KVENNABLAÐIÐ

DIY: Frábær listaverk fyrir þau yngstu! – Seglagerð á ísskápinn

Sælar elskurnar! Hver segir að gömlu gosflöskurnar séu ekki lengur móðins? Eru virkilega allir komnir í plastið? Eins og það er nú gaman að grípa gamla upptakarann, smella tappanum af og heyra svo klingja í glerinu.

Svo er alger óþarfi að henda töppunum! Frúin veit þetta allt saman; á heilan poka af kóktöppum og svo þegar barnabörnin koma, þá er ekkert eftir nema að rífa upp föndurpenslana og byrja að mála. Einhver daman þarna í útlandinu virðist hafa fengið sambærilega hugmynd – Frúin lifnaði auðvitað öll við. Að heimurinn skuli vera svona lítill, molarnir mínir. Ha!

Hér hefur hin útlenska Angie tekið saman allt sem til þarf:

bugs magnet kids crafts-001

Þetta þarf þá til í fjörið – svo hægt sé að föndra listaverk á ísskápinn!

Föndurmálning í nokkrum litum

Vænir og fínir föndurpenslar fyrir litla fingur

Vel með farnir tappar af gosflöskum

Fígúruaugu sem fást í föndurverslunum

Örsmáir seglar til að líma á bakhliðina

Föndurlím sem hentar börnum

Best er auðvitað að leyfa litla listafólkinu að ráða ferðinni. Breiða út gömul dagblöð, opna föndurmálninguna og dýfa penslinum ofan í. Leyfa hugarfluginu að ráða ferðinni og um að gera að bera nokkrar umferðir á hvern tappa. Bannað að vera fullkomin/n!

bugs magnet kids crafts-002

Nú er komið að sniðuga hlutanum; kennið þeim litlu að nota pensilskaftið til að búa til doppur! Dýfið bara pensilbroddinum ofan í málninguna og búið til doppur á litlu tappalistaverkin. Því fleiri doppur sem eiga að vera á hverjum tappa, því smærri verða doppurnar að vera! Ekki gleyma að kenna þeim minnstu þá miklu kúnst!

bugs magnet kids crafts-003

Málningin verður að þorna alveg áður en augun eru límd á segullistaverkið. Gætið líka að því að tapparnir sem verða fyrir valinu séu ekki beyglaðir, því þá verða augun svo ringluð. Að ekki sé minnst á hversu erfitt er að festa segulinn undir. Prófið ykkur áfram!

bugs magnet kids crafts-004

Takið eftir því að tveir seglar hafa verið límdir undir tappann á ljósmyndinni. Þetta er gert svo segullinn nái að tolla á ísskápnum og þjóni hlutverki sínu. Sniðugt getur verið að festa tappalistaverkin beint upp á ísskáp og leyfa þeim að þorna í góðan sólarhring áður en farið er að notast við þá!

bug magnet kids craft

Angie heldur úti stórskemmtilegu föndurbloggi þar sem ýmissra grasa kennir: 

The Country Chic Cottage

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!