KVENNABLAÐIÐ

Hvernig á að fá börnin til að segja okkur frá deginum sínum

Oft reka foreldrar sig á að börnin eru ekki neitt sérstaklega spennt að segja þeim frá hvað þau gerðu í skólanum eða leikskólanum þann daginn. Sumir foreldrar þráspyrja þau en fá oftar en ekki svörin: „Ekkert,” eða „Ég veit það ekki/ég man það ekki.”

Sérfræðingar segja sumir að best sé að gefa börnum tíma til að melta daginn áður en spurningum er varpað á þau. Sumir segja einnig að best sé að nota sértækar spurningar sem eru opnar fyrir ýmsum svörum.

Ein móðir hafði prófað ýmsar aðferðir áður en hún ákvað sína eigin aðferð. Þegar hún hafði reynt að spyrja dóttur sína ítrekað hvað hefði verið fyndið þann daginn eða hvaða leiki hún hefði leikið fékk hún ekkert annað en pirring og svörin: „Hættu að spyrja mig!”

Auglýsing

Þess í stað ákvað hún að nota aðferðina að tala sjálf um sinn dag. Við kvöldmatarborðið sagði hún við dóttur sína: „Veistu hvað gerðist hjá mér í dag?”

Dóttir hennar svaraði játandi (og hefur til þessa dags aldrei neitað) og fékk því að heyra um alla fundina sem móðirin sótti þann daginn, slagsmálin við ljósritunarvélina, týnda lykla og vont kaffi!

Verðlaun þessarar móður eru sú að dóttir hennar bíður eftir sínu tækifæri að segja frá sínum degi í staðinn: Hún fær nú að heyra hvaða bók var lesin á bókasafninu, hvernig hún skipti sjálf úr strigaskóm yfir í stígvélin og hver sat við hliðinni á henni í heimakrók. Hún syngur lögin sem henni voru kennd og segir henni hvað hún teiknaði.

Dóttirin lítur nú svo á að eilítil dulúð sé fylgjandi því að vera ekki með mömmunni allan daginn og það sé spennandi að uppljóstra hvað gerðist á meðan. Skiptir engu hversu stórt eða lítið það var sem gerðist – aðalatriðið er að deila því sem lét okkur hlæja þann daginn, því sem var leiðinlegt, þeim mistökum sem við gerðum og því sem við sigruðum. Þegar þessi sama móðir ætlaði einn daginn að fara yfir plön morgundagsins stöðvaði dóttir hennar hana og spurði: „Bíddu, mamma! Ætlar þú ekki að segja mér frá deginum þínum?“

Auglýsing

Það er jú svo að börnin læra það sem fyrir þeim er haft – þess vegna verðum við að vera þessar fyrirmyndir, jafnvel þó okkur kunni að þykja dagurinn okkar og vinnan vera óspennandi umræðuefni! Við uppskerum eins og við sáum!

Þýtt og endursagt úr WashingtonPost

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!