KVENNABLAÐIÐ

Klámáhorf ýtir ekki undir framhjáhald karla: Sjö ástæður

Allar konur vilja vera þráðar. Það vilja karlmenn reyndar svo líka. En það er einmitt í gegnum kynórana, sem við lærum að umgangast eigin langanir og þrár og þannig getur klámáhorf í hófi verið sálarlífinu hollt.

Erótískar fantasíur og áhorf blárra mynda er þó iðulega sveipað dulúð, skömm og jafnvel andúð. Fæstir viðurkenna fyrir makanum að hafa örvast af klámáhorfi og þeir eru margir sem hreinlega segja engum frá sjálfsfróun í einrúmi. En allt er þetta næsta eðlilegt, þinn heittelskaði er ekki kominn með leið á þér þó hann gjói af og til augunum á erótíska kvikmynd og það er helber misskilningur að sjálfsfróun eigi nokkuð skylt við huglægt framhjáhald.

#1 – Klám getur verið fræðandi

Nei, ekki allt klám. Reyndar getur klám verið alveg fáránlegt og engan langar til læra hvernig á að veita sextíu mínútna löng munnmök. Í alvöru. Alla vega ekki undirritaðri, sem er sannfærð um að flestar konur séu á sama máli. En stundum getur klám verið fræðandi og klám getur líka – í það minnsta sumar klámmyndir – gefið ákveðna mynd af því hvað gæti verið gaman og skemmtilegt að prófa. Alla vega einu sinni.

#2 – Klám getur verið holl útrás fyrir saklausa óra

Þar höfum við það. Kynórar eru einmitt það; tómir órar sem fæstir hafa nokkurn áhuga á að hrinda í framkvæmd í fullri alvöru. Ófáar konur fantasera til dæmis um að vera teknar með valdi; en á sínum eigin forsendum og einungis í eigin hugarheimi. Þannig er því líka farið með karlmenn; flest eigum við okkur forboðnar fantasíur sem eiga ekkert erindi inn í daglegt líf. Þó kærastinn þinn horfi á klámmyndir sem sýna konur sem eru gjörólíkar þér að vexti og í hegðun, er ekki þar með sagt að hann láti sig dreyma um að giftast bláeygðri klámstjörnu … í ALVÖRU talað.

#3 – Klámið gerir karlmanninn sjaldnast kynóðan

Nei. Sko. Þó maðurinn öskri yfir fótboltaleikjum á laugardögum er ekki þar með sagt að hann gangi um í markvarðarbúning og klæðist takkaskóm alla daga vikunnar. Eða umbreytist í bifvélavirkja og hampi skiptilykli á vinnutíma, bara vegna þess að hann hefur gaman að Formúlunni. Að sama skapi getur hóflegt klámáhorf ekki afskræmt meðalmanninn svo að hann taki á sig form kyntrölls sem káfar á öllum konum sem ganga hjá. Hóflegt áhorf á erótískar kvikmyndir og stolnar stundir við klámrásina einu sinni í viku gerir meðalmanninn sjaldnast að stjórnlausum klámfíkli sem fitlar við bragðbætta smokka bak við luktar dyr. Ekki fremur en stöku rauðvínsglas með kærri vinkonu veldur ofsafengnum alkóhólisma hjá heilbrigðum einstaklingi. Enn og aftur; kynórar setja sjaldnast daglegar venjur úr skorðum.

#4 – Sjálfsfróun er holl fyrir karlmenn OG konur

Já. Sjálfsfróun er holl, líka og reyndar sérstaklega fyrir fólk af báðum kynjum sem er í föstu sambandi. Sjálfsfróun er alla vega og engin ein aðferð er rétt; sumir kjósa að horfa á klám og aðrir ekki. En sjálfsfróun, hvort sem klám kemur við sögu eða ekki – er nauðsynleg, holl heilsunni og leysir jákvæð boðefni úr læðingi, sem svo aftur styðja við geðheilsuna og styrkir jafnvel blóðrásina. Þess utan getur reglubundin sjálfsfróun karla dregið úr hættu á krabbameini í blöðruhálskirtli. Hugsið ykkur bara. Lifi sjálfsfitl!

#5 – Margir karlar (og konur) skammast sín fyrir klámið

… og þora einfaldlega ekki að segja konunni í lífi sínu frá því að þeir hafi nokkru sinni horft á klám eða örvist kynferðislega af því að horfa á annað fólk í kynmökum. En flestir karlar þrá að deila einmitt slíkum fantasíum með kærustunni. Sem svo aftur gæti litið svo á að klámáhorf jafngildi framhjáhaldi. En ekkert gæti verið fjær sannleikanum. Prófaðu bara að horfa á klámmynd með kærastanum eitt kvöldið – ef þér finnst leikurinn hvorki spennandi né aðlaðandi skaltu bara slökkva á myndinni. En áhorfið gæti hrint af stað skemmtilegum samræðum sem leiða til þess að þið prófið eitthvað nýtt sem báðum þykir gaman og gefandi. Hver veit?

#6 – Klámið jafnast EKKI á við ykkar kynlíf

Hæ. Þetta er bara fantasía. Klámmyndir eru yfirleitt ekki vandaðar að gerð og ef þú hefur einhverju sinni, þó ekki væri nema fyrir forvitnissakir – horft á klámmynd og velt söguþræðinum fyrir þér – þá hefur sennilega fljótlega runnið upp fyrir þér líka hvað klámmyndir eru fáránlegar. Í alvöru talað. Hver skrifar eiginlega þessi handrit og hverjum dettur þetta bull í hug? Klámið er einfaldlega sjónræn örvun og er verkfæri sem nýtist við sjálfsfróun en ekkert jafnast á við ykkar leiki, nándina og líkamlegu snertinguna sem er engu öðru lík. Erótískur veruleiki slær öllu klámi veraldar við á góðum degi og alvöru ástaratlot eru MIKLU betri en áhorf á skjá.  

#7 – Klámið getur hjálpað pari sem hefur misjafnar þarfir

Stundum er annar aðilinn einfaldlega ekki í stuði. Karlmenn geta misst áhugann á kynlífi og konur eru ekki alltaf tilkippilegar. Hver og einn er einstakur að gerð og lögun og sjálfsfróun getur verið fínasta útrás þegar makinn er ekki í stuði. Þess utan hefur sjálfsfróun svo skemmtilega keðjuverkandi áhrif að reglubundin iðkun sjálfsfróunar leiðir af sér sterkari kynlöngun. Merkilegt, ekki satt?

/ Cosmo

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!