KVENNABLAÐIÐ

Pinterest vs. Polyvore: Dagdraumar eða draumadressið

Það fer ekki fram hjá neinum sem talar við mig í meira en nokkrar mínútur að ég er forfallinn Pinterest fíkill. Það er svo auðvelt að gleyma sér tímunum saman í að hanna draumahúsið, finna hið fullkomna dress og gramsa í gegnum girnilegar uppskriftir sem vonandi verða prófaðar einhvern tíma. En það er einn galli við Pinterest sem fer stundum aðeins í taugarnar á mér. Dauðir tenglar.

Það er ótrúlega svekkjandi þegar maður hefur fundið þennan fullkomna hlut, æfingu eða uppskrift sem maður var að leita að og tengillinn leiðir mann í ógöngur. Hvar fæst flíkin? Hvernig hljóðar svo uppskriftin af þessari brjálæðislega girnilegu köku? Hvernig er fjórða skrefið í DIY (gerðu það sjálf/ur) verkefninu sem sést ekki á myndinni? Það má (internet) guð einn vita.

Pinterest hefur brugðist við þessu með því að setja sérstakan kauptakka í smáforritið sitt en er þetta nýtt af nálinni hjá þeim. Þetta er framför en ekki endilega hin fullkomna lausn þar sem þetta nær aðeins yfir takmarkað magn af vörum og ekki er ennþá hægt að nýta sér þennan kost í borðtölvum. Einnig hafa notendur kvartað yfir því að þessi möguleiki geri það að verkum að fréttastraumurinn þeirra fyllist af auglýsingum en ekki efni frá öðrum notendum.

Því var ég mjög ánægð þegar ég mundi aftur eftir POLYVORE. Vefurinn er eins konar gagnasafn fyrir föt og fylgihluti sem síðan er hægt að raða saman og búa til dress. Aðrir notendur gera slíkt hið sama og eins og á Pinterest geturðu fylgt eftir þeim notendum sem þér finnst hafa flottan stíl og þá birtast þeirra færslur í þínum fréttastraumi. Einnig er hægt að skoða heitustu trendin hverju sinni og fá innblástur frá þeim.

mynd 1

Dæmi um Polyvore samsetningu

Ég er sjálf hálfgerður byrjandi á Polyvore þar sem ég var að enduruppgötva vefinn eftir langt hlé. Vefurinn hefur því örugglega upp á margt fleira að bjóða en það sem ég mun telja upp hér, en við fyrstu sýn er þetta efnilegur vefur sem hefur þó nokkra kosti að bera sem mér finnst vanta á Pinterest.

Meðal þessarra kosta eru:

Sjáanlegt verð

Það er auðvitað gaman að láta sig dreyma og skoða fallega hluti án þess að pæla nokkuð í verðinu en það er mjög þægilegt að hafa möguleikann á því að vita hvar á skalanum: „Já, ég get sko alveg splæst þessu á mig“ til „Glætan spætan, þetta er greinilega bara fyrir Beyoncé“ hluturinn eða flíkin er.

mynd 2

mynd 3

Hvar fæst hluturinn?

Ef svo skemmtilega vill til að varan er á viðráðanlegu verði þá er algjör snilld að vita hvar hún fæst. Við hverja flík er tengill sem leiðir notandann beint inn á þá vefverslun sem selur vöruna. Hversu frábært!

Sköpun og sveigjanleiki: 

Þar sem Polyvore býður notendum að tengjast beint við Pinterest er mikið af Polyvore fatasamsetningum í gangi þar líka. Það er oft sem ég sé slíkar myndir og ég fíla bara sólgleraugun eða skóna en ekki allt dressið, en því verður ekki breytt. Á Polyvore geturðu séð nákvæmlega hvaðan hver flík er og bætt henni við samsetningu sem þér finnst flottari. Það er líka bara svo gaman að fá að skapa sjálf og mögulega gefa einhverjum öðrum innblástur.

mynd 4

Samsetning eftir mig

Niðurstaðan er sú að ég myndi ekki gera upp á milli þessara vefja þar sem þeir eru nógu ólíkir til að standa báðir fyrir sínu. Þeir hafa báðir sína kosti og galla.

Pinterest er persónulegri þar sem allir geta sett inn sitt eigið efni og er úrvalið meira þar sem hægt er að velja úr flokkum allt frá arkitektúr til barnauppeldis. Einnig er vefurinn gott skipulagstæki sem hjálpar notandanum að halda utan um ótrúlegt magn af tenglum á markvissan hátt. En eins og áður kom fram, mikið um dauða tengla þar og möguleikinn á því að versla beint í gegnum vefinn er ennþá takmarkaður.

Polyvore er hinsvegar tísku- og sölumiðaðri vefur þar sem það þarf ekki bara að láta sig dreyma, það er líka hægt að versla! Polyvore hefur einnig bætt við heimilisflokki þar sem hægt er að skoða fallega hluti fyrir heimilið og kannski er það fyrsta skrefið í að stækka vefinn.

Í stuttu máli sagt, þegar kemur að þeim flokkum sem báðir vefirnir bjóða uppá þá mæli ég með Pinterest fyrir dagdraumana og Polyvore ef þú vilt láta þá rætast.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!