KVENNABLAÐIÐ

Hvenær kíktir þú síðast á tennurnar í hundinum þínum?

Sif dýralæknir skrifar um tannheilsu hunda: Í seinustu viku fór ég með Sunnu mína til tannlæknis hérna úti á Ítalíu og lét hreinsa í henni tennurnar. Mér datt í hug að lesendur mínir hefðu áhuga á að fræðast meira um tannheilsu í hundum og hvernig tannhreinsanir fara fram. Hér er myndasería af Sunnu hjá tannlækninum, í bílnum á leiðinni, í svæfingu á leið í tannhreinsun og í búri að jafna sig eftir svæfinguna. Allt gekk ljómandi vel og hún var búin að jafna sig að fullu næsta dag.

 

sunna tannh

 

Tannheilsa

Hvenær kíktir þú síðast upp á tennurnar í hundinum þínum? Í dag? Fyrir viku? Fyrir mánuði? Hefur kannski aldrei lyft vörunum og kíkt á tennurnar?

Það er ótrúlega mikilvægt að hugsa vel um tennurnar í hundinum sínum, alveg eins og í okkur sjálfum. Okkur þykir ekki mikið mál að bursta tennurnar á hverjum degi og jafnvel oft á dag. En af einhverjum ástæðum eru fáir sem hugsa um að hundar þurfa líka hreinar og heilar tennur til að vera heilbrigðir. Tennur í hundum eru byggðar upp á sama hátt og í fólki og fá tannsjúkdóma eins og við. Hundar eru líka með taugar í tönnunum og þegar tennur þeirra brotna þá finna þeir til alveg eins og þegar tönn í okkur brotnar.

Uppbygging tanna

Við skulum byrja á því að skoða hvernig tennurnar eru uppbyggðar, til að skilja hvað gerist þegar tannsteinn byggist upp á tönnunum. Hér sérðu mynd sem er þversnið af tönn og sýnir hvernig tennur í hundum eru byggðar upp á sama hátt og tennur í fólki. Krónan er hulun í glerungi sem er mjög harður og ver tannbeinið og kvikuna. Í kvikunni eru taugaendar sem gera það að verkum að það er mjög sársaukafullt ef tönn brotnar alveg niður í kviku. Ef það kvarnast eða brotnar úr glerungi er tönnin í hættu þar sem tannbeinið eyðist og hola myndast í tönnina sem getur náð alveg ofan í kviku.

Tooth anatomy

Tannsteinn

Tannsýkla í munninum safnast saman á tönnunum, aðallega uppvið tannholdið og tannsteinn myndast sem útfellingar af steinefnum frá bakteríunum í tannsýklunni. Tannsteinninn er vanalega brúnn á litin og sést því greinilega á tönnunum. Bakteríur í tannsteini fjölga sér mjög og gefa frá sér eiturefni sem síðan drepa frumur tannholdsins, eyða festingum tannanna og að lokum eyða beininu í höfuðkúpunni þar sem tennurnar sitja í. Tannholdið er mjög æðaríkt og ef tannholdspokar eru orðnir mjög djúpir geta bakteríurnar komist þar inn í blóðrásina og dreift sér um líkamann. Vitað er að sýking úr tannholdi getur dreifst í hjarta, lungu og lifur og valdið þar alvarlegum sýkingum. Það er því til mikils að vinna að passa vel upp á tannheilsuna.

Hvað á ég að gera?

Ég mæli með því að bursta tennur hundsins reglulega, helst daglega eða annan hvern dag. Fylgstu með því hvort allar tennur eru heilar og hvort tannsteinn er farinn að myndast. Ef þú fjarlægir tannsýkluna með burstun reglulega myndast síður tannsteinn og tannholdið helst heilbrigt. Það er hægt að nota bursta eða sérstaka tannhreinsiklúta til að hreinsa tennurnar. Ef þú sérð að tannsteinn er farinn að myndast á tönnunum getur þurft að láta hreinsa þær hjá dýralækninum.

En Sif, hversu oft á ég að láta hreinsa tennurnar í hundinum hjá dýralækni?

Þessa spurningu fæ ég oft og það er ekki til eitt svar við henni sem á við um alla hunda. Best er að ræða málið við þinn dýralækni þegar þú ferð í árlega skoðun en þá eru tennur vanalega skoðaðar vel. Tannheilsa er mjög einstaklingsbundin, alveg eins og hjá fólki. Allir þekkja að sumt fólk er með sterkar tennur og þarf sjaldan að fara til tannlæknis en aðrir virðast endalaust vera í heimsókn hjá tannlækni. Þetta er svipað með hunda. Sumir hundar mynda mikinn tannstein og þurfa að fara reglulega í tannhreinsun, jafnvel tvisvar á ári. Aðrir hundar eru með sterkar tennur og litla tannsteinsmyndun og þurfa jafnvel að fara 2-3 sinnum yfir ævina í tannhreinsun. Hundar sem eru með “skegg” eða mikinn feld í kringum munninn fá vanalega meiri tannstein en snögghærðir hundar og einnig eru tannsjúkdómar og mikil tannsteinsmyndun viðloðandi við sumar hundategundir. Smáhundar eru oft með meiri tannstein en stærri hundar til dæmis. Hún Sunna er smáhundur með mikinn feld í andliti og ég hef haft það fyrir reglu að tannhreinsa hana árlega. Hér að neðan eru myndir af tönnum Sunnu fyrir og eftir tannhreinsunina.

Sunny dirty teethSunny clean teeth

Hvað er tannhreinsun?

Þar sem ómögulegt reynist að biðja hund um að sitja kyrr með opinn munn á meðan dýratannlæknir hreinsar tennurnar með vél sem titrar og úðar köldu vatni á tennurnar (svokallaður tannscaler) þá er ekki um annað að ræða en að svæfa dýrið með lyfjum á meðan tannhreinsunin fer fram. Áhætta við svæfingu er vanalega mjög lítil en þetta gerir það að verkum að tannhreinsanir eru fremur kostnaðarsamar. Það verður ekki hjá því komist að gera ráð fyrir þessum kostnaði við það að eiga hund. Þú getur lækkað kostnað með því að hirða vel um tennur hundsins og fara reglulega með hann í tannhreinsun, því tannhreinsanir verða dýrari eftir því sem vinnan er meiri og ef hundurinn er kominn með sýkingar getur stundum þurft að gefa sýklalyf líka og jafnvel fjarlægja tennur. Því miður kom í ljós hjá henni Sunnu að tvær framtennur í neðri gómi voru orðnar lausar og varð að fjarlægja þær. Þar sem Sunna er orðin 11 ára og var komin með dálítinn tannstein er ekki óalgengt að það þurfi að fjarlægja tönn sem hefur losnað.

Teeth removed

Að lokum

Hjá villtum dýrum er ástand tanna stór þáttur sem ræður því hversu lengi dýrið lifir. Hugsum vel um tennurnar í hundinum okkar, hann mun verða hraustari og lifa lengur fyrir vikið.

Ef þú hefur áhuga á að fá reglulega sendar upplýsingar um heilsu, atferli og þjálfun hunda, auk netfyrirlestra og annars fróðleiks um gæludýr þá getur þú skráð þig á póstlistann minn hér.

Höfundur Sif Traustadóttir, dýralæknir og atferlisfræðingur

Sif er dýralæknir að mennt en hefur lengi haft brennandi áhuga á atferlisfræði dýra og sótti sér sérmenntun í faginu. Hægt er að skrá sig á póstlista hjá henni með því að smella hér og fá vikulega sent fræðsluefni og fréttir um gæludýr. Sif býr á Ítalíu með hundinum sínum, henni Sunnu og þær er hægt að finna á snapchat undir heitinu drsif.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!