KVENNABLAÐIÐ

Að kenna hvolpi eða hundi að vera einn heima: Hagnýt ráð

Sif dýralæknir skrifar: Mjög margir hundaeigendur lenda í vandræðum vegna þess að hundurinn þolir ekki að vera einn heima. Það getur valdið því að eigandi lendir í vandræðum gagnvart nágrönnum sem kvarta undan gelti og væli í hundinum, auk þess að vera með samviskubit gagnvart hundinum sem augljóslega líður ekki vel að vera einn heima. Sumir hundar sem eru í vanlíðan yfir að vera einir heima gelta og væla, aðrir taka upp á því að naga hluti sem lykta eins og eigandinn, t.d. skó og húsgögn og í slæmum tilfellum aðskilnaðarkvíða getur hundurinn tekið upp á því að kúka eða pissa á gólfið þegar eigandinn fer.

Til að koma í veg fyrir að svona vandamál komi upp í framtíðinni er því mikilvægt að kenna hvolpinum strax frá byrjun að það sé ekkert að óttast við að vera skilinn eftir einn í stutta stund. Þrátt fyrir að vera miklar félagsverur geta hvolpar og hundar lært að vera einir heima án vandræða.

Við verðum að gera okkur grein fyrir að jafnvel þótt að við þjálfum það vel þá er alltaf erfitt fyrir hund að vera aðskilinn frá hópnum sínum og eiganda. Hundar eru miklar félagsverur og eru ekki gerðir til að vera einir frá náttúrunnar hendi. Best er því að reyna að koma því þannig fyrir að hundurinn sé sem minnst einn heima og alls ekki meira en 8 klukkustundir á dag eða 40 klukkustundir á viku. Jafnvel þótt að hundurinn á þínu heimili þurfi ekki að vera einn heima á meðan þú ert í vinnunni er samt gagnlegt að kenna hundinum að geta verið einn án vandkvæða ef heimilisfólk þarf að bregða sér frá af einhverjum ástæðum.

Önnur dýr geta verið félagsskapur fyrir hundinn, hvort sem það er köttur eða annar hundur. Þeir sem eiga fleiri en eitt gæludýr þurfa því yfirleitt ekki að hafa eins miklar áhyggjur af því að skilja hundinn eftir heima. Þó getur hundur þróað með sér aðskilnaðarkvíða gagnvart eiganda þótt að það séu önnur gæludýr á heimilinu.

Við þjálfunina er hægt að nota búr og það getur komið að gagni í sumum tilfellum en er ekki nauðsynlegt. Ef þú ætlar að nota búr til að hafa hundinn í á meðan þú ert að heiman verður þú að hafa stórt og gott búr og vera búin/n að kenna hundinum að líða vel í búrinu áður en hann getur verið í því einn heima. Ef hundurinn sefur í lokuðu búri á nóttunni er ekki hægt að nota búrið líka á daginn á meðan þú ert í vinnunni, það er alltof langur tími fyrir hundinn að vera í búri, sama hversu þæginlegt honum kann að þykja búrið.

Svona ferðu að því að venja hvolpinn við að vera einn heima:

Best er að æfa daglega en það þarf ekki að taka mikinn tíma á hverjum degi, heldur bara nokkrar mínútur. Æfðu líka þegar þú ert í fríi og þarft ekki að skilja hvolpinn eftir einan. Fyrstu vikurnar eftir að þú færð hvolpinn er ekki gott að skilja hann mikið eftir einan heima þannig að ef þú hefur ekki fengið hvolpinn á meðan þú varst í fríi frá vinnu þá borgar sig að reyna að finna einhvern sem getur passað hvolpinn á meðan heimilisfólkið er í burtu í vinnu og/eða skóla. Það er ekki hægt að kenna hvolpi á einni helgi að vera einn heima allan daginn, ef þú skilur hann strax eftir einan í svo langan tíma er töluverð hætta á að upp komi aðskilnaðarkvíði sem getur tekið langan tíma að laga aftur.

Það er nauðsynlegt að byrja í litlum skrefum til að valda ekki kvíða hjá hvolpinum. Byrjaðu á að æfa þegar þú ert heima með hvolpinum með því að loka innihurðum á milli ykkar, t.d. þegar þú ferð á salernið. Taktu eftir því hvort hvolpurinn er vanur að elta þig um allt hús og verður órólegur þegar þú lokar á milli ykkar. Í byrjun getur verið að þú þurfir að loka mjög stutt, t.d. 1-2 sekúndur og opna svo aftur og hrósa hvolpinum fyrir að bíða. Það er gott að nota strax orð sem gefur til kynna að nú verði stuttur aðskilnaður, t.d. “bíða” eða eitthvað slíkt þannig að hvolpurinn skilji að nú verði eigandinn ekki sjáanlegur í smá stund en komi svo aftur. Lengdu smám saman tímann sem hurðin er lokuð og verðlaunaðu hvolpinn þegar hurðin opnast aftur.

Næst byrjar þú að venja hvolpinn við að þú farir út um útidyrnar. Segðu orðið sem þú hefur valið sem merki, farðu út um dyrnar og lokaðu og komdu svo strax inn aftur. Eftir nokkur skipti getur þú prófað að fara út með ruslið eða standa fyrir utan húsið í nokkrar mínútur og koma svo aftur. Ef hundurinn getur séð bílinn eða heyrt í honum innan frá heimilinu (mundu að hvolpurinn heyrir miklu betur en þú) þá getur verið sniðugt að fara út í bíl, setja í gang í nokkrar mínútur og koma svo inn aftur. Þannig venst hvolpurinn því að þótt þú farir út þá komir þú alltaf aftur inn.

Ef þú notar búr við þjálfunina verður þú fyrst að þjálfa hvolpinn í að vera rólegur í búrinu og að búrið sé góður staður og síðan notar þú merkið sem þú hefur valið til að gefa til kynna að þú sért að fara en komir aftur (t.d. “bíða”, “passa húsið”) þegar þú setur hvolpinn í búrið til að fara út.

Ef þú finnur að orðið bíða veldur kvíða hjá hvolpinum þrátt fyrir þjálfun þá þarftu ef til vill að bakka aðeins með þjálfunina og láta hann bíða styttra en áður eða brjóta upp mynstur við að skilja hann eftir. Hjá mörgum hvolpum og hundum sem kvíða því að eigandinn fari að heiman byrjar kvíðinn um leið og eigandinn býr sig til brottfarar, t.d. þegar eigandinn fer í skó og útiföt eða tekur veskið sitt upp. Það getur verið gott að brjóta upp þetta munstur í þjálfuninni. Prófa að fara út í smá stund á inniskónum og án þess að klæða þig í útifötin (passaðu að læsa þig ekki úti!), klæða þig í útifötin en fara svo og setjast fyrir framan sjónvarpið og svo framvegis.

Annað sem getur hjálpað hvolpum og hundum með vægan aðskilnaðarkvíða eða við þjálfun á aðskilnaði eru ferómón. Ferómón eru lyktarhormón sem hundar gefa frá sér til að gefa merki til annarra hunda. Þegar tíkur eru með hvolpa á spena gefa þær frá sér sérstakt kvíðastillandi lyktarhormón úr örsmáum kirtlum í húðinni í kringum spenana og efnið virkar róandi á bæði hvolpana og hana sjálfa. Þetta efni er nú hægt að fá hjá dýralæknum undir heitinu Adaptil sem spray, hálsól eða úðakló sem sett er í samband á heimilinu og gefur efnið frá sér stanslaust á meðan það er í sambandi en fólk finnur ekki neina lykt eða nein áhrif frá efninu. Þetta efni er alveg náttúrulegt og hefur engar aukaverkanir.

Ef um fullorðinn hund er að ræða gilda sömu grunnreglur og við þjálfun hvolpa. Ef hundurinn þinn er nú þegar með slæman aðskilnaðarkvíða mun hugsanlega ekkert af þessu virka en í slíkum tilfellum muntu í flestum tilvikum þurfa sértæka aðstoð frá hundaþjálfara eða dýraatferlisfræðingi til að takast á við það.

Að vera rólegur einn heima er hluti af grunnþjálfun hvolpsins og eitt af því sem þarf að kenna alveg frá byrjun.

—————————————————-

Ef þú vilt læra meira um atferli hunda þá getur þú skráð þig á póstlistann hjá mér og fengið vikulegt fréttabréf með bæði fróðleik, skemmtifréttum og tilboðum.

 

Höfundur Sif Traustadóttir, dýralæknir og atferlisfræðingur

Sif er dýralæknir að mennt en hefur lengi haft brennandi áhuga á atferlisfræði dýra og sótti sér sérmenntun í faginu. Hægt er að skrá sig á póstlista hjá henni með því að smella hér og fá vikulega sent fræðsluefni og fréttir um gæludýr. Sif býr á Ítalíu með hundinum sínum, henni Sunnu og þær er hægt að finna á snapchat undir heitinu drsif.