KVENNABLAÐIÐ

Fórnarlamb sýruárásar berst fyrir öðrum í sömu stöðu

Reshma Quereshi vildi ekki ástir ungs manns sem hafði hug á að giftast henni. Hún neitaði bón hans og maðurinn ásamt bróður sínum réðust á hana og skvettu sýru á andlit hennar. Þetta átti sér stað í maímánuði árið 2014 og hefur Reshma nú stigið fram og hvatt önnur fórnarlömb svipaðra árása til að berjast áfram og láta ekki buga sig.

„Mig verkjar í höfuðið. Mig verkjar alls staðar. Þeir [læknarnir] hafa tekið húð af öllum stöðum líkamans til að endurbyggja andlitið mitt,“ segir Reshma.

Fólk starir

Þegar Reshma fer út finnur hún að fólk horfir á sig, oft með fyrirlitningu og fordómum. Hún lýsir þessari reynslu sem hryllilegri þjáningu. Hún hefur þó fullan stuðning vina sinna og fjölskyldu og hefur ákveðið að berjast fyrir fólk sem er í sömu stöðu. Í gegn um sálfræðinginn sinn hitti hún annað fórnarlamb sýruárásar sem var mun verr farin en Reshma sjálf. „Þegar ég sá þessa stúlku og sá í hversu slæmu ástandi hún var hugsaði ég út fyrir mig sjálfa í fyrsta skipti,“ segir hún.

Í Indlandi einu eru framdar 350 sýruárásir á borð við hana sem Reshma varð fyrir. Gert er ráð fyrir (skráðum) 1500 sýruárásum í heiminum öllum á hverju ári.

Þúsundir kvenna á borð við Reshmu Quereshi þurfa að lifa við líkamleg og andleg sár af völdum þessara óhugnanlegu glæpa. Einn dropi af sýru fór í vinstra auga hennar og er hún því blind á því auga. Margir þolendur yfirgefa aldrei heimili sitt aftur og fela sig, hræddir við óþægilega athygli. Svo eru það gerendurnir, en mjög margir eru aldrei sóttir til saka.

„Þessir strákar,“ segir hún. „Þeir horfa á þetta fallega andlit stelpu sem verður aldrei þeirra. Þeir henda sýru í andlitið á henni og eyðileggja líf hennar. Og þeir sleppa – þeir ganga lausir. Á meðan fórnarlömbin fela sig og þora ekki út.“

Reshma hefur nú birt nokkur myndbönd á YouTube og hafa þau fengið um 2  milljón áhorf. Hún hefur hrundið af stað undirskriftasöfnun gegn sýruárásum sem hefur fengið um 273.000 undirskriftir. Hún er hetja og líður þannig: „Ég lifði þetta af og vil nú bara hjálpa öðrum í sömu stöðu.“

Enn er glápt á Reshmu þegar hún fer út, en hún er staðráðin í að láta það ekki stöðva sig í baráttunni. Hún vill verða rödd þeirra sem lifðu af óhugnanlega árásir og vill að fólk sjái hvað styrkur og fegurð eru í raun og veru: „Það er hið innra sem skiptir mál. Hjartalag þitt. Ef hjartað er hreint mun anditið sýna það á réttan hátt.“

 

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!