og þessum örfáu gojiberjum sem hér voru meira en nóg.

Það er helst hreint hlynsíróp og hunang sem geta passað í svona „uppskriftir” fyrir minn smekk og bara þar sem við á. Oft verður bragðið samt svo yfirgnæfandi að það er betra að sleppa því.

Ég nota reyndar hunang í tebollan minn daglega og drekk reyndar stundum nokkra á dag. Kannski þess vegna sem ég slepp yfirleitt við kvef (7-9-13!). Það er aldrei að vita.

Þetta varð alveg eins og gulrótarkökudeig á bragðið;) Júhú!

Mældi ekki nákvæmlega, en það er best að prófa deigið á milli og athuga hvernig líkar – og bæta við meiru af því sem þurfa þykir.

img_1782

 

Hér koma hlutföllin svona sirka:

Allar “matskeiðarnar” voru reyndar kúfaðar..og eins og ég segi – ekki nákvæm hlutföll.

5 litlar gulrætur – fínt rifnar 

1 grænt epli – gróft rifið

3-4 msk gojiber

5-6 msk möndlumjólk (eða væn sletta bara!)

2 msk möluð chiafræ

2-3 msk súkkulaðiprótein 

8-10 msk ristað kókosmjöl

3-4 msk kókosolía – brædd

img_1775

 

8-10 msk ristað kókosmjöl til að velta kúlunum úr að auki.

Setti gojiberin í skál með möndlumjólk á meðan ég ristaði kókosmjölið.

Hvort tveggja lenti í matvinnsluvélinni ásamt restinni af hráefnunum og maukaðist þar til allt varð að frekar þéttri „kúlu” í vélinni.

Nema auðvitað kókosmjölið sem ég velti kúlunum úr eftir á…

Gerði kúlur, velti úr kókosmjöli og inn í ísskáp.

Tilbúið skömmu síðar og allir sáttir!

Verði ykkur að góðu :)

makk

Sigurveig er landsþekktur sælkeri og heldur bæði út bloggi ásamt því að reka Matarkistuna

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!