KVENNABLAÐIÐ

Þessar konur komu í veg fyrir nauðgun ókunnugrar stúlku

Konur eru konum bestar! Stelpur – við verðum að standa saman og hjálpa hvor annarri. Þessi saga segir okkur nákvæmlega hvernig við eigum að gera það:

Atvikið átti sér stað síðastliðinn fimmtudag á FIG veitingastaðnum í Santa Monica í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum. Blaðakona Jezebel hringdi á staðinn og fékk staðfest að atvikið hefði í raun gerst en talskona veitingastaðarins mátti ekki tjá sig frekar um málsatvik þar sem um sakamál í rannsókn væri að ræða.

Sonia Ulrich segir því söguna:

„Monica, Marla og ég vorum á FIG veitingastaðnum þar sem það var „happy hour.” Ég var að segja einhverja sögu og sá að Monica var að stara á eitthvað. Ég stoppaði í miðri setningu og spurði hana hvað væri í gangi. Eftir nokkrar sekúndur sagði hún: „Þessi gaur var að setja eitthvað í glasið hjá henni.””

Konurnar ræddu um hvernig best væri að tækla málið og ákváðu að aðvara þessa ókunnu konu þrátt fyrir að þær þekktu hana ekki neitt. Sonia fór á baðherbergið og beið þar eftir konunni. Þegar hún kom fram sagði hún: „Hæ! Heyrðu, þetta hljómar einkennilega en við sáum manninn sem þú varst að borða með setja eitthvað í drykkinn þinn.”

Konan fölnaði og sagði: „Guð minn góður.” Sonia flýtti sér að segja: „Já, kærastan mín sá hann setja eitthvað í glasið þitt og við urðum að segja eitthvað. Kona við konu, skilurðu. Hversu vel þekkirðu manninn?”

Sonia bjóst við að heyra: „Við bara vorum að kynnast,” en nei – hún sagði: „Ég taldi hann einn af mínum bestu vinum.”

Konan sneri svo aftur á borðið með mikilli reisn sem Sonia segir að hún hafi undrast: „Ég hefði krafist þess að hann myndi drekka glasið mitt og endurleika síðustu senuna í Hamlet!” Á meðan var ein vinkonan, Marla, að tala við þjónustustúlku sem gerði yfirmanni sínum viðvart. Monica lýsir því sem gerðist í smáatriðum:

„Maðurinn dró glasið hennar til sín þegar hún var farin á baðherbergið. Það var eitthvað kauðslegt við það hvernig hann gerði það. Hann tók upp svart meðalaglas. Hann opnaði það og lét eitthvað detta í glasið. Svo reyndi hann að vera bara svalur, athugaði símann sinn og faldi meðalaglasið í hendinni á meðan hann stakk því svo inn á sig.” Hann sá eflaust að Marla var að horfa á hann. Marla sagði að hún hafi verið að horfa á hann og ætlaði að hvísla að Monicu: „Það er eitthvað í gangi með þennan gaur,” þegar hún sá að Monica var nú þegar að fylgjast með.

 

Sonia, Monica og Marla
Sonia, Monica og Marla

Það tók einungis mínútu fyrir yfirmanninn að ganga að borðinu þeirra og athuga hvort allt væri í lagi. Tók hann pöntun stúlkunnar, en hún pantaði sódavatn. Labbaði hann svo að borði Soniu, Mörlu og Monicu og sagði að hann gæti lítið gert af því hann sá þetta ekki, en hefði gert öryggislögreglunni viðvart.

Konan þurfti því að sitja í 40 langar mínútur gagnvart hugsanlegum nauðgara, vitandi að hann hefði reynt að setja eitthvað í glasið hennar til að nauðga henni. Marla sá nokkrum sinnum hann reyna að skála við konuna, til að fá hana til að drekka glasið. Sonia lýsir því að þetta hafi verið ótrúlegur tími. Starfsfólkið langaði að blanda sér í málin, henda glasinu um koll eða gera eitthvað! Sonia vildi helst labba að borðinu og fá manninn til að drekka vínglasið. Að lokum kláruðu þau matinn og fóru að borga. Starfsfólkið vildi ekki hleypa þeim út fyrr en lögreglan kæmi og sagði við manninn að það væri bilun í tölvukerfinu. Loksins kom þó lögreglan og sagði við manninn: „Þú kemur með okkur.” Maðurinn hreyfði við engum mótmælum og virtist ekki einu sinni undrandi.

Vegna snarræðis þessara kvenna og starfsfólks veitingastaðarins var hægt að koma í veg fyrir nauðgun einnar konu.

Sonia þakkar starfsfólki FIG og segir að þegar maðurinn var leiddur út í járnum hafi aðrir viðskiptavinir veitingastaðarins komið upp að þeim og sagt þeim svipaðar sögur:

„Þetta kom fyrir systur mína. Ég er svo fegin að ég gat komið henni heim áður en nokkuð gerðist.”

„Þetta kom fyrir herbergisfélagann minn. Hann er mjög skemmdur eftir það.”

„Þetta kom fyrir mig. Í grillveislu.”

„Þetta kom fyrir mig. Á bar sem ég vann.”

„Sumar hetjur ganga ekki í búningi dags daglega. Takk fyrir. Þetta kom fyrir mig. Þakka ykkur innilega fyrir.”

 

Lærdóminn sem draga má af þessu er einfaldlega: Ef þú sérð eitthvað skrýtið – SEGÐU EITTHVAÐ. Kannski finnst þér það fáránlegt eða þú óttast að verða þér til skammar. Skiptir engu! Ef þú getur hjálpað náunganum skiptir það öllu máli!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!