KVENNABLAÐIÐ

Gjöf handa þér! – Afmælisrit Kvennablaðsins er komið út!

Kæru lesendur! Í tilefni af tveggja ára afmæli vefritsins www.kvennabladid.is var ákveðið að ráðast í að gefa út afmælistímarit og fagna þessum áfanga á eftirminnilegan hátt. Kvennablaðið var endurvakið sem vefmiðill í nóvember 2013 undir stjórn Soffíu Steingrímsdóttur framkvæmdarstjóra og Steinunnar Ólínu ritstjóra. Á þessum tveimur árum hafa yfir 400 höfundar lagt blaðinu til efni og greinar og er kvennabladid.is einn af mest sóttu óháðu vefmiðlum landsins.

Kvennablaðið kom fyrst út árið 1895 undir stjórn Bríetar Bjarnhéðinsdóttur sem ritstýrði því í 25 ár. Bríet er kunn fyrir störf sín í þágu kvenréttinda á Íslandi en hún var líka öflugur ritstjóri og blaðið varð undir hennar stjórn eitt vinsælasta blað landsins á þeim tíma. Í fyrsta tölublaði Kvennablaðs Bríetar mátti finna greinar, húsráð, uppskriftir og framhaldssögu svo eitthvað sé nefnt og við höfum svipaðan hátt á í þessu 1. prentaða tölublaði okkar og vonum að okkur hafi tekist að setja saman tímarit sem er uppfullt af fjöbreyttu efni fyrir allskonar fólk. Allt frá pólitík yfir í prjónauppskriftir.

Það er fyrir tilstilli auglýsingasölu sem við getum gefið blaðið og við biðjum ykkur endilega um að lesa það spjaldanna á milli, gefa það og lána öðrum til aflestrar en það er prentað í takmörkuðu upplagi – í aðeins 10.000 eintökum. Einnig verður tímaritið aðgengilegt á vefnum okkar. Í þessu fyrsta tölublaði koma ýmsir fastapennar Kvennablaðsins við sögu en líka má finna efni frá nýjum kröftum sem lögðu á brattann með okkur og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. En síðast en ekki síst viljum við þakka lesendum kvennabladid.is fyrir hreint ótrúlega góðar móttökur á undanförnum tveimur árum því án ykkar væri okkar vinna einskis virði.

Afmælistímaritinu ritstýra tvær konur sem eru eins ólíkar og dagur og nótt, vetur og sumar, sódavatn og Chardonnay, en samstarfið var geysilega farsælt og við vonum að það skíni í gegn við nánari skoðun. Tobba sá til þess að blaðið yrði ekki bara eins og áróðurspési frá fyrri öldum og Steinunn gætti þess að blaðið yrði ekki bara fyrir 25 ára og yngri.

Ykkar ritstjórar Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir & Tobba Marinósdóttir

Smelltu hér til að lesa afmælisritið í heild sinni. Ritið má einnig nálgast víða á kaffi og veitingahúsum í Reykjavík, Egilstöðum, Ísafirði og Akureyri auk eftirfarandi Krónuverslanna (frá og með fimmtudeginum 26. nóvember) :

Granda

Lindum

Reykjarvíkurvegi

Bíldshöfða

Mosfellsbæ

Reykjanesbæ

Nóatúni

Selfoss

Ritstjórnarpistill þessi birtist á vef Kvennablaðsins í dag, þann 25 nóvember 2015 af tilefni útgáfu afmælisrits Kvennblaðsins í tímaritaformi. Auk þess að koma út sem tímarit, er einnig hægt að lesa blaðið á vefnum, smellið HÉR

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!