KVENNABLAÐIÐ

Ætlar þú að hætta að reykja um áramótin?

Hefur þú strengt áramótaheit og ætlar að hætta að reykja? Til hamingju, ef svo er. Að hætta að reykja er það mikilvægasta sem þú getur gert til að bæta heilsu þína. Að ég tala nú ekki um sparnaðinn. Ef þú reykir einn pakka á dag hafa farið tæplega 205 þúsund í reykingar á þessu ári (17 þúsund krónur á mánuði). Það er ýmislegt hægt að gera fyrir þann pening.

Allir geta hætt, þú líka.. og það er aldrei of seint að hætta. Það borgar sig alltaf að hætta. Fyrir flesta er það mikið mál að hætta að reykja og tilgangslítið að gera slíkt með hálfum huga. Þú þekkir örugglega einhvern sem hefur hætt að reykja, því ættir þú ekki að geta það líka?

Reykingamönnum hefur fækkað verulega. Nú í ár 2004 reykja um 19% kvenna og 21% karla á aldrinum 15-89 ára daglega. Í yngsta aldurshópnum 15-19 ára reykja 12% daglega. Við höfum vissulega náð góðum árangri í að fækka reykingamönnum og samanborið við hin Norðurlöndin þá reykja Íslendingar næstminnst. En þegar hugsað er um skaðsemi reykinga eru þessar tölur allt of háar. Má þar nefna að reykingamenn undir fertugu eru í fimmfaldri hættu á að fá hjartaáfall miðað við fólk sem reykir ekki.

Auglýsing

Fyrsta skrefið er að vilja hætta. Að hætta að reykja er ferli sem oftast tekur nokkuð langan tíma. Langflestir reykingamenn eiga að baki nokkrar tilraunir við að hætta áður en þeim tekst það. Þessar tilraunir eru eðlilegur hluti af ferlinu. Það sem skiptir máli er að nýta fyrri reynslu til að læra af. Þó svo að flestir hætti af sjálfsdáðum, þá eykur þú líkurnar á árangri ef þú færð stuðning og ráðgjöf fagfólks.

Annað skrefið er undirbúningurinn. Góður undirbúningur skiptir miklu máli. Ráðlegt er að þú gefir þér að minnsta kosti tvær vikur í undirbúning. Því betri undirbúningur, því meiri líkur á að þú getir sagt skilið við reykingarnar og sért tilbúin(n) þegar fyrsti reyklausi dagurinn rennur upp.

Náðu þér í lesefni um skaðsemi reykinga eða upplýsingar um hvernig þú tekst á við að hætta. Mikið framboð efnis er á veraldarvefnum. Meðal annars hér á www.doktor.is og á vefsíðum Krabbameinsfélagsins, www.krabb.is en einnig er til fjöldinn allur af bæklingum. Ákveddu hvort þú ætlar að nota hjálparlyf svo sem nikótínlyf eða Zyban. Gerðu þér grein fyrir hversu mikla nikótínfíkn þú hefur með því að svara Fagerstöm-prófinu (nefnt fíknpróf hér á vefnum).

Skrifaðu niður 10 ástæður þess að þú ætlar að hætta. Þetta er mjög mikilvægt og gefðu þér góðan tíma til þess að hugsa málið vel og vandlega, ekki bara hugsa um af hverju þú ætlar að hætta heldur skrifaðu það niður. Geymdu blaðið á áberandi stað.

Næsta skref er að ákveða hvaða dag þú ætlar að hætta að reykja. Haltu undirbúningnum áfram og byrjaðu að mynda reyklaus svæði. Það gerir þú með því að hætta alfarið að reykja á þeim stöðum þar sem þú dvelur mest. Á þann hátt breytir þú venjum þínum og dregur úr reykingum.

Skráðu niður á hvaða tíma dags þú reykir venjulega og af hverju þú reykir þá? Í framhaldi af því skrifar þú hvað þú getur gert í staðinn. Hafðu tilbúin úrræði sem koma í stað reykinganna og vertu búin(n) að ákveða hvernig þú ætlar að bregðast við reykingalöngun og þeim aðstæðum sem geta reynst þér erfiðar.

Auglýsing

Góður undirbúningur sem felur í sér að þú sért tilbúin(n) til að hætta, hafir skoðað reykingavenjur þínar, og hafir farið vel yfir af hverju þú villt hætta. Allt þetta eykur verulega líkurnar á því að þér takist að hætta.

Þriðja skrefið er að hætta. Dagurinn sem þú hættir á að vera vel undirbúinn. Ef þú ætlar að nota nikótínlyf hafðu þau þá við höndina og notaðu samkvæmt leiðbeiningum. Hafðu blaðið með ástæðum þess að þú ætlar að hætta að reykja einnig við höndina ásamt allskonar staðgenglum fyrir sígarettuna svo sem gulrætur, menntol töflur og tannstöngla. Finndu eitthvað sem hentar þér. Drekktu mikið af vatni og burstaðu tennurnar reglulega. Mundu að löngunin til að reykja hverfur á tveim til þremur mínútum. Segðu fjölskyldunni, vinum og vinnufélögunum frá reykbindindinu og fáðu þau til að styðja þig. Það er mikilvægt að hafa stuðning meðan þú ert að hætta.

Lokaskrefið er að festa reykleysið í sessi. Einbeittu þér að því að vera reyklaus og hugsaðu um einn reyklausan dag í einu. Mundu að nikótínfíknin minnkar dag frá degi. Til að brjótast úr viðjum vanans þarftu að breyta lífsstíl þínum og það krefst mikillar vinnu að halda sér reyklausum.

Fagleg hjálp bætir árangur. Ef þú villt frekari stuðning þá hefur Krabbameinsfélag Reykjavíkur um árabil haldið námskeið í reykbindindi. Nánari upplýsingar um námskeiðin er að finna á www.krabb.is Hægt er að skrá sig á námskeiðin í síma 540 1900 og senda inn fyrirspurnir með tö lvupósti hallag@krabb.is

Einnig er hægt að fá aðstoð hjá Ráðgjöf í reykbindindi 800 6030 sem er símaþjónusta þar sem þeir sem vilja hætta eða eru nýhættir fá hvatningu, ráðgjöf og stuðning sérþjálfaðra hjúkrunarfræðinga. Fleiri aðilar bjóða upp á reykleysismeðferð og má finna yfirlit yfir þá á vef Lýðheilsustöðvar: www.lydheilsustod.is

Vertu frjáls, reyklaus á nýju ári !

Gangi þér vel

Halla Grétarsdóttir

hjúkrunarfræðingur,

fræðslufulltrúi hjá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur

Pistill Höllu Grétarsdóttur birtist upphaflega á vef Doktor: 

doktor_is_logo (1)

 

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!