KVENNABLAÐIÐ

Saudi-arabískar konur greiddu atkvæði til þingkosninga í dag

Saudi-arabískar konur greiddu atkvæði til þingkosninga í fyrsta sinn í sögu ríkisins í dag, Kosningaréttur saudi-arabískra kvenna var bundinn í lög fyrr á þessu ári, en Saudi Arabía er allra síðasta ríki heims sem afléttir banni kvenna til að leggja atkvæði sitt til þingkosninga.

Merk tímamót áttu sér því stað í sögu mannréttinda í dag, en auk þess að öðlast loks kosningarétt, hlutu konur í fyrsta sinn heimild til að bjóða sig fram til þings. Fram kemur á fréttavef BBC að 978 konur hafi boðið sig fram til þings, en 5.938 karlmenn buðu sig einnig fram að þessu sinni.

Þá greina saudi-arabískir ríkismiðlar frá því að þáttaka kvenna í kosningunum hafi verið talsverð, en nær 130.000 konur ljáðu kosningunum atkvæði sitt nú í ár. Tæplega 1.35 milljónir kvenna eru skráðar til búsetu í landinu og því má ætla að ein af hverjum tíu konum hafi tekið beinan þátt í þingkosningunum í dag, sem marka sem áður sagði, merk tímamót í sögu alþjóðabaráttu fyrir auknum réttindum kvenna.

Salma al-Rashed, sem varð allra fyrst saudi-arabískra kvenna til að skila atkvæði í sögulegum kosningunum, sagði þannig í viðtali við fréttastofu BBC:

Tilfinningin var ótrúleg. Breytingar eru stórt hugtak, en kosningarnar eru leiðin sem fara þarf til að tryggja að rödd okkar og réttindi séu tryggð.

Ófáar saudi-arabískar konur deildu tíðindunum og þeirri ljúfu reynslu að hljóta loks réttindi til að kjósa gegnum samskiptamiðla á borð við Twitter, en samtímis vilja þó helstu kvenréttindafrömuðir meina að kosningarnar séu einungis fyrsta skrefið. Konum er enn meinað að sitja undir stýri og þurftu þær því að þiggja bílfar á kosningastað en þær konur sem buðu sig fram til þings þurftu flestar að flytja kosningaræður sínar að baki skjólveggjum eða í afmörkuðu rými. Þá eru þeir kvenkyns frambjóðendur ótaldir sem urðu að treysta á hjálp karlmanna sem fluttu kosningaræður fyrir þeirra hönd.

Að því sögðu var þó merkt skref stigið í sögu mannréttinda í dag og fagnaði baráttukonan Hatoon al-Fassi þessum áfanga í viðtali við BBC

Blað var brotið í sögu mannkyns í dag og ég þakka almáttugum Guði fyrir þá náð að hafa upplifað þetta merka augnablik.

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!