KVENNABLAÐIÐ

Leikkonan Sienna Miller prýðir forsíðu Nýs Lífs

Anna Brynja Baldursdóttir, blaðamaður Nýs Lífs, hitti Siennu Miller á dögunum þar sem hún var að störfum í London. Sienna opnaði sig í afar einlægu og áhugaverðu viðtali en hún hefur veitt fá persónuleg viðtöl upp á síðkastið.

Anna Brynja og Sienna
Anna Brynja og Sienna

 

Það er deginum ljósara að Sienna er með réttvísina að leiðarljósi og er kynjatengt óréttlæti eitt af því sem er hennar hjartans mál að leiðrétta. Í fyrra var henni t.a.m. boðið hlutverk í leikriti sem var skrifað fyrir tvo leikara, karl og konu. Henni þótti verkefnið spennandi en þegar henni voru boðin laun sem voru minna en helmingur þess sem mótleikara hennar var boðið þá afþakkaði hún hlutverkið með látum. „Ég upplifði mikla karlrembu og varð mjög reið… Ég er hætt að taka þátt í verkefnum þar sem mér líður eins og ég sé minniháttar á einhvern hátt af þeirri einu ástæðu að ég er kona. Þetta þurfum við allar að taka til okkar og því fleiri konur sem eru tilbúnar til að spyrna við fæti í jafnréttismálum því betur gengur okkur í baráttunni.“

 

Þar að auki ræðir Sienna móðurhlutverkið og sektarkenndina sem samfélagið þarf nauðsynlega að losa mæður undan en hún er einstæð móðir eftir að hún sleit samvistum við barnsföður sinn, Tom Sturridge, á síðasta ári. „Við tölum ekki eins oft um hlutina sem eru erfiðir við móðurhlutverkið en ég held það upplifi allir erfiðleikana við endalausar málamiðlanir og efann um það að maður sé að standa sig nógu vel. En þó að móðurhlutverkið geti sannarlega verið flókið þá er það án efa lærdómsríkasta og mest gefandi hlutverk sem mér hefur hlotnast.“

 

sienna nl

 

Áhugi Siennu á Íslandi leyndi sér heldur ekki: „Mig langar svo mikið að koma til Íslands og ég skil eiginlega ekkert í mér að vera ekki búin að fara. Ef ég hugsa um Ísland þá dettur mér fyrst í hug litlir hestar og náttúrulaugar og ólýsanleg fegurð.“

 

Nýtt líf kom í verslanir í gær, fimmtudaginn 10. mars

 

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!