KVENNABLAÐIÐ

Fortíðardraugar

Minningar sem fylgja manni út í lífið geta verið svo margvíslegar. Góðar og gleðilegar, slæmar og sorglegar. Sem allar fara samt í sama reynslubankann. Reynslu sína ætti hver manneskja að nýta sér til góðs. Hver var annars tilgangurinn með að ganga í gegnum hana? Og öll viljum við finna tilganginn með flestum hlutum.

Ef hlutirnir virðast tilgangslausir, þá býr maður til tilgang úr þeim. Ef þetta er ekki gert, getur maður auðveldlega fest sig í fortíðinni. Og þessir fortíðardraugar og fortíðarþrá geta skipst á að yfirtaka mann. Og eitrað nútíðina.

Á meðan hugurinn er fastur í fortíðinni, er alveg augljóst mál að ekki er verið að takast á við nútíðina.

Allir eiga sér fortíð. Allir hafa orðið fyrir slæmri reynslu einhvern tímann á lífsleiðinni. Og misjafnt hvernig fólk tekur á því. Það er engan veginn hægt að dæma neinn, hvernig hann eða hún tekst á við hlutina eða hversu fljótt fólk jafnar sig.

Það sem einum finnst ekkert mál, er kannski það erfiðasta af öllu hjá öðrum. Og við getum engan veginn sett okkur í spor annarra, í raun og veru, einmitt vegna þessa mismunar hjá okkur. Sumir hafa háan sársaukaþröskuld, aðrir lágan. Það er eins með andlega sársaukaþröskuldinn.

En það er hægt að láta fortíð sína leggja nútíðina og framtíðina í rúst. Með því að velta sér upp úr henni og greina hana í smáatriði. Reynslu sem ekki er hægt að breyta, bara nota.

En það er enginn nema maður sjálfur sem ræður því, þinn er hugurinn og viljinn. Þegar maður er á tímabili þar sem fortíðin virðist allsráðandi í huganum, þá er maður ekki að lifa.

Að lifa er að taka þátt í núinu. Hlusta á fuglana og barnshlátur, gleðjast með fólkinu sem í kringum okkur er, taka eftir ljósaskiptunum, finna lykt af nýslegnu grasi og blómum … og huga að framtíðinni.

Að velta sér upp úr fortíð er gagnslaust. Horfum frekar á morgundaginn með tilhlökkun, vegna þess að hver dagur er ný byrjun og tækifærin sem  fylgja honum eru endalaus.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!