KVENNABLAÐIÐ

Taktfast bossadúmp besta ráðið við organdi ungbarnagráti að mati barnalækna

Taktfast bossadúmp getur skipt sköpum þegar róa á organdi ungabarn sem finnur til líkamlegra óþæginda, hefur nýverið fengið sprautu í ungbarnaskoðun eða þarf einfaldlega að losna við loft. Þetta staðhæfir Dr. Robert Hamilton, barnalæknir nokkur sem heldur úti stofu sinni í Santa Monica, Kaliforníu, en læknirinn góði hefur þróað sérstakt grip sem hann segir undravert þegar nýfædd börn eigi í hlut. Dr. Hamilton mælist þó ekki til að takið sé nýtt til að róa börn sem eldri eru orðin en 3 mánaða, þar sem þau séu iðulega orðin of þroskuð og líkamlega burðug.

Dr. Hamilton, sem hefur starfað í faginu í rúma þrjá áratugi er augljóslega afar annt um skjólstæðinga sína og er ekki úr lagi að ætla að hér fari barnahvíslari en tæknina, sem hann notar, sýnir hann í forvitnilegu myndbandinu hér að neðan og ber ekki á öðru en að aðferðin skotvirki, en læknirinn kallar gripið THE HOLD, eða einfaldlega TAKIÐ, eins og tæknin myndi útleggjast á íslenska tungu.

Þá snýst tæknin um að krossleggja hendur barnsins á bringu þess og halda líkama barnsins stöðugum með einni hendi. Því næst ætti að grípa um bleyjuklæddan bossa barnsins með hinni hendinni og halla líkama barnsins í 45 gráðu halla, rugga barninu rólega upp og niður og ágætt getur verið að dúmpa léttilega á bleyjubossann meðan barninu er ruggað.

Skotvirkar, skemmtilega sætt og merkilega einfalt!

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!