KVENNABLAÐIÐ

Áhrif hundahalds á líf og heilsu öryrkja

Hundar eru ótrúlegar skepnur og hafa breytt lífi margra eigenda sinna til hins betra. Rannsóknir hafa sýnt að hundahald dragi úr stressi, bæti andlega heilsu og geti styrkt sjálfsöryggi eigenda sinna. Að eiga hund dregur úr einmanaleika og oftar en ekki hafa eigendur hunda fundið virkt og skemmtilegt félagslíf í kringum hundinn og þær afþreyingar sem hundahaldið hefur upp á að bjóða. Jákvæðir kostir þess að eiga hund geta margfaldast þegar eigandi hundsins er með örorku af einhverju tagi og örorkubandalög víðsvegar um heiminn kjósa að hjálpa skjólstæðingum sínum að eignast hund og styrkja sambandið á milli hunds og eiganda.  

Í kringum öryrkjana og hundana þeirra hafa sprottið upp góðgerðafélög sem sérhæfa sig í þjálfun hunda fyrir hreyfihamlaða einstaklinga og einstaklinga sem glíma við andleg veikindi. Hundarnir læra að opna og loka hurðum og sumir hundar kunna jafnframt að aðstoða eigendur sína við að klæða sig í og úr fötum. Það eru því ekki aðeins blindir sem njóta góðs af aðstoð hunds heldur geta líkamlega fatlaðir einstaklingar fengið mikla aðstoð í gegnum hundinn sinn en þar með er ekki öll sagan sögð. Hundar þurfa ekki sérstaka þjálfun til að bæta líf öryrkja. Stundum er nóg að fá hvolp inn á heimilið sem heldur einstaklingnum félagsskap og fær hann til að brosa. Hundurinn hvetur eigandann til að taka þátt í lífinu, fara út í göngutúra og gefur honum nýjan tilgang.

Hundar og þunglyndi

Þunglyndi getur verið fylgikvilli og ástæða örorkunnar. Þunglyndir einstaklingar eiga það til að einangrast frá samfélaginu og eru heimakærari en gott getur talist. Samkvæmt rannsóknum á vegum UCLA getur hundur bætt líðan hjá þeim sem kljást við þunglyndi til muna. Einstaklingurinn tekur að sér þá ábyrgð sem fylgir hundahaldinu og getur ekki skorast undan. Hann þarf að sýna hundinum ást og annast hann. Hundurinn dregur eigandann út í göngutúra og virkir hann. Í kringum eigandann og hundinn skapast dagleg rútína sem dregur úr þunglyndinu. Snerting við hundinn bætir líðan einstaklingsins og félagskapurinn sem hundurinn veitir verður honum ómetanlegur. Með tímanum bætir hundurinn ekki aðeins andlega heilsu eigandans heldur getur hann lækkað blóðþrýsting, dregið úr streitu og bætt nætursvefn.

Mynd 1 (1)
Mynd 1: Ísabella Eir og Loki. Loki dregur úr svefnörðuleikum Ísabellu sem þjáist af Smith Magenis heilkenni.

Bæta félagslega færni barna með þroskaskerðingu

Líkamlega fatlaðir einstaklingar eru ekki þeir einu sem njóta góðs af hundahaldinu heldur á það einnig við um fólk sem glímir við andlegar fatlanir og veikindi. Í rannsókn gerðri af Marine Grandgeorge frá árinu 2012 kom fram að félagsleg hegðun barna með þroskaskerðingu bættist til muna ef börnin fengu hund eða kött eftir 5 ára aldur. Börnin tóku virkan þátt í umönnun hundsins sem varð fljótt mikilvægur hluti af lífi barnanna. Í gegnum hundinn lærðu börnin að sýna samúð og bættu félagslegan þroska sinn umtalsvert.

Áhrif hunda á lífsgæði öryrkja

Mörg samtök sérhæfa sig í þjálfun hunda og kenna þeim að aðstoða fólk sem misst hefur útlim, er lamað, heyrnarlaust, flogaveikt, sykursjúkt og svo framvegis. Hundur getur lært að þekkja lyktina sem einstaklingur gefur frá sér áður en flogaveikikast skellur á eða þegar blóðsykur fellur og lætur einstaklinginn vita svo hann geti brugðist við í tæka tíð. Þess konar hundar geta skipt sköpum í lífi hins flogaveika og sykursjúka og getur þátttaka þessara hunda í lífi eigenda sinna skilið á milli lífs og dauða.

Ef líkamlegri getu einstaklings er hamlað á einhvern máta geta hundar bætt lífsgæðin til muna. Það er hægt að kenna hundunum alls konar hluti og þá ekki bara að setjast og leggjast eftir skipun. Hægt er að kenna þeim að opna skúffur og skápa sem einstaklingurinn getur ekki teygt sig í. Hundarnir geta tekið úr þvottavélum og þurrkurum, hjálpað einstaklingum að versla og borgað þegar á kassann er komið. Sérþjálfaðir hundar geta meira að segja rennt rennilásum á fatnaði eigenda sinna og aðstoðað þá við að klæða sig í og úr skóm, þeir kveikja og slökkva ljós, sækja síma og taka þátt í öllum daglegum athöfnum eigenda sinna.

Mynd 3
Litla stúlkan Lily sem býr í Washington í Bandaríkjunum ásamt þjónustuhundinum Spencer. Hann lætur foreldra Lily vita áður en hún fær flog.

Hundar sem eru þjálfaðir til þess að aðstoða einstaklinga við daglegar athafnir geta komið í stað umönnunaraðila og veitt hreyfihömluðum einstalingum sjálfstæði. Einstaklingurinn þarf þá ekki að reiða sig á einhvern annan til þess að lifa eðlilegu lífi heldur þarf hann aðeins á hundinum að halda. Þeir sem hafa fengið þjónustuhunda sem þessa segja líf þeirra hafa tekið jákvæðum breytingum vegna hundanna. Einstaklingarnir telja sig hafa öðlast meira sjálfstæði og geta ekki ímyndað sér lífið án hundanna.

Leiðsögu-, þjónustu- og hjálparhundar á Íslandi

Eins og flestir hundaeigendur hérlendis vita hafa Íslendingar ekki mikinn skilning á hundahaldi. Hundar eru víðast hvar ekki velkomnir með eigendum sínum. Til dæmis hefur leiðsöguhundum ítrekað verið vísað frá vegna banns um hundahald í íbúðum og á veitingastöðum jafnvel þó lög kveði á um að leiðsöguhundar megi fylgja eigendum sínum á alla þá staði sem opnir eru almenningi. Þrátt fyrir mótlætið sem hundaeigendur takast á við hér á landi hefur Þjónustu- og þekkingarmiðstöð blindra unnið frábært verk og í samstarfi við hundaþjálfara hefur miðstöðin þjálfað íslenska hunda sem leiðsöguhunda fyrir blinda.

Mynd 4

Hundar sem aðstoða hreyfihamlaða við daglegar athafnir eru af skornum skammti hérlendis en þó eru til dæmi um þess konar hjálparhunda. Þá eru einnig til dæmi þess að íslenskir heimilishundar vari eigendur sína við áður en þeir fá flog. Þeir hundar hafa fæstir hlotið sérþjálfun en hafa lært inn á eigendur sína með tíð og tíma.

Hjálparsamtök á Íslandi

Rauði kross Íslands hefur frá árinu 2005 haft hunda í hópi heimsóknarvina sinna og eru þeir kallaðir Hundavinir. Sjálfboðaliðar fara með hunda sína í heimsóknir, til dæmis á hjúkrunarheimili, dvalarheimili, einkaheimili og í sambýli. Allir sjálfboðaliðar sækja námskeið áður en þeir fara í heimsóknir. Einnig eru hundarnir metnir og gengið úr skugga um að þeir henti í verkefni af þessu tagi.

Mynd 2
Heimsóknarvinur á vegum Rauða kross Íslands nýtur sín vel innan um áhugasama eldri borgara

Samtökin Vigdís – vinir gæludýra á Íslandi hafa einnig rutt steini úr vegi þjónustuhunda hérlendis með framtaki sínu en þau hafa boðið börnum að lesa fyrir ferfætlingana. Vigdís er í samstarfi við bandarísku samtökin Intermountain Therapy Animals og er umsjónaraðili R.E.A.D. (Reading Education Assistance Dogs) á Íslandi. Sem stendur hefur einn Íslendingur, Brynja Tomer, réttindi til að leiðbeina sjálfboðaliðum og meta hundana. Á vegum Vigdísar – vina gæludýra á Íslandi hefur verið boðið upp á vikulegar lestrarstundir í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi síðustu fimm misseri í samstarfi við skólastjórnendur og sérkennara. Við Háskóla Íslands var gerð rannsókn á árangri þessa úrræðis og er þess vænst að niðurstöður liggi fyrir haustið 2015. Ennfremur hafa samtökin boðið upp á svokallaðan yndislestur þar sem börn hitta hunda í bókabúð og lesa fyrir þá, sér til gleði, ánægju og yndisauka.

Í R.E.A.D. fá börnin fullkominn hlustanda sem hvorki leiðréttir, gagnrýnir eða flissar þótt lesið sé vitlaust. Hundalestur sem þessi hvetur börnin til að lesa sér til skemmtunar og hefur jafnframt hjálpað börnum sem glíma við lestrarerfiðleika af ýmsum toga.

Þó að þessi grein stikli á stóru verður því ekki neitað að dýr hafa jákvæð áhrif á þá sem umgangast þau. Alls staðar í heiminum bjóða endurhæfingarstofnanir upp á endurhæfingu með dýrum. Smáhestar, höfrungar og jafnvel snákar hafa hjálpað mörgum einstaklingum í gegnum lífið en hundarnir hafa það þó fram yfir höfrungana að þeir geta búið inni á heimili einstaklingsins og verið honum félagsskapur allan sólahringinn. Það er ekkert því til fyristöðu að Íslendingar viðurkenni hunda sem mikilvæga hjálp og aðstoð við öryrkja. 

Greinin birtist upprunalega í SÁMUR, tímariti Hundaræktarfélags Íslands

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!