KVENNABLAÐIÐ

Hver er munurinn á lifrarbólgu B og C?

Lifrarbólga B er sjúkdómur sem orsakast af veiru (hepatitis B virus). Á undanförnum árum hefur lifrarbólga C, sem einnig orsakast af veiru (hepatitis C virus), breiðst talsvert út hér á landi einkum meðal fíkniefnaneytenda sem sprauta sig. Lifrarbólgan getur skemmt eða truflað starfsemi lifrarinnar sem m.a. veldur því að efni úr blóði skiljast síður út með galli vegna truflunar á starfsemit lifrarinnar en þessi efni geta valdið gulu.

Smitleiðir

Lifrarbólga B smitar með svipuðum hætti og alnæmi. Algengustu smitleiðir eru samfarir, blóðblöndun, t.d. með menguðum sprautum og nálum. Einnig getur sjúkdómurinn borist frá móður til barns við fæðingu. Lifrarbólga C sýkir með blóðsmitun eins og lifrarbólga B en þó mun sjaldnar með samförum eða við fæðingu.

Einkenni

Tíminn sem líður frá smiti til einkenna af völdum lifrarbólgu B er langur eða 2-6 mánuðir. Samsvarandi tími frá smiti til einkenna af völdum lifrarbólgu C er um 1-3 mánuðir. Margir þeirra sem smitast fá engin augljós einkenni sjúkdómsins. Einkenni eru í byrjun lík flensu með ónotum í efri hluta kviðar, lystarleysi og ógleði og stöku sinnum liðverkjum. Nokkrum dögum síðar getur komið fram gula og dökknar þá þvag og hægðir lýsast. Gula og kláði geta varað vikum og mánuðum saman. Bráð einkenni lifrarbólgu C eru þó mun vægari.

Fylgikvillar

Stundum getur lifrarbólga B valdið viðvarandi lifrarbólgu sem smám saman leiðir til skorpulifrar og jafnvel lifrarkrabbameins. Ef sýking verður viðvarandi heldur viðkomandi áfram að geta smitað árum saman. Lifrarbólga C veldur mun oftar viðvarandi lifrarbólgu en lifrarbóla B og er þá viðkomandi smitandi. Hún getur með tímanum einnig valdið skorpulifur og lifrarkrabbameini.

Greining

Sjúkdómarnir eru greindir með blóðprófi. Niðurstöður liggja fyrir innan nokkurra daga frá því að próf er tekið.

Meðferð

Oftast læknast lifrarbólga B af sjálfu sér eftir nokkrar vikur eða mánuði. Verði sjúkdómurinn viðvarandi er í sumum tilvikum hægt að lækna hann eða milda með lyfjameðferð. Lifrarbólga C læknast sjaldnar af sjálfu sér en í sumum tilvikum er hægt að lækna hana með lyfjameðferð eins og lifrarbólgu B. Fyrirbyggjandi meðferð gegn lifrarbólgu B er möguleg með bólusetningu. Enn sem komið er er ekki til bóluefni gegn lifrarbólgu C.

DOKTOR.IS – ALLUR FRÓÐLEIKUR UM HEILSU OG LYF!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!