KVENNABLAÐIÐ

Sviðsettu getnað úti í náttúrunni fyrir Bókina okkaR

Fyrsta alíslenska bókin um getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu mun vonandi líta dagsins ljós á næstunni en þrjár flottar konur hafa samið Bókina okkaR; þær Andrea Sóleyjar og Björgvinsdóttir hugmyndasmiður, Aldís Pálsdóttir ljósmyndari og Hafdís Rúnarsdóttir ljósmóðir.

BO andrea

Andrea Sóleyjar og Björgvinsdóttir

Allar myndir: Aldís Pálsdóttir

 

Söfnun fer nú fram á Karolina Fund og hefur um helmingur fjársins safnast en nú eru einungis þrír dagar eftir af söfnuninni. Aðspurð segist Andrea að óhætt sé að segja að næstu þrír dagar verði stressandi: „Við vonum að öllu hjarta að þeir sem geta styrkt okkur geri það því ef söfnunin tekst ekki 100% tapast sú upphæð sem safnast hefur. Við trúum á Bókina okkaR og ef söfnun tekst ekki, erum við handvissar um að aðrar leiðir verði til þess að hún komi samt út! Bókin okkaR óskar þessa dagana eftir styrkjum frá öllum þeim sem geta séð af einhverjum fjármunum og með þeim hætti er hægt að tryggja sér eitt eintak eða fleiri af bókinni þegar hún kemur úr prentun á næsta ári.“

 

Hér má smella til að styrkja þær

 

Bókin er fjórir kaflar – getnaður, meðganga, fæðing og sængurlega. Andrea semur textann, Aldís tekur ljósmyndir og sér um myndskreytingar í öllum fjórum köflunum þar sem sérstök áhersla er lögð á íslenska náttúru og sér Hafdís Rúnarsdóttir ljósmóðir um allt fræðilegt efni bókarinnar í framsetningu Andreu.

 

BO2

Hafdís ljósmóðir með enn eitt kraftaverkið

Segir Andrea að vissulega séu einhverjar bækur til um þetta efni á íslensku en engin þeirra sé alíslensk né fjalli um allt ferlið í heild sinni eins og gert er í Bókinni okkaR: „Við leggjum mikla áherslu á sængurlegukaflann sem á það til að gleymast en sem er ótrúlega mikilvægt tímabil. Að auki er Bókin okkaR einstök að því leyti að myndir Aldísar eru stórkostleg kynning á Íslandi og fegurð náttúrunnar.“

Í bókinni má finna sögur foreldra sem eru hnyttnar, opinskáar og sannarlega sannar. Þær svara ótal spurningum sem verðandi foreldrar hafa og sýna að vangaveltur þeirra eru eitthvað sem flestir foreldrar eiga sameiginlegt.

 

bo4

 

Við fengum leyfi til að birta eina fallega sögu eftir föður:

logandi hræddur

Fæðingin gekk ágætlega og ég reyndi að gera mig nytsamlegan en það gekk illa fyrir utan mjög gott val á tónlist til að hlusta á meðan á henni stóð. Mig langaði að taka þátt en mér leið illa í þessu herbergi og mér fannst þetta ekki staður fyrir karlmann sem hafði verið alinn upp í tilfinningasnauðu og „harkaðu af þér!“ umhverfi. En ég reyndi mitt besta til að setja mig inn í aðstæður, hughreysti barnsmóður mína og náði að loka á allar tilfinningarnar sem voru að brjótast upp á yfirborðið, ég reyndi að líta á þetta sem skylduverkefni sem tæki (vonandi) fljótt enda.

Ég var logandi hræddur og vissi ekkert hvernig ég átti að haga mér og ekki vildi ég tapa karlmennskunni sem ég hafði unnið hart að í fjölda ára. Um leið og stelpan okkar var sett upp á magann sagði barnsmóðir mín strax „Hún er alveg eins og þú!“. Ég horfði á hana í stutta stund og tók eftir öllum smáatriðunum í andlitinu á henni, það var rétt. Hún var alveg eins og endurgerð af mér.

Þarna stóð ég eins og sprungið glas sem var við það að hrynja en hélt þó reisn á viljanum einum. Ég stóðst þetta tilfinningaáhlaup í stutta stund eða þar til móðir mín hringdi. Ég man eftir því að hafa svarað í símann en um leið og ég heyrði rödd hennar missti ég símann á gólfið, ég fylgdi honum eftir því fæturnir héldu mér ekki lengur. Þarna kraup ég á hnjánum og grét meira en nýfædd dóttir mín.

Þetta var stundin sem líf mitt breyttist.

Sú einfeldningslega hugmynd mín um að barn gæti bjargað sambandinu okkar gekk auðvitað ekki eftir, við slitum sambúð 10 mánuðum eftir að dóttir okkar fæddist og engar endurlífgunartilraunir voru gerðar eftir það. Í framhaldinu upplifði ég kraftaverk. Ekki aðeins var mér færð dýrmætasta gjöf mín með barni heldur færði dóttir mín sjálfan mig aftur. Múrarnir féllu sem ég hafði ómeðvitað byggt upp frá því ég var ungur og í dag er líf mitt mun innihaldsríkara en áður. Ég hafði tilgang og í dag skiptir mig mestu hvernig dóttir mín upplifir mig og álit annarra skiptir minna máli. Ég hefði ekki viljað bjóða henni upp á þann mann sem ég var áður en hún fæddist. Ég hef ekki séð eftir því í eina mínútu að hafa verið ákvörðunarvaldur af því að dóttir okkar varð til og kom í heiminn, hún er heilbrigð og lifir mjög góðu lífi og ég hef hana til að lifa fyrir. Barnið bjargaði mér.

– Einnar stúlku faðir –

Myndir Aldísar í bókinni eru sláandi fallegar. Var ekki mikið verk að fá fyrirsætur og hversu langan tíma hefur tekið að safna myndum?

 

BO3

 

„Við byrjuðum hægt og rólega að safna myndum fyrir bókina og notuðum meðal annars eigin óléttubumbur sem myndefni. Verkefnið vatt hratt upp á sig og myndunum fór fjölgandi. Við áttuðum okkur á því á leiðinni að það væri ekki nóg að sýna bara myndir af þunguðum konum og því eru allir fjórir kaflarnir myndskreyttir eftir Aldísi.

Okkur tókst með ótrúlegum hætti að fá fólk til að sviðsetja getnað úti í náttúrunni og þegar bókin hafði fengið töluverða umfjöllun sóttust konur eftir því að fæðingin þeirra yrði fest á filmu fyrir bókina. Þeim konum erum við endalaust þakklátar. Án þeirra væri bókin hreinlega minna merk.“

Hér er Facebooksíða Bókarinnar okkaR

Hér er linkur á Karolina Fund

Styrkjum þessar flottu íslensku konur og frábæra bók!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!