KVENNABLAÐIÐ

Engin handbók að hinu fullkomna lífi

Ég er búin að velta því mikið fyrir mér um hvað fyrsti pistillinn minn ætti að fjalla, á þessari annars ágætu síðu. Hugurinn reikar um víðan völl. Umræðuefni dagsins: Útlit og heilsa. Af nægu er að taka og brunnurinn langt frá því að vera þurrausinn. Hvar skal byrja?

Þegar maður er að koma nýju verkefni af stað er allt mögulegt. Bókstaflega. Það er auðvelt að týnast í eigin hugsunum, hugsa langt út fyrir kassann og ætla sér að gera ALLT. Þar sem ég er einstaklingur með fullkomnunaráráttu á háu stigi á ég það til að mikla hlutina óþarflega fyrir mér.

Hugsanir á borð við: „Þetta verður að vera fullkomið, annars er til einskis að standa í þessu!“ eða „Gerðu þetta vel eða slepptu því!“ eru þær tvær setningar sem hafa fylgt mér í gegnum barnæskuna og fram á fullorðinsár.

Ekkert að því svo sem, þar sem þessar hugsanir hafa hvatt mig áfram og hjálpað mér að gera mitt allra besta, óháð því hvaða verkefni ég tek mér fyrir hendur í það skiptið.

En. Að því sögðu…

…verð ég að viðurkenna að í ótalmörgum tilfellum hafa þessar tvær setningar vafist fyrir mér og reynst mér, í sannleika sagt, líkt og myllusteinn um hálsinn. Af ótta við mistök hef ég misst af ótal tækifærum. Af ótta við að vera ekki fullkomin eða best. Ég uppgötvaði það því miður ekki fyrr en á fullorðinsárum, að þessi hugsunarháttur er ekki bara sprottinn út frá fullkomnunaráráttu. Hann á sér nefnilega margar myndir og mörg nöfn. Þau orð sem ég vil nota í þessu samhengi, að minnsta kosti hvað mig varðar, er ótti og afleiðing hans, frestunarárátta. Hin þrautreyndu gömlu „góðu“ sem hrjá svo ótal mörg okkar. Við viljum öll vera best. Gera allt 100%. Mistök eru hreinlega ekki boðleg!
erla2

Það er nákvæmlega þetta hugarfar sem ég vil gera að umræðuefni dagsins. Þá sérstaklega í tengslum við heilsu og heilbrigðan lífsstíl. Frá mínum bæjardyrum séð er okkur flestum svo tamt að setja strax í fimmta gír í hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur – setja skýr markmið.

Við ætlum að breyta um lífsstíl. Taka ræktina með trompi, kaupa kort og flottustu ræktarfötin, fá besta þjálfarann með okkur í lið, byrja á svakalega stífu matarprógrammi, vera tuttugu kílóum léttari og helskorin áður en haldið er í sumarfrí eftir 3 mánuði eða fyrir brúðkaupið.

Og allt í einu er allt bannað. Sykur, hveiti, gos, sætabrauð og skyndibiti. Út með ruslfæðið og inn með salatið, kjúklinginn og eggin. Algjört fráhvarf frá fyrri lifnaðarháttum. Algjör kúvending á því sem var. Nú skal sultarólin hert og magamálið minnkað!

Á pappír líta þessi markmið vel út og fyrirheitin eru svo sannarlega fögur. En að vel athuguðu máli, þegar fólk fer yfir allt það sem „þarf“ að gera til að ná settum markmiðum vill það brenna við að markmiðin þyki of yfirþyrmandi og þeim fallist hendur. Ótti grípur um sig og trúin á sjálfið minnkar. Afleiðing óttans – fyrrnefnd frestunarárátta – tekur stjórnina. Áður en fólk veit af er ákvörðun tekin: „Ég er hætt/ur við þetta. Þetta er of erfitt… ég get ekki staðið undir þessu… þetta er ómögulegt!“ og þar fram eftir götunum. Þessari atburðarrás hef ég kynnst sjálf og þekki alltof vel. Eins og áður hefur komið fram, þá leitast ég eftir fullkomnun í hvívetna. Og þegar ég tek mig til og ákveð eitthvað, þá verður það að vera pottþétt – algjörlega skothelt!

En ef við stöldrum aðeins við og rýnum betur í þennan hugsunarhátt er auðvelt að sjá að hér er mjög sterk tilfinning að verki: Óttinn. Ótti er hamlandi og frestunarárátta er hamlandi. Fólk hættir við að elta draumana sína og láta verkin tala. Af ótta við mistök. Tækifæri glatast og við sitjum eftir með sárt ennið. Hugsunin „hvað ef“ læðist aftan að okkur í tíma og ótíma, og oftar en ekki hefst niðurrifsstarfsemi. Niðurstaðan: Vanlíðan og óbreytt ástand.

Lífið heldur áfram og enn sitjum við á sama stað með sömu draumana, sem við þorum ekki að eltast við – af því við erum hrædd.

Þessar hugleiðingar mínar eru svo sem ekkert nýjar af nálinni – þetta vitum við öll. En áminning er ávallt af hinu góða. Áminning um að við getum gert allt það sem okkur langar til. Við þurfum ekki að vera fórnarlömb fullkomnunaráráttu, ótta né frestunaráráttu. Þetta er allt spurning um að stíga inn í óttann sinn og gera sitt allra besta.

 

erla1

 

Ef til vill mun þér mistakast. Ef til vill ekki. Þú gætir hæglega farið alla leið, náð settum markmiðum. Hvort sem er í ræktinni eða í lífinu.  Það er undir þér komið og engum öðrum. Þú þarft bara að byrja… taka eitt skref í einu, einn dag í einu og sjá hvert fæturnir bera þig. Óttalaus.

Hér með segi ég fullkomnunaráráttu, ótta og frestunaráráttu stríð á hendur. Við verðum öll að eiga einhvern upphafspunkt – byrja einhversstaðar. Og hvar er betra að byrja en á byrjuninni. Því eftir allt saman, þá er ekki til handbók að hinu fullkomna lífi. Það er ferðalagið, ekki áfangastaðurinn, sem skiptir öllu máli þegar kemur að því að breyta um lífsstíl. Líkt og í lífinu. Lífið er til að njóta, upplifa, skemmta sér og reyna nýja hluti. Stundum tekst okkur ætlunarverkið, stundum ekki. En heila málið er að við reyndum. Við gerðum. Við upplifðum.

Við ykkur, sem þekkið þennan ótta af eigin raun, hef ég eitt að segja: Það er aldrei of seint að byrja upp á nýtt, eiga háleita drauma og setja sér raunhæf markmið. Því þegar markmiðunum er náð og draumarnir rætast er stærsti sigurinn unninn – við sigrum okkur sjálf.

Einkaþjálfunarsíða Erlu Maríu

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!