KVENNABLAÐIÐ

Af hverju snúa hundar sér í hringi áður en þeir leggjast?

Menn hafa lengi velt því fyrir sér hvers vegna hundar snúa sér hring eftir hring áður en þeir loksins leggjast niður og sofna. Sumir telja ástæðuna vera þróunarlega og að hundar geri þetta af öryggisástæðum. Þannig snúi hundar sér í hringi og kanni umhverfið í kring áður en þeir leggjast rólegir niður. Aðrir telja að hundarnir séu að hrekja burtu sníkjudýr og önnur smádýr sem kunna að liggja í grasi og undirlagi. Þau rök sem flestir telja líklegust eru þau að hundarnir séu að búa sér til lítið greni. Þannig eru þeir að mýkja upp það svæði sem þeir ætla að leggjast á til að gera það notalegt.

Hingað til höfðu engar rannsóknir verið gerðar á þessu. Stanley Coren ákvað að rannsaka þetta fyrirbæri. Hann taldi síðustu útskýringuna líklegasta. Hann taldi að ef ástæðan fyrir því að hundar snúi sér í hringi væri að slétta úr og mýkja undirlagið, myndu hundar með ójafnt undirlak frekar snúa sér í hringi en þeir hundar sem hefðu slétt undirlag.

Hann prófaði 62 hunda þar sem helmingur hundanna var settur í herbergi með krumpuðu og ójöfnu teppi og hinn helmingurinn fékk teppi sem var slétt og brotið jafnt saman.

Í ljós kom að einn af hverjum fimm hundum (19%) sem lögðust niður á slétta teppið snéu sér í einn hring áður en þeir lögðust niður á meðan rúmur helmingur (55%) hundanna sem höfðu krumpað teppi snéru sér í hring áður en þeir lögðust. Munurinn var marktækur. Aðeins einn hundur sneri sér í meira en einn hring áður en hann lagðist á slétt teppi en 19% hundanna sem lögðust á krumpað teppi gerðu það. Margir hundar sem lögðust niður á krumpað teppi klóruðu einnig í teppið áður en þeir lögðust en það gerði enginn hundur sem lagðist á slétt teppi.

Það má því segja að hundar séu líklegri til að snúa sér í hringi og krafsa í undirlagið ef þeir leggjast á ójafnt undirlag. Það geta að sjálfsögðu verið fleiri ástæður fyrir þessari hegðun en þessi rannsókn segir okkur að ein ástæðan sé að hundarnir séu einfaldlega að láta fara betur um sig.

Vilt þú fá frekari fróðleik um hunda? Farðu inn á Hundasamfélagið og fáðu allar upplýsingar!