KVENNABLAÐIÐ

Frægir Íslendingar sem eru dúkkur!

Íslenska hönnunar– og auglýsingastofan Brandenburg birti í gær á bloggi sínu skemmtilegan pistil um íslenskar stjörnudúkkur og við fengum leyfi hjá þeim að deila pistlinum með ykkur kæru lesendur.

 

Íslenskar stjörnudúkkur

„Öll þráum við að öðlast ódauðleika. Eða svona allflest. Það má gera á ýmsa vegu. Ein sú einfaldasta er að láta gera afsteypu af sér og fjöldaframleiða úr hörðu, gúmkenndu plasti. Láta breyta sér í dúkku. Dúkka sig.

Furðulega fáar slíkar leikfangaútgáfur eru til af íslenskum ofurstjörnum, sem er mikil synd því af nógu er að taka. Við prófuðum að snuðra aðeins á víðáttum internetsins og leita uppi íslenskar dúkkur.

birgittaogbjork

Flest þekkjum við Birgittudúkkuna frægu, sem kom í hillur stórmarkaða í upphafi aldarinnar — og hélt kyrru fyrir þar. Henni var ætlað að líkjast söngkonunni hjartahreinu Birgittu Haukdal, en líktist þegar til kom meira afkvæmi Ronnie Wood og sleikibrjóstsykurs.

En hvaða fleiri dúkkur eru til? Við byrjuðum á að leita að henni Björk, auðvitað. Hana hafa fjölmargir saumað, prjónað, límt og föndrað — með og án svans. Engin opinber Bjarkardúkka virðist þó til, en Homogeníska Japanabjörkin er býsna vel heppnuð. En á þeim árum var Björk einmitt undir sterkum áhrifum frá Mikka mús.

letherface-gisli-eidur

Svo eru það kvikmyndastjörnurnar. Ein hressandi dúkka er til af Vestur–Íslendingnum Gunnari Hansen, sem lék Leðurfésið í myndinni hugljúfu um keðjusagarmorðingjann frá Texasríki. Hann er raunar til í ýmsum útgáfum, þar á meðal stórglæsilegri 40 ára afmælisútgáfu. Þar sem bæði sög, klaufhamar og gríma fylgja. Og svunta.

Önnur í svipuðum dúr er öllu nýrri. Vesturportkarlinn Gísli Örn var steyptur í harðplast í kjölfar myndarinnar brokkgengu um Persíuprinsinn, en þar túlkaði hann Hassasinaleiðtogann Zolm af eftirtektarverðu æðruleysi. Klesstann Gísli!

Og auðvitað er til Eiðs Smára dúkka, skárra væri það nú. Hinn gullinhærði Gudjohnsen er til í vandaðri ProStars útgáfu, einmitt í svipuðum höfuðhlutföllum og Birgitta. Fæst hann til kaups í ýmsum afkimum netsins. Hún verður að nægja þar til gullstytta af gulldrengnum okkar verður reist á Laugardalsvellinum miðjum.

lazytown
Að sjálfsögðu hefur markaðströllið og ofurhetjan Magnús Scheving verið mótaður í fast form í hlutverki Íþróttaálfsins. Hann virðist meira en til í að sleppa úr kassanum og gæða sér á nýmáluðu epli.

Stefán Karl, sem röndótti skúrkurinn Glanni Glæpur fæst líka — en hann heldur sér alltaf jafn slank, þrátt fyrir krónískt hreyfingarleysi og illmennamataræði.

Hin gullinsniðna Barbie hentar vel til að túlka þær fegurðardísir sem att hafa kappi í atinu um ungfrú heim. Til er mjög sannfærandi útgáfa af ungfrú Íslandi árið 2011, þar sem hún er klædd pallíettuskreyttum grænum frottésloppi. En virðist þó í smávægilegum vandræðum með að halda jafnvægi.

Einnig er til ákaflega vönduð sérútgáfa af Íslandsbarbie, sem kom á markað árið 1987. Ekki þarf að rýna lengi í fas og atgervi kassakvendisins, sem prýdd er heiðbláum upphlut og gylltum tíkarspenum, til að sjá að fyrirmyndin hlýtur að vera hún Hófí okkar.

Og talandi um Barbie — og langsóttar tengingar. Háhyrningurinn Keikó hefur að sjálfsögðu margoft verið dúkkaður upp og jafnvel tuskaður til, enda með afbrigðum krúttlegur, svona í hæfilegri fjarlægð. Honum hlotnaðist meðal annars sá heiður að deila kassa með fyrrnefndri Barbie, í sérstakri neðansjávarseríu. Ef marka má umbúðirnar heldur Keikó okkar ekki vatni yfir návíginu við drottningu undirdjúpanna — og gefur frá sér ýmsar ánægjustunur af einskærri gleði.

Fleiri fundust ekki í bili. Sem er synd. Gaman væri að eiga Jón Pál og láta hann lúskra á He–Man og hans hyski. Bratz útgáfur af Vigdísi Finnboga, Lindu P. og Leoncie væru sömuleiðis vel þegnar. Og það er í raun alger skandall að kanadíska geimferðastofnunin sé ekki löngu búin að bæta Bjarna Tryggvasyni við Action–Man seríuna.

En við getum þó huggað okkur við það að kjötfellið Hafþór Júlíus er væntanlegur í vandaðri útgáfu frá krökkunum í Game of Thrones. Þá mega Star Wars kallarnir sko passa sig, ef þeir ætla að halda haus.

Jú, það er reyndar eitt í viðbót. Við fundum nefnilega Megas. Nokkuð óvænt. Hann þurfa allir að eiga. En hann mun vera eina söngvaskáldið sem breytist í vélmenni þegar sólarljós skín á hann.“

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!