KVENNABLAÐIÐ

K V Í Ð I: 7 athugasemdir sem aldrei ætti að segja við kvíðinn einstakling

Kvíði getur verið alveg skelfilegur óvinur. Hræðilegur að glíma við, afar raunverulegur í augum þess sem hann upplifir og um leið óskiljanlegur fyrir marga þá sem hafa aldrei þurft að takast á við kvíða.

Allflestir meina venjulega vel þegar misgáfulegar ráðleggingar eru látnar falla en orð geta ollið holundarsárum og ógætilegar athugasemdir geta jafnvel valdið viðkomandi varanlegum sálarskaða sem ýtir undir enn sterkari kvíðaeinkenni og hamla bata. Hér fara sjö athugasemdir sem aldrei ætti að láta falla við einstakling sem glímir við kvíða:

#1 – Æ, þetta er allt í hausnum á þér:

Það er ekkert grín að glíma við kvíða. Upplifunin – hvort sem um raunverulegar aðstæður eða óskilgreindan kvíða er að ræða – er mjög óþægileg og sársaukafull. Hraður hjartsláttur, öndunarerfiðleikar og handskjálfti eru meðal þeirra einkenna sem kvíðasjúklingar upplifa. Að heyra það í ofanálag að þínir nánustu taki tilfinningar þínar ekki alvarlega gerir stöðuna enn verri.

Kvíði er raunverulegur í augum þess sem hann upplifir og að gera lítið úr stöðunni getur kynt undir enn sterkari kvíða. Eina ráðið sem í raun er hægt að gera – fyrir utan faðmlag, að sjálfsögðu – er að ráðleggja viðkomandi að leita sér hjálpar hjá sérfræðing.

#2 – Róaðu þig bara niður!

Þetta hjálpar ekki. Það kemur kvíðasjúkling ekki að neinu gagni að vera sagt að róa sig niður. Reyndu frekar að hlusta, án þess að fella einhverja sleggjudóma um orðin sem eru látin falla. Það eitt að ljá eyra og að hlusta í einlægni getur gert kraftaverk. Reyndu að leggja fordóma til hliðar og reyna að viðhafa opið hugarfar meðan á samtalinu stendur. Viðkomandi þarfnast ekki frekari ráðlegginga: Hér er þvert á móti þörf fyrir vin sem dæmir ekki stöðuna. Kvíði er hreint helvíti að glíma við og þó þér finnist ekkert tiltökumál að setjast niður með tebolla og hlusta í einlægni án þess að breiða úr skoðunum þínum – þá getur skilningur og vinátta gert gæfumuninn fyrir þann sem á í hlut.

#3 – Æ, en þetta er nú ekki svona mikið mál …

Nei. Einmitt. Kannski ekki í þínum augum, en kvíðinn er mjög raunverulegur í augum þess em hann upplifir. Ekki gera lítið úr upplifunum þess sem segir þér í einægni frá kvíða sínum – að láta einhver orð á borð við þessi falla getur sært viðkomandi djúpu sári. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

#4 – En þú lifir ekkert svo erfiðu lífi?

Hafðu hugfast að kvíði er hugrænn og fellur undir geðraskanir. Þér getur sýnst allt vera í himnalagi – jafnvel samanborið við þín eigin verkefni og persónulega ábyrgð í daglegu lífi. En hér kemur samanburður ekki að neinu gagni. Hver og einn er einstakur að gerð og streituþröskuldur viðkomandi er annar en þinn. Það sem getur reynst einum smávægilegt verkefni getur orkað sem óyfirstíganleg hindrun í augum næsta manns. Mundu að dómharka gerir illt verra.

#5 – Hættu að stressa þig á þessu!

Ekki segja þetta. Lestu númer 4 aftur. Orð geta sært og streituþröskuldur mannfólksins er misjafn. Það þýðir ekkert að segja þeim sem glíma við krónískan kvíða að slaka bara á og slökkva á stressinu. Gerðu viðkomandi grein fyrir því að þú getir boðið fram vináttu þína, hlustað og verið til staðar – en að þú hafir í sjálfu sér ekki svörin við öllu. Það er eina svarið í sjálfu sér. Stundum getur nefnilega það eitt að tala frjálslega um stöðuna gert kraftaverk fyrir taugakerfið. Vinátta heilar.

#6 – En þú hefur ekki bara prófað jóga/íhugun?

Fólk sem er þjakað af kvíða er margt hvert orðið örmagna á að heyra af hinum og þessum úrræðum – drekka vatn, anda rólega, fara í göngutúra, hlæja upp í vindinn – en það merkir þó ekki að það sé með öllu bannað að leggja til úrræði. Öllu skiptir HVENÆR og HVERNIG orðin eru látin falla. Jóga, hugleiðsla og íhugun, allt þetta getur verið hjálplegt og hægt skokk getur líka komið boðefnaflæðinu af stað, unnið mót krónískri vanlíðan og stuðlað að aukinni lífsfyllingu.

En það merkir hins vegar lítið að stinga upp á slíkum úrræðum þegar viðkomandi er að fara gegnum heiftarlegt kvíðakast. Láttu orðin frekar falla þegar kvíðakastið er liðið hjá. Þegar viðkomandi er í nægilegu jafnvægi til að ræða slík úrræði. Stingdu upp á jóga þegar ró og friður ríkir og það sem meira er, skelltu þér með í fyrsta tímann ef þú hefur tök á!

#7 – Eru ekki til einhver lyf við þessu?

Sumir taka þunglyndislyf við kvíða. Aðrir iðka hugleiðslu. Einhverjir fara í göngutúra. Það finnst engin töfralausn við krónískum kvíðaköstum og hver og einn er einstakur. Ekki gera lítið úr kvíðaröskun viðkomandi með því að stinga upp á galdrapillum sem laga ástandið. Reyndu frekar, ef þú treystir þér til, að  vera til staðar fyrir viðkomandi og umfram allt, vertu opin/n fyrir því að hlusta á orðin sem látin eru falla þegar kvíðinn er sem verstur. Mundu að bros getur dimmu í dagsljós breytt og að kærleikurinn er alltaf eina svarið.

Þýtt og endursagt: Marie Claire

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!