KVENNABLAÐIÐ

Ekki alveg barnung mamma!

,Er ég orðin of gömul til að eignast barn?“ hef ég oftsinnis verið spurð að. Oft er um að ræða konur sem eru um fertugt og eiga engin börn eða eiga stálpuð börn og langar í eitt lítið áður en þær hætta. Og svo er einnig algengt að kona sé komin með nýjan mann og þau langi að fullkomna samband sitt með barni.

Ekki er hægt að gefa neitt einhlítt svar við þeirri spurningu hvenær kona sé orðin of gömul til að eignast barn. Hraust 43 ára kona í góðu líkamsformi getur mögulega eignast heilbrigt barn án mikillar fyrirhafnar meðan önnur kona á sama aldri er e.t.v. komin með einhverja áhættuþætti eins og offitu og of háan blóðþrýsting sem setja hana í áhættu á erfiðum kvillum í meðgöngu. Svo setur móðir Náttúra konum skorður því upp úr fertugu minnkar frjósemi þar til egglos hætta með öllu og konan fer úr barneign. Gerist þetta oft hægt og sígandi milli fertugs og fimmtugs en frjósemi byrjar að minnka upp úr 35 ára aldri og gengur oft verr að verða barnshafandi þótt meðganga og fæðing sé ekki endilega meira mál.

Að verða barnshafandi

Eins og áður var sagt fer frjósemi minnkandi eftir 35 ára aldur og getur tekið lengri tíma að verða barnshafandi. Einnig eru fósturlát algengari eftir því sem konur eldast. Hjá yngri konum er talað um ófrjósemisvandamál eftir 2 ára árangurslausar barneignartilraunir en konum sem orðnar eru 35 ára er ráðlagt að leita aðstoðar ef búið er að reyna við barneignir í ½ ár án árangurs. Það er vegna þess að það tekur tíma að rannsaka orsakir ófrjósemi og leita leiða í meðferð og það munar um hvern mánuðinn sem líður nær tíðahvörfum.

En þrátt fyrir að lengri tíma geti tekið að verða barnshafandi er algengara að eldri konur eignist tvíbura. Þá helst tvíeggja tvíbura. Skýringin er ekki einhlít en sjálfsagt spilar þar inn í betra næringarástand og hærri styrkur FSH hormóns en hjá yngri konum.

Meðgangan

Oft kvarta konur um að þær séu þreyttari í meðgöngu á fertugsaldri en þær voru á tvítugsaldri. Fertug kona í góðu formi getur þó átt mun auðveldari meðgöngu en tvítug kona í lélegu formi. Fram hjá því verður þó ekki litið að eftir því sem konur eldast aukast áhættuþættir eins og offita, hár blóðþrýstingur, sykursýki af tegund 2 og meðgöngusykursýki. Og þar spilar vitaskuld mataræði og hreyfing meginrullu. Konur sem huga á barneignir, sama á hvaða aldri þær eru, ættu því að undirbúa sig með hollu mataræði og líkamsþjálfun til að meðgangan verði þeim auðveldari.

Fóstrið

Eftir því sem konur eldast aukast líkur á litningagöllum eins og Trisomy 21 (Downs heilkenni) hjá fóstrinu. Við 25 ára aldur eru líkurnar á Downs heilkenni 1/1167, við 35 ára aldur 1/270 en við 40 ára aldur 1/75. Öllum konum er nú boðið upp á ómskoðun við 12 vikna meðgöngu þar sem metnar eru líkur á litningagöllum og alvarlegum byggingagöllum. Sú skoðun metur líkurnar með um 77% nákvæmni. Til að vera nær alveg viss um hvort barn hafi litningagalla þarf að gera legvatnsástungu. Sú skoðun gefur 99% vissu. Öllum konum sem orðnar eru 35 ára eða hafa áður fætt barn með litningagalla er boðin legvatnsástunga við 15 vikna meðgöngu. Legvatnsástungu fylgir u.þ.b. 1% líkur á fósturmissi. Einnig er mögulegt að gera svokallaða fylgjusýnistöku við 11 – 13 vikna meðgöngu en þá er fósturlátshættan 1 ½ – 2%.

Fæðingin

Það er engin ástæða að ætla að fæðing geti ekki gengið fyllilega jafn vel fyrir sig hjá konu sem er komin yfir 35 ára aldur og þeirri sem er 25 ára, svo framarlega sem konan er í góðu líkamlegu og andlegu formi. Hins vegar eru ýmsir kvillar algengari hjá eldri konum sem auka hættu á inngripum eins og sogklukku og keisaraskurði.

Brjóstagjöfin og barnið

Allar forsendur eru til að brjóstagjöf eigi að ganga vel hjá konum sem orðnar eru vel þroskaðar og hafa öðlast þolinmæði og biðlund sem oft er þörf á meðan komist er yfir byrjunarerfiðleikana sem flestar konur finna fyrir í meira eða minna mæli. Þó eru eldri frumbyrjur stundum aðeins of nákvæmar og stressaðar yfir umönnun barnsins til að þær nái að höndla þá afslöppun sem brjóstagjöfin þarfnast. Þær þurfa því oft mikinn stuðning og hvatningu ef vel á að takast til. Hinar þroskuðu mömmur eru þó oftast mun öruggari í umönnun barna sinna en þær yngri – sérstaklega ef þær eiga nokkur fyrir og börnum eldri foreldra reiðir yfirleitt mjög vel af og standa sig oft betur í skóla en börn yngri foreldra.

Lífið eftir fæðingu

Það eru mikil viðbrigði fyrir fólk sem aldrei hefur eignast barn að verða foreldrar um fertugt. Oft fylgir þessari miklu skuldbindingu streita og kvíði og konur (sem og menn) sem gengið hafa í gegn um ófrjósemismeðferð lenda oft í fæðingarþunglyndi. Það eru einnig miklar lífsstílsbreytingar sem fylgja því að eignast fyrsta barn og fólk um miðjan aldur orðið fast í sínum venjum og því erfitt að aðlaga þær þörfum ungabarnsins. Einnig á fólk oft orðið erfiðara með miklar vökur og óreglulegt svefnmynstur þegar það er orðið eldra en þegar það var ungt. Oft eru foreldrar parsins orðnir of fullorðnir til að passa og systkini og vinir búnir að fá nóg af börnum. Því eru eldri foreldrar ungra barna oft mjög þreyttir og svefnvana.

Það fólk sem eignast börn um miðjan aldur lendir oft í því að allir vinirnir eru b únir með sínar barneignir og hafa því önnur áhugamál. Þeir fjarlægjast því oft á tíðum og fólk stendur uppi dálítið eitt í sínu barneignaferli.

Ennfremur getur verið erfitt að rækta parsambandið, sem var jafnvel orðið fast í viðjum vanans, eftir að lítill einstaklingur kemur og þarfnast allrar orku foreldranna. Því eru hjónaskilnaðir töluvert algengir meðal fólks sem gengið hefur í gegn um ófrjósemismeðferð sem og þeirra sem eignast fyrsta barn seint á ævinni.

Á móti kemur að fólk yngist oftast frekar upp við að eignast barn og því fylgir ný upplifun og tækifæri til samveru við yngra fólk. Einnig eru uppi kenningar um að konur sem eignast börn um fertugt verði langlífari en kynsystur þeirra sem ekki eiga börn um þann aldur. Það má líka búast við því að konur sem fara út í barneignir um fertugt séu fyrir í betra líkamlegu formi og það að ganga með, fæða og eltast síðan við lítið barn alla daga er nokkuð örugg leið til að halda konum í góðri þjálfun.

Þegar á heildina er litið er því ekkert sem mælir móti því að konur eignist börn svo lengi sem náttúran lofar. Konur hafa mikið að gera við nám og starfsframa og hafa jafnvel ekki tíma fyrir hjónaband og barneignir fyrr en þær eru komnar hátt á fertugsaldur. Því hefur það færst í vöxt á síðustu árum að konur fresti barneignum langt fram á fertugsaldur og jafnvel fram yfir fertugt. Konum sem kjósa þennan lífsstíl á sjálfsagt eftir að fjölga á næstu árum. Aðalatriðið fyrir konur er því að nærast af skynsemi, forðast áfengi, tóbak, fíkniefni og lyf, lifa öruggu kynlífi og stunda holla hreyfingu og uppbyggingu líkamans framan af ævinni, sem og rækta samband sitt við vini, ættingja og maka sinn. Þá geta þær átt von á að barneignir um miðjan aldur verði þeim síst erfiðari og jafnánægjulegar og væru þær tíu árum yngri.

Umfjöllun þessi birtist upprunalega á vefsíðunni DOKTOR og er endurbirt hér að fengnu leyfi: 

doktor_is_logo (1)

Hæ!

Takk fyrir heimsóknina á sykur.is. Okkur þætti það alls ekki leiðinlegt ef þú myndir fylgja okkur á Facebook. Við erum ekki óþolandi þar. Í alvöru!