KVENNABLAÐIÐ

D R A U M R Á Ð N I N G A R: Þetta merkja draumtáknin í raun og veru

Samkvæmt fræðum svissneska sálfræðingsins Carl Jung sem eyddi bróðurparti starfsævi sinnar í að rannsaka sálræna merkingu drauma, getur rétt túlkun draumtákna varpað mikilvægu ljósi á sálarlífið. Jung vildi þannig meina að gegnum ráðningu drauma mætti sálgreina einstaklinga og varpa ljósi á hvaða þætti einstaklingurinn yrði að vinna betur með.

Enn þann dag í dag eru fjölmargir sálfræðingar fylgjandi kenningum Jung og vinna þannig með skjólstæðingum sínum að lausnum gegnum ráðningu drauma og túlkun draumtákna. Þó mikil fyrrgreind skilgreining sé talsverð einföldun á fræðum Jung, er þó ekki hægt að neita því að draumar geta varpað skýru ljósi á líðan þess sem dreymir og að ýmis tákn sem koma fyrir í draumum geta oft gefið hagnýta vísbendingu um hvað amar að í daglegu lífi.

Þó draumfræði og kenningar Jung séu mun viðameiri en lýst er hér, er gaman að glugga í inngangsfræði sem tengjast sálrænni túlkun drauma. Þannig er hér að finna einfaldar túlkanir á algengum gerðum drauma, sem ætti að geta gefið lauslega mynd af því hvernig má túlka draumtákn og tengja um leið við eigið sálarlíf, sem ófáir segja gluggann að undirvitund mannsins:

Ef þig dreymir að þú sért ólétt/ur …

Þetta merkir í raun og veru að ný hugmynd / nýr lífsstíll sé að þroskast innra með þér; að þú búir yfir nýrri orku eða sért í þann mund að fæða af þér nýjar hugmyndir. Kannski ertu að undirgangast innra breytingarferli eða andlega endurfæðingu, ert í þann mund að taka nýja lífsstefnu. Þú ert í raun að fara gegnum hamskipti, eða lag breytinga sem munu hafa áhrif á líf þitt.

Ef þig dreymir um þinn fyrrverandi / þína fyrrverandi …

Ef þig dreymir ákveðna persónu, þá eru það persónueinkenni hennar eða hans sem endurspegla ákveðna hluta af dreymandanum sjálfum. Ef þú hefur átt í ástarsambandi við einhvern og dreymir svo manneskjuna, þá þarftu að spyrja þig: „Hvað er líkt með manneskjunni sem mig dreymdi og sjálfri / sjálfum mér? Hvaða einkennir þennan einstakling? Hverju stendur þessi einstaklingur fyrir í mínu lífi? Þú ert í raun að dreyma um ákveðna þætti sem þú býrð sjálf / sjálfur yfir – draumurinn snýst ekki um þann sem þig dreymdi, heldur er viðkomandi tákngervingur ákveðinna eiginleika sem þú býrð yfir. Ef fyrrverandi elskhugi þinn eða ástkona var heimspekileg/ur í nálgun í ykkar samskiptum, þá er draumurinn að vitja til þess þáttar í þér. Heimspekilega þættinum sem þú býrð yfir. Kannski þarftu að hlúa betur að þeirri hlið hjá sjálfri / sjálfum þér.

Ef þig dreymir að þú sért að missa tennurnar …

Veltu því örlítið fyrir þér hvaða áhrif tannmissir hefur í daglegu lífi. Við fáum barnatennurnar meðan við erum enn ungabörn, þær tennur víkja svo fyrir fullorðinstönnunum þegar við vöxum úr grasi – endanlegum tönnum sem er ætlað að duga okkur út lífið. Því merkir tannmissir í draumi, breytingaskeið í vöku. Dreymandinn er að undirgangast einhverjar breytingar í daglegu lífi. Jafnvel er dreymandinn að fara gegnum tímabil í lífi sínu þar sem breytingar eru óumflýjanlegar og það eitt veldur kvíða. Þá fara svona draumar að láta á sér kræla. Tannmissir í draumi getur þannig verið merki um að dreymandinn sé að taka út aukinn þroska, að viðhorf dreymandans séu að umbreytast og sjóndeildarhringurinn sé að víkka.

Ef þig dreymir dauðsfall …

Dauðinn, í táknrænni merkingu, þegar hann ber að dyrum í draumi – merkir alltaf einhvern hluta af sjálfi dreymandans sem er að deyja – einhverja eiginleika sem hafa fylgt okkur um ótilgreint skeið sem eru að hverfa. Dreymandinn er með öðrum orðum að losna úr gömlum viðjum og er að láta af gömlu hegðunarmynstri. Líf dreymandans er að taka breytta stefnu. Kannski er um breyttan atvinnuhag að ræða, jafnvel standa flutningar til eða sambandsslit eru yfirvofandi. Þannig er dauðsfallið í drauminum merki um að dreymandinn sé að ganga inn í yfirvofandi sorgarferli sem tengist breytingunum. Draumar sem snúast um dauðsföll eru í raun og veru merki þess að dreymandinn sé loks tilbúinn að sleppa tökunum af gömlu mynstri og temja sér nýjar venjur.

Endurtekin martröð …

Hér getur verið um undirliggjandi áfallastreitu dreymanda að ræða sem birtist sem endurtekin martröð; ferli sem orsakast af áður neikvæðum upplifunum eða jafnvel áfalli í vöku sem hafði sterk áhrif á líf dreymandans. Mannshugurinn er flókið fyrirbæri og þannig geta bældar minningar skotið upp kollinum í svefni. Þessi átök birtast þá í draumheimum og eru oft undirliggjandi orsök síendurtekinna martraða.

Slíkir draumar eru alltaf merki um að sálarlífið hafi orðið fyrir hnjaski, að dreymandinn þurfi að vinna úr áföllum í vöku og að leggja þurfi aukna rækt við geðheilsuna.

Ef þig dreymir að þú sért að halda framhjá …

Þessi gerð drauma snýst raunverulega um óheiðarleika. En ekki er þó allt sem sýnist; sá óheiðarleiki sem um ræðir hér eru þær blekkingar sem dreymandinn er að beita sjálfa/n sig. Dreymandinn er að bæla eigin hvatir eða sinnir ekki eigin þörfum og löngunum. Sá hluti sem snýr að framhjáhaldinu endurspeglar sýn sálarinnar á samband dreymanda við eigið sjálf. Því er framhjáhaldið í raun svik dreymandans við eigið sjálf og er skýr ábending um að sinna eigin óskum og hugðarefnum betur.

Hvað það merkir að dreyma um dýr …

Dýr geta haft margvíslegar merkingar í draumi og þannig merkir snákurinn t.a.m. ekki það sama í austurlenskum og vestrænum fræðum. Þar af leiðandi geta margvíslegar og misvísandi túlkanir á dýradraumum spilað stóran þátt í ráðningu drauma.

Þannig þarf að taka með í reikninginn hvað snákurinn merkir í augum dreymandans. Á dreymandinn jafnvel snák? Sá dreymandinn snák í vöku? Hvaða þjóðsögur þekkir dreymandinn sem tengjast snákum ?Hvað merkja snákar í augum dreymandans? Er dreymandinn hræddur við snáka? Eru snákar jafnvel heillandi skepnur í augum dreymandans? Allt þetta þarf að taka með í reikninginn þegar lesið er í merkingu dýra í draumum. Dulspekin túlkar snáka ýmist sem svikular, þróttmiklar eða jafnvel töfrum gæddar verur. Sá skilningur sem dreymandinn leggur í eðli snáka er mikilvægust alls og veldur úrslitum við ráðningu draumsins.

Að dreyma um skóla eða vinnu …

Ef dreymandinn ratar óundirbúinn í próf eða mætir of seint til vinnu; jafnvel það að lenda á erfiðum fundi þar sem dreymandinn hefur enga hugmynd um hvað best er að gera – leiðir allt að sama grunni. Dreymandinn upplifir sig í öllum fyrrgreindum kringumstæðum varnarlausan. Þetta merkir að dreymandinn óttist að aðrir sjái hvernig hann er í raun og veru, bendir til andlegrar spéhræðslu og ótta við að umhverfið sjái okkur í óæskilegu ljósi. Það er hin raunverulega skelfing sem að baki slíkum draumum liggur, hvort sem raunveruleg ástæða er til að óttast eða ekki.

Ótti sá sem rætt er um hér að ofan er í raun skiljanlegur þar sem allir setja upp eðlilegar varnir í vöku. Flestir sneiða hjá ofureinlægni í daglegu lífi, fólk sýnir t.a.m. sjálfsagða kurteisi gagnvart vinnuveitanda, samstarfsfólki, kennurum og öðrum yfirboðurum. Sú tilhugsun að vera andlega strípaður; að vera varnarlaus gagnvart samstarfsfólki og kunningjum í daglegu lífi sveipar dreymandann varnarleysi – rétt eins og dreymandanum myndi liða ef hann gengi inn í yfirfulla kennslustofu og yrði sagt að setjast niður – íklæddur nærbuxum og engu öðru.

Ef þig dreymir ævintýri og svaðilfarir ….

Þetta eru yndislegir draumar. Marga dreymir t.a.m. að þeir takist á flug og svífi, en það er birtingarmynd hins barnslega sem býr innra með okkur öllum; óhaminni gleðiorku sem leiðir af sér ævintýraþrá og ímyndaða heima. Svona draumar geta líka verið ábending til dreymandans um að hann (eða hún) þurfi að rækta betur eigið ímyndunarafl, að láta kylfu ráða kasti og treysta innsæinu. Jafnvel hefur dreymandinn lengi setið við skrifborð í vöku og þarf að glíma við þung verkefni í daglegu lífi og hér er barnslegt innsæi dreymandans því að hrópa út í drauminn til að fá útrás fyrir leikgleðina sem býr innra með okkur öllum.

Að dreyma um mat …

Hvaða hluti dreymandans er vanræktur? Er dreymandinn jafnvel að drukkna í verkefnum? Hvaða skort í vöku, er dreymandinn að reyna að bæta upp fyrir með óbærilegu átinu í svefni (eða hvers þarfnast hann í vöku, sem gerir að verkum að hann orkar glorsoltinn í draumi?) Gæti verið að dreymandinn hafi unnið yfir sig og að ofátið merki þannig að dreymandinn hafi troðið of miklu í sig? Að hann eða hún sé að að springa úr inntöku og komi ekki fleiri verkefnum fyrir í daglegu lífi? Eða getur jafnvel verið að sultartilfinning dreymandans merki að hann (eða hana) skorti ákveðna orku í líf sitt og að dreymandinn verði að sinna eigin þörfum betur? Dreymandinn ætti að velta þessu fyrir sér; hvaða hluti lífs hans er vanræktur og hvers vegna sultartilfinningin herjar á hann í draumi … hvers kyns næringu hann þarfnast í vöku svo jafnvægi komist á lífið og tilveruna.

Næst þegar þú vaknar upp eftir lifandi og sterkar draumfarir; opnar augun undrandi og veltir merkingu draumsins fyrir þér – skaltu grípa penna og blað og hripa aðalatriðin niður. Veltu því líka fyrir þér hvernig þér leið í draumnum – lét reiði, ótti, gleði eða undrun á sér kræla? Lærðu að eiga samræður við eigin undirvitund með því að taka mark á eigin draumum, því einmitt þannig getur þú lært að þekkja hættumerki, batatákn og hvernig þú sem einstaklingur þroskast og síðast en ekki síst; hvernig þú átt að fá sem mest út úr lífinu.

 

Þýtt og staðfært: Huffington Post