KVENNABLAÐIÐ

S E X Í: 7 atriði sem gera KONUR ómótstæðilega KYNÞOKKAFULLAR

Orðið eitt: SEXÍ. Svo ofnotað er hugtakið í nútímasamfélagi og samofið fáklæddum undirfatafyrirsætum, svimandi háum pinnahælum og glansmyndum sem fjölmiðlar vilja gjarna varpa upp af ákjósanlegu útliti og viðhorfum kvenna, að erfitt er orðið í raun að greina muninn milli veruleika og innantómra loforða.

Auðvitað eru stúlkurnar á auglýsingaspjöldunum nær óbærilega kynþokkafullar á stundum, en hvað merkir hugtakið í raun og veru? Hvað er að vera sexí? Er kynþokki fólginn í fullkomnum brjóstum, hlýrri útgeislun eða fallegu brosi?

Ef þú heldur að listinn hér að neðan innihaldi upptalningu á ákveðnum líkamshlutum kvenna, æsandi undirfatnaði sem trylla á karlmenn og silkimjúku hörundi, þá máttu búa þig undir ákveðin vonbrigði strax. Kynþokki kann að vera fólginn í hnotubrúnum augum, silkimjúkum lokkum og tælandi göngulagi – en það er bara yfirborðið. Raunverulegur kynþokki ristir mun dýpra og er fólginn í persónuleika sjálfrar konunnar; hvernig hún ber sig, tekst á við lífið og myndar tengsl við annað fólk.  

Kynþokki er fólginn í ytri og innri fegurð sem spilar saman og gerir manneskjuna sjálfa einstaka; kona sem er sátt í eigin skinni og er fær um að sýna samhygð í verki getur til að mynda verið gríðarlega kynþokkafull.

#1 – Sjálfstraust:

Sjálfsöryggi er lykillinn að nær öllu. Fullkomnun er leiðinleg og bros getur dimmu í dagljós breytt. Kona sem þorir að ganga ákveðin fram á við, er bein í baki og ber höfuðið hátt; myndar augnsamband og brosir sínu breiðasta geislar iðulega af lífsgleði og kynþokka.

Sjálfsöryggi felur enda meira í sér en sterka nærveru og aðlaðandi nánd – heilbrigt sjálfstraust myndar grunn að traustu líferni. Velgengni getur verið fólgin í svo ótal mörgum og ólíkum markmiðum. Það er sá eiginleiki að þekkja eigin þarfir og að vera ófeimin við að sækjast eftir markmiðum sínum sem gerir konu svo kynþokkafulla. Með öðrum orðum …

#2 – Metnaður:

Metnaður gefir lífinu lit og manneskjum verðug markmið, með öðrum orðum mótaða lífsstefnu. Metnaðarfull kona býr yfir kynþokka af þeirri einföldu ástæðu að karlmaður sem sjálfur veit hvert hann stefnir í lífinu getur litið á sjálfstæða og metnaðarfulla konu sem félaga sinn, besta vin og liðsfélaga – en á þannig jafnræði byggja bestu tilfinningasamböndin.   

#3 – Ástríða:  

Ástríða á sjálfu lífinu. Ástríða sem beinist að annarri manneskju. Ástríða fyrir tilteknu áhugamáli; tónlist, myndlist, skokki, prjónaskap, hverju sem er – svo fremi sem ÞÚ hefur áhuga á því! Það eitt að sjá konu gefa sig alla í áhugamál sitt og sinna því áhugamáli af einlægni gæðir hana kynþokka!

#4 – Hlýja:  

Kærleikurinn felur í sér svarið við öllum heimsins gátum, en því miður er kærleikur og hlýja eiginleiki sem alltof sjaldan er uppi á borðinu í nútímasamfélaginu. Bara það eitt að brosa móti öðrum þegar þú heilsar, að gefa þér augnablik til að eiga spjall um daginn og veginn; að sýna samhygð í verki óháð því hver á í hlut – sýnir manneskju sem er með fallegt hjartalag, einstakling sem býr yfir andlegri dýpt sem ekki er hægt að bæta upp fyrir með fallegum varalit eða glæstum augnhárum.

#5 – Heiðarleiki:  

Kona sem hefur hugrekki til að vera hún sjálf og bregður sér ekki í misjöfn hlutverk eftir því hvern hún á samskipti við að hverju sinni sýnir innri styrk. Heiðarleg framkoma sýnir einnig að hún ber virðingu fyrir þér, að hún kýs heldur að segja þér sannleikann en að fela staðreyndir fyrir þér.

Hversu lengi gætir þú t.a.m. hugsað þér að vera í tilfinningasambandi með glæsilega útlítandi lygara? Ef þú getur ekki treyst maka þínum og leggur engan trúnað á hvað viðkomandi segir, hvernig er þá hægt að ætlast til þess að þið getið ræktað traust, innilegt og langvarandi tilfinningasamband? Það er ekki hægt!

#6 – Stíll:

Fallegur stíll hefur EKKERT með verðmiðann á flíkinni að gera. Kona sem hefur fallegan stíl hefur yfir sér fallegan, innri þokka sem engin kápa eða glæstir skór geta laðað fram. Þú getur lært að forðast mistök en fallegan stíl er ekki hægt að versla í búðum. Fallegur stíll er fólginn í því hvernig konan ber sig og fallegur stíll er líka fólginn í þeirri virðingu sem konan ber fyrir sjálfri sér og þeirri virðingu sem hún sýnir því fólki sem hún umgengst.

Það skiptir engu máli hvernig bíl manneskjan ekur, hvar í bænum hún er búsett eða hvaða merkjavöru hún klæðist. Það skiptir ekki einu sinni máli hvað hún starfar við. Ef manneskjan sýnir af sér ljótt viðmót, er neikvæð gagnvart öðru fólki og niðurlægir jafnvel aðra í fjölmenni, þá skiptir engu máli hversu miklir peningar eða hvaða titlar eru í spilinu.  

#7 – Greind:

Því er ekki hægt að neita að útlit spilar þátt í aðlöðun. Að halda öðru fram væri hreinlega lygi. Það er t.a.m. afar erfitt að koma auga á stórkostlegan persónuleika í yfirfullum sal af ókunnu fólki. Í ófáum tilfellum verður enda úr stuttlíft ævintýri, en hversu lengi lifa slík kynni á líkamlegri aðlöðun einni saman?

Ef samræðurnar skortir dýpt og innihald, er oft hægt að fylla upp í eyður með líkamlegri nánd í ákveðinn tíma, en aftur á móti er gersamlega ómögulegt að byggja upp raunverulega nánd eða tilfinningasamband við einhvern á líkamlegum losta einum saman. Andlegur samhljómur, gáfnafarsleg samleið og hrein vinátta slá alltaf yfirborðskenndri fegurð við. Í alvöru. Þegar fram í sækir er það ekki líkamleg fegurð sem gerir útslagið, heldur tengslin sjálf.

Auðvitað er ekkert að því að vilja líta vel út og óska þess að maki þinn sé smekklegur líka – okkur finnst öllum gaman að vera aðlaðandi, hver og einn með sínu nefi. Líkamlegt aðdráttarafl spilar enda oft stærsta þáttinn við fyrstu kynni, en ef ekkert meira býr að baki en lostafullt og líkamlegt aðdráttarafl, eru nær engar líkur á að úr verði heilsteypt tilfinningasamband. Slík kynni byrja og enda oft með háum hvelli og standa stutt yfir.

Þú þarft ekki að búa yfir almáttugri og óumdeildri líkamlegri fegurð til þess að geisla af kynþokka. Galdurinn er nefnilega sá að þó ekkert okkar velji þau gen sem okkur er úthlutað við fæðingu, er það á okkar eigin valdi að vinna vel úr þeim eiginleikum sem við við fengum í vöggugjöf frá örlagadísunum. Náum við því eftirsóknarverða marki, getur fátt staðið í vegi okkar.

Það er sexí.

Þýtt og endursagt: /Huff Post