KVENNABLAÐIÐ

Hvernig eigum við að lifa af á lágum launum?

Haukur Hilmarsson skrifar: Ert þú í sífelldu amstri við að ná endum saman? Sjá tilfinningar þínar um innkaupin eða kaupir þú lítil verðlaun í byrjun mánaðar? Ég var beðinn um að setja saman leiðbeiningar fyrir fólk sem að eiga lítinn pening á milli handanna og eru sífellt í þessu daglega amstri að ná ekki endum saman eða rétt ná endum saman. Ég tók saman einfaldar leiðbeiningar til að hagræða útgjöldunum og útskýra um leið af hverju við ættum að haga okkur á einn veg frekar en annan í fjármálum.

Fyrsta ráðleggingin er að horfa á hugarfar okkar. Erum við að lifa á okkar tekjum eða erum við að lifa eins og við værum á hærri tekjum? Öll neysla, auglýsingar og þrýstingur neyslusamfélagsins miðast við efri stéttir samfélagsins. Fókusinn er á fólk sem nær endum saman og rúmlega það. Neysluhyggjan gerir ráð fyrir að enginn sé að erfiða og að allir geti eytt aukapeningum umfram þarfir. Ef við föllum í þessa gildru þá eru auknar líkur á að við eyðum of miklum peningum.

Allir sem eru í erfiðleikum með að ná endum saman þurfa að hugsa á þeim nótum að útgjöldin skipta meira máli en tekjurnar. Ástæðan er einföld. Við höfum engin áhrif á tekjur sem við fáum ekki en við höfum áhrif á peninginn sem við höfum í höndunum í dag. Grunnregla okkar er að útgjöld eiga alltaf að vera lægri en tekjur. Við eigum aldrei að eyða öllum peningunum okkar.

Ég hef tekið saman nokkrar einfaldar aðferðir sem hjálpa okkur að breyta fjármálunum og auðvelda okkur lífið með því að leggja áherslu á útgjöldin.

Regla númer eitt er að vita hvert peningurinn fer. Einfaldasta ráð í heimi er að skrá hvað peningurinn okkar gerir. Þegar við förum í matvörubúðina þá skrifum við „Fór í búðina, kostaði fimmþúsund tvö hundruð og tvær.“ Þegar við förum í sjoppuna þá skrifum við það, og við skráum reikningana sem við borgum og fasta kostnaðinn. Við skráum allt sem peningarnir okkar gera og ekki einn aur fær að laumast í burtu án þess að við vitum það.

Regla númer tvö er að skipuleggja útgjöldin. Það er ekki nóg að vita hvert peningurinn fer. Við ætlum að stjórna því hvert hann fer og við byrjum á því að breyta daglegu neyslunni.

Skrifaðu innkaupalista. Flestir Íslendingar fara út í búð eftir vinnu og fyrir kvöldmat. Við förum með öðrum orðum þreytt og svöng út í búð og tilfinningar okkar sjá um innkaupin. Ef við skrifum innkaupalista löngu áður en við förum út í búð þá skiptir engu máli hvernig okkur líður. Ef við fylgjum listanum þá kaupum við ekki fullt af óþarfa.

Gerðu matseðil fyrir alla vikuna. Margir standa svangir og þreyttir í búðinni og spyrja sig: „Hvað á ég að hafa í matinn í kvöld?“ og kaupa svo bara eitthvað fljótlegt, óhollt, og dýrt. Ef þú átt matseðil þá getur þú getur keypt mat fyrir alla vikuna í einni ferð og þú hefur á sama tíma einfaldað innkaupin og gert lífið auðveldara.

Ekki fara bara í „næstu“ búð. Sumir stökkva bara í næstu búð af því það er þægilegt. Þessi þægindi geta verið okkur dýrkeypt því mikill verðmunur er á lágvöruverðsbúðum og öðrum búðum. Veldu ódýru verslanirnar og þú getur sparað allt að 40%.

Regla númer þrjú er að jafna eyðsluna. Ég hef margoft séð hvernig fólk er líklegt til að kaupa sér lítil verðlaun í byrjun mánaðar. Það er meiri bjartsýni og við upplifum öryggi og ró þegar við eigum meiri pening. Fyrstu daga mánaðarins er fólk að kaupa dýrari kvöldmat, kaupir meira nammi, fer í bíó og á kaffihús og leyfir sér ótal margt gott. Það er eðlilegt að leyfa sér eitthvað gott. Við erum fólk og ein af grunnþörfum okkar er að líða vel. En verðlaunin og bjartsýnin eykur neysluna fyrstu viku mánaðarins og það veldur því að við verðum blönk eða með lítinn pening til að lifa síðustu daga mánaðarins. Mörg okkar sveltum, líðum skort og þurfum jafnvel að treysta á að aðrir hjálpi okkur að ná endum saman. Til að breyta þessu verðum við að jafna eyðsluna út allan mánuðinn.

Umslagakerfið sem ég hef skrifað um áður eitt besta verkfærið til þess. Þegar við höfum greitt alla reikninga og föst útgjöld um mánaðarmótin þá skiptum við peningunum sem við eigum eftir jafnt niður á allar vikur mánaðarins. Ef við ættum 100 þúsund þá myndum við setja 25 þúsund í hvert umslag. Núna getum við ekki eytt meira en 25 þúsund í hveri viku og það jafnar eyðsluna okkar út allan mánuðinn.

Skipuleggðu verðlaunin. Ef okkur finnst gaman að fara á skyndibitastað eða í bíó og við viljum ekki missa af því þá eigum við að gera ráð fyrir því. Við ákveðum hvað við ætlum að gera og hvað það kostar, til dæmis að fara á skyndibitastað, og við geymum þann pening með því að setja í umslag merkt „skyndibiti“. Síðan veljum við hvaða dag við ætlum að fara. Með þessu eyðum við óvissu um hvort við getum farið á skyndibitastað og við eyðum peningnum ekki í annað. Það sem er áhugaverðast er að nú er skyndibitinn fyrirfram ákveðinn og þú þarf ekki að skammast þín fyrir að hafa eytt pening í hann. Ég hvet alla til að nota skyndibitaferðina sem verðlaun fyrir að standa sig vel í að nota umslagakerfið.

Regla númer fjögur er að eiga neyðarsjóð. Fæst okkar sem lifum af lágum tekjum söfnum í neyðarsjóð. Meira að segja millistéttin sparar lítið eða leggur ekkert fyrir í neyðarsjóð. Flest okkar tökum lán til að borga óvænt fjárútlát eins og að borga nýja þvottavél eða tannviðgerð. Sum sleppa því að fara til tannlæknis. Við þurfum neyðarsjóð til að breyta þessu.

Þegar við erum byrjuð að skrá útgjöldin okkar þá getum við séð hluti sem eru ekki þörf heldur löngun. Sumir kaupa sér nammi, aðrir kaupa sér föt, sumir reykja. Við getum hætt þessu eða minnkað og ákveðið að geyma peninginn sem neyðarsjóð. Neyðarsjóður borgar tannlækningar, nýja þvottavél, eða hvað eina sem kemur óvænt upp. Með því að breyta því í hvað við notum peninginn þá getum við byrjað að spara í neyðarsjóð.

Regla númer fimm er að skoða tekjurnar. Þú hefur kannski tekið eftir því að ég set tekjurnar okkar í fimmta sæti í þessum ráðleggingum. Ég geri það viljandi vegna þess að ég vil að þú leggir mesta áherslu á að takist á við venjurnar að eyða peningum. En við þurfum samt að hugsa um tekjurnar okkar. Sérstaklega ef við sjáum að þótt við hagræðum daglegum útgjöldum þá náum við ekki endum saman. Við þurfum að vita hvort tekjurnar séu réttar og hvort við getum fengið hærri tekjur. Ef við erum á bótum þá þurfum við að vera viss um að við séum að fá réttar bætur og allar bætur sem við eigum rétt til. Ef við erum á vinnumarkaði þá verðum við að vita hvort við séum á réttum launum samkvæmt samningum, hvort kjarabætur hafi skilað sér, og hvort rétt sé dregið af okkur í skatta og gjöld. Við eigum líka að skoða hvort við getum fengið betri vinnu. Við eigum samt aldrei að segja upp vinnu fyrr en ný vinna er tryggð. Leiðinlegasta vinna í heimi er betri enn að vera tekjulaus að safna skuldum.

Láttu þér líða vel. Lífsgæðakapphlaupið snýst um vellíðan. Ekki efnislega vellíðan eins og föt, skó eða síma heldur líkamlega vellíðan. Skynsamari útgjöld færa okkur breytingar strax og líklegt er að það færi okkur betri líðan strax vegna þess að við erum að taka stjórn og endurskoða okkar daglega líf. Notaðu þessi einföldu ráð og njóttu þess að fjárhagslegt álag minnkar og þér líður betur.

 

Með vinsemd og virðingu,

Haukur

Haukur er með heimasíðuna skuldlaus.is þar sem hann tekur að sér fjármálaráðgjöf fyrir fólk. Smelltu HÉR til að komast á síðuna!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!