KVENNABLAÐIÐ

Drekk ég of mikið? 9 hættumerki geta svarað þeirri spurningu

Óhófleg áfengisneysla er oftast tengd félagslegum og heilsufarslegum afleiðingum. En í raun sýnir aðeins lítill hluti þeirra sem drekka óhóflega einkenni ofneyslu. Þeir virðast halda fullri daglegri virkni í leik og starfi, meðal vina og ókunnugra. Jafnvel þótt áfengisneyslan sé stöðug eða að aukast.

Þá kannast flestir stórneytendur við hversdagslegar aðstæður þar sem þeir geta ekki sinnt ákveðnum verkefnum eða verið til staðar þar sem viðveru og athygli er krafist, vegna þess að þeir hafa neytt of mikils áfengis. Þeir gleyma fundum, missa af viðburðum eða hafa á einhvern hátt ekki staðið undir þeim væntingum sem til þeirra hafa verið gerðar.

Jafnvel hinar minnstu óþægilegu meðvituðu afleiðingar óhóflegrar áfengisneyslu geta leitt til íhugunar og spurningar vakna: Drekk ég of mikið? Bitnar drykkjan á öðrum? Skaða ég sjálfa/n mig? Þarf ég að draga úr neyslunni?

Níu hættumerki:

Fyrir utan það að telja fjölda drykkja er hægt að spyrja eftirfarandi spurninga til að kanna hvort drykkjan er óhófleg og skaðleg:

  1. Finnur þú afsakanir/ástæður til að fá þér áfengi?
  2. Hefur þú einhvern tíman lofað sjálfum þér að drekka ekki í t.d. viku en ekki geta staðist það?
  3. Hefur einhver sagt þér að þú drekkir of mikið?
  4. Hefur þú reynt að fela drykkjuna til að forðast leiðindi innan fjölskyldunnar?
  5. Hefur þú svikið loforð við börnin þín vegna drykkju?
  6. Hefur þú verið í veikindafríi vegna eftirkasta drykkju (timburmenni)?
  7. Þarft þú að drekka meira en áður til að finna fyrir áhrifum?
  8. Verður þú drukkin/n í veislum þótt þú hafi ákveðið að verða það ekki?
  9. Drekkur þú stundum á þann hátt að þú manst ekki atburði dagsins?

Ef þú svarar einhverjum þessara spurninga játandi er góð ástæða til að draga úr áfengisneyslunni og sérstaklega að drekka ekki mikið í hvert skipti.

Ítarlegri próf má finna á vef SÁÁ og á doktor.is

Ef þú þarfnast aðstoðar við að draga úr eða hætta neyslunni má meðal annars leita til eftirfarandi aðila sem veitt geta aðstoð: SÁÁ, AA-samtökin, Vímuefnadeild Landspítalans, félagsþjónustan, heimilislæknar, sjálfstætt starfandi sálfræðingar og ráðgjafar.

Eftirfarandi skilgreining á áfengisdrykkju hefur verið þróuð hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og Evrópusambandinu (EU) til að auðvelda fræðimönnum að skoða umfang áfengisneyslu.

Bindindismaður: einstaklingur sem ekki hefur neytt áfengis síðastliðið ár;

Meðaltalsdrykkja, flokkur I: fyrir konur 0 – 19.99 gr hreint áfengi á dag; fyrir karlmenn 0 – 39.99 gr hreint áfengi á dag;

Meðaltalsdrykkja, flokkur II: fyrir konur 20 – 39.99 gr hreint áfengi á dag; fyrir karlmenn 40 – 59.99 gr hreint áfengi á dag;

Meðaltalsdrykkja, flokkur III: fyrir konur 40 gr eða meira af hreinu áfengi á dag; fyrir karlmenn 60 gr eða meira af hreinu áfengi á dag.

Áfengisneysla í flokkum II og III er skilgreind sem hættuleg eða skaðleg neysla.

Til að skýra hvað felst í grömmum af áfengi má sem dæmi gefa upp að í 330 ml bjór með 5% styrkleika eru um 13 gr af hreinu áfengi. Í 500 ml bjór af sama styrkleika eru um 19 gr af hreinu áfengi.

Neyslumynstur

Erfiðara getur verið að skilgreina neyslumynstur en heildarneyslu áfengis. Ekki er eitt ákveðið atriði sem skilgreinir neyslumynstrið og þess vegna er það mælt á marga vegu. Notast er við marga mismunandi vísa, t.d. samhengi neyslunnar, tíðni hennar og tíðni óhóflegrar áfengisneyslu. Til að ákvarða mynstrið í rannsóknarvinnu sinni notast WHO til eftirfarandi skilgreiningu:

  • Mikil ölvunardrykkja (Lotudrykkja / „Binge drinking“)
  • Drykkja með mat
  • Drykkja á almannafæri

Mikilvægt er að afla sér upplýsinga um skaðleg áhrif áfengisneyslu. Í því tilefni má benda á bæklinginn Hvað veistu um áfengi? sem ætlaður er ungu fólki en ekki síður foreldrum.

Rafn M Jónsson
verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna

Þessi umfjöllun er fengin af vef Landlæknis, smelltu HÉR til að lesa meira um heilsu og líðan fullorðinna:

logo

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!