KVENNABLAÐIÐ

Stelpur – Tíu skref að sterkari sjálfsmynd

Kynþroski og bólur, foreldrar, vinkonur og vinir, heilsa og lífsstíll, ofbeldi og einelti, sjálfstraust og ást, útlit og heilbrigði, eyðsla og sparnaður …

Allt þetta og miklu fleira skiptir unglingsstelpur máli. Í  bókinni Stelpur leggur metsöluhöfundurinn Kristín Tómasdóttir fram tíu leiðir fyrir þær að sterkari sjálfsmynd.

Kristín hefur skrifað fjórar bækur sem hafa selst í um 30.000 eintökum. Auk þess hefur hún haldið fjölda námskeiða fyrir unglinga um betri sjálfsmynd.

Hér er stuttur texti úr bókinni, úr kaflanum um vinkonur.

Stelpur frontur

Vandamál vinkvenna

Það er ekki óalgengt að upp komi alls konar vandamál milli vinkvenna. Oft er smá dramatík viðloðandi vinkonur, en að sjálfsögðu fer það eftir þeim sem eiga í hlut og hvernig vinkvennasambandinu er háttað.

Algeng vandamál eru baktal, öfundsýki, misskilningur og trúnaðarbrestur. Það fer alveg eftir karaktereinkennum og hegðunarmynstri þeirra vinkvenna sem í hlut eiga hvernig brugðist er við vandamálunum. Oft krauma þau undir yfirborðinu og skjótast svo upp eins og sprengjur þess á milli. Sumar stelpur bæla tilfinningar sínar varðandi þau vandamál sem skapast, aðrar láta í sér heyra við minnsta tilefni.

Öfundsýki getur verið mjög lúmsk og eitrað fyrir vinkonum. Sennilega er hún erfiðari þeim aðila sem öfundar, því það er vont að langa í eitthvað sem við getum ekki fengið. Öfundsýkin getur birst á margan hátt og oft tökum við ekki eftir því að hegðun okkar stýrist af öfundsýki. Hér eru nokkur dæmi um hvernig öfundsýkin getur birst:

  • Þú lætur eins og þér sé alveg sama.
  • Þú talar niður til eða gerir lítið úr.
  • Þú verður tilgerðarleg, t.d. ýkt glöð fyrir hönd vinkonu þinnar.
  • Þú skemmir eða stelur.

Öfundsýki er hinn eðlilegasti hlutur og öll höfum við einhvern tíma fundið fyrir henni. Aftur á móti er það miklu betri tilfinning að samgleðjast og það gefur meira af sér.

Ráðlegging!

Til þess að öfundsýkin skemmi ekki vináttusamband er gott ráð að viðurkenna öfundsýkina fyrir sjálfri þér og vinkonu þinni svo þið getið tekist á við hana í stað þess að hún hafi áhrif á vináttuna.

Baktal er nokkuð sem flestar vinkonur kannast við og orsakar oft vandamál og rifrildi. Baktal á sér oftast stað innan vinkvennahópa og verður meira eftir því sem hópurinn stækkar. Hér er nauðsynlegt að gera greinarmun á tvennu, þ.e. baktali og kvarti. Það er alveg eðlilegt að kvarta undan vinkonum sínum en það er sambærilegt því að kvarta undan foreldrum eða systkinum. Slíkt kvart á ekki að skaða neinn enda saklaust og eðlilegt. Ef um kvart er að ræða þá skaltu ekki bera það áfram. Aftur á móti getur saklaust kvart undan vinkonu við aðra vinkonu auðveldlega orðið að baktali. Hér kemur ágætis þumalputtaregla til þess að greina þarna á milli:

Kvart: Þú ert að kvarta undan vinkonu þinni ef þú þorir að bera kvartið undir vinkonuna sjálfa.

Baktal: Þú ert að baktala vinkonu þína ef þú þorir ekki að segja henni sjálfri það sem þú ert að segja um hana við aðrar vinkonur og ef þú veist að vinkonu þinni myndi sárna verulega við að heyra ummælin.

Baktal er ávani og snýst um að einblína á hið neikvæða í fari vinkvenna sinna og bera það í aðrar vinkonur. Í þeim vinkvennhópum þar sem viðgengst mikið baktal er sjaldnast neinn undanskilinn. Ef þú ætlar að taka þátt í baktalinu þá skaltu vera meðvituð um að slíkt baktal viðgengst sennilega líka um þig.

Mikið baktal?

Þú getur brotið ísinn þegar allar vinkonur þínar eru saman og sagt þeim að þér finnist vera allt of mikið baktal í hópnum og að þið verðið að laga það. Það hjálpar engum að þylja upp hver hafi sagt hvað um hverja, en sameinast um að bæta þetta svo þið getið haldið áfram að vera góðar vinkonur. Þið getið t.d. ákveðið að segja alltaf eitthvað fallegt um þær vinkonur sem ekki eru á staðnum. Mundu að þetta er hagur ykkar allra því enginn vill láta baktala sig!

Eitt af því sem við lærum sem unglingar er að eiga leyndarmál. Það getur verið alveg rosalega erfitt og flestir þekkja það að hafa kjaftað frá leyndarmáli. Þagmælska er nokkuð sem við erum misgóð í en það fer líka eftir eðli leyndarmálsins hversu auðvelt er að þegja yfir því.

Stundum er sagt að þegar tveir aðilar hafa treyst hvor öðrum fyrir leyndarmáli þá hafi skapast vinátta því að leyndarmál séu forsenda þess að geta verið góðir vinir/vinkonur. Að sama skapi byggist vináttan á þessu leyndarmáli og ef kjaftað er frá getur vináttan farið út um þúfur! Hafðu þetta hugfast þegar það freistar þín að segja frá því sem þér hefur verið trúað fyrir. Vináttan getur verið í húfi. Er það þess virði?

Hér komum við aftur að því að á unglingsárunum erum við alltaf að læra. Stundum þurfum við að gera það með því að reka okkur á og ef það gerist þá er langbest að viðurkenna sökina, biðjast afsökunar og læra af reynslunni.

Unglingar eru ekki sjálfráða fyrr en eftir 18 ára aldur sem merkir að foreldrar og forráðamenn bera ábyrgð á unglingunum sínum. Ef þér er trúað fyrir leyndarmáli um að vinkona þín sé í hættu, líði verulega illa eða búi við slæmar aðstæður þá gerir þú viðkomandi vinkonu greiða með því að láta foreldra þína eða annan fullorðinn aðila vita. Samkvæmt íslenskum lögum ber þessum fullorðna einstaklingi að koma vinkonu þinni til aðstoðar.

Ef þér finnst vinkona þín hafa brugðist þér er gott að minna sig á að þið eruð að „læra“ að verða góðar vinkonur. Þá skiptir máli að geta fyrirgefið, rætt saman um að traustið hafi brugðist og hvernig sé hægt að bæta það. Auðvitað eru ágreiningsefnin og vandamálin misalvarleg en þá á alltaf að vera sjálfsagt að ræða málin og reyna að finna lausn á þeim. Mundu að þú ert líka mannleg og hugsanlega átt þú eftir að gera mistök í framtíðinni sem þú vildir óska að vinkona þín fyrirgæfi þér.

Þegar vinkonur hafa fyrirgefið hvor annarri og leyst ákveðin vandamál er líklegt að vinkvennasambandið verði ennþá traustara en það var áður. Það má því segja að stundum séu vandamálin eða rifrildin sannarlega þess virði!

Forlagið gefur út þessa bók

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!